Koppaþjálfun

Spurning:

Komdu sæl Guðríður Adda.

Ég vona að mín fyrirspurn sé einhversstaðar innan þíns sviðs og þú getir ráðlagt mér eitthvað. Þannig er mál með vexti að ég á dóttur sem er tveggja og hálfs árs og ég hef verið að reyna að venja af bleyju. Það hefur vægast sagt gengið illa, hún er hrædd og mjög óörugg meðan hún situr á hvort sem er koppi eða barnasetu, og það er alveg sama hvað ég læt hana sitja lengi og hversu mikinn djús ég læt hana drekka, það kemur bara ekki neitt. Ég er búin að prófa ýmislegt sem virkaði vel á eldri dóttur mína s.s. að taka heila helgi hér heima í rólegheitum og láta hana vera bleyjulausa, en hún bara fer út í horn og pissar þar á meðan ég sé ekki til.

Hún er alveg greinilega farin að finna það að þetta er eitthvað sem hún þarf að fara að hætta að gera, þ.e. að vera með bleyju, því hún fer alltaf eitthvað afsíðis á meðan og verður reið ef að ég kem að henni. Ég á ekki mjög gott með að tala um þetta við hana eða útskýra fyrir henni þar sem að hún er frekar sein til í tali og talar mjög óskýrt og eiginlega aldrei í heilum setningum. Mér hefur ýmislegt verið ráðlagt og margt hef ég prófað, flest nema að setja Moggann í staðinn fyrir bleyju, það er víst sagt virka ansi vel! Sumir segja líka að ég sé of stressuð yfir þessu, ég eigi bara að bíða þar til hún er sjálf tilbúin, það má vel vera að ég sé að bera hana of mikið saman við eldri dótturina sem var hætt á tveggja ára afmælinu sínu. En hún er komin vel á þriðja ár, er stór eftir aldri og fer að byrja í leikskóla og mér finnst ekki nógu gott ef að hún þarf að vera með bleyjuna þar. Vona að þú getir gefið mér einhver góð ráð til að vinna eftir.

Bestu kveðjur og fyrirfram þökk.

Svar:

Góðan dag og þakka þér fyrirspurnina.

Þú vilt venja dóttur þína af bleiunni, veltir því fyrir þér hvort þú sért of stressuð yfir þessu, og telur þig hafa reynt allt nema Moggann, m.a. að vera heima í rólegheitum og gefa henni mikið að drekka.

Nú þekki ég ekki Mogga-aðferðina, en ég get mér til um að barninu finnist svo óþægilegt að hafa hann milli fótanna að það vilji allt til vinna, meðal annars að pissa í kopp eða klósett, til að losna við hann. Í mjög stuttu máli sagt, þá ræð ég þér frá því að kenna hreinlæti eða nokkuð annað með því að gera aðstæður svo frábítandi að réttu athafnirnar þvingist fram og með þeim losni barnið undan óþægindunum. Það flýr þá óþægindin með því að hlýða. (Á tæknimáli kallast þetta „neikvæð styrking“ eða „flótti og forðun“). Þótt neikvæð styrking leiði til sömu niðurstöðu og sú aðferð sem ég ætla að segja þér frá, þá er hún á ýmsan hátt mjög takmörkuð t.d. að ólíklegt er að barnið setjist að eigin frumkvæði á koppinn, og aðferðin felur einnig í sér ýmsar hliðarverkanir í samskiptum foreldra og barns.

Sú kennslu- og stjónunaraðferð sem best reynist kallast „jákvæð styrking“ og felur það í sér að þú tengir vel saman eitthvað sem barnið sækist eftir s.s. hrós og ávaxtasafa við góða frammistöðu þess í því sem þú vilt gjarnan sjá meira af, s.s. að halda buxunum þurrum og pissa og kúka í kopp og klósett.

Eins og þú nefnir sjálf þá eru börn misfljót að venjast af bleiu og þú talar um að þessi dóttir þín sé frekar sein til máls. Það þýðir þó ekki að þú getir ekki kennt henni að halda sér þurri.

Það eru margar aðferðir og útfærslur til af því hvernig fólk getur borið sig að, þótt það fylgi tilteknum reglum. Ég ætla að rekja aðferð sem í megindráttum byggir á rannsóknum þeirra Azrin og Foxx frá 1974, og vil jafnframt benda þér á að bókin þeirra var þýdd á íslensku af Aðalbjörgu Jónasdóttur og gefin út af Iðunni árið 1988. Bókin heitir: Að venja á kopp á einum degi. Hún sést yfirleitt á bókamörkuðum og hægt er að kaupa hana þar fyrir lítinn pening.

Þú nefnir einnig að þótt þú látir dóttur þína sitja á koppnum, þá komi ekkert og hún sé farin að fara afsíðis til að pissa og verði reið þegar þú kemur að henni. Það getur verið mjög tímafrekt að venja barnið á koppinn. Þá er það látið sitja þar til eitthvað kemur. Ef ekkert gerist, hefjast fortölur og tuð og pissi barnið síðan á sig rétt eftir að búið er að taka það af koppnum, þá fer nú oft að kárna gamanið. En það eru viðbrögð hinna fullorðnu við því að barnið gerir ekki eitthvað sem það hefur í raun ekki enn þá lært að gera. Eitt leiðir af öðru og barnið tekur upp á því að fela sig og reyna að leyna því að það sé búið að pissa eða kúka á sig. Komi einhver að barninu, verður það reitt.

Mikilvægt er að gott samstarf sé milli foreldranna um þjálfunina og stuðningur annarra á heimilinu svo vel gangi. Ef hins vegar annað foreldrið hefur fram að þessu séð um að rey na að venja barnið á koppinn án árangurs, þá þarf að hafa einhvers konar kaflaskil. Helst að hitt foreldrið eða stálpað systkini taki að sér nýju þjálfunina. Ef aðstæður leyfa það ekki, þyrftu nokkrir dagar eða ein vika að líða án þess að nokkuð sé átt við að venja barnið, og að ný þjálfun eigi sér stað í öðru herbergi en áður var (stimulus control).

Eftirfarandi umfjöllun er ekki síður hugsuð til gagns fyrir aðra lesendur. Ekki er miðað við að barnið sé sérstaklega þverlynt, þroskahamlað eða að málþroski þess sé mjög takmarkaður.

Þá er fyrsta spurningin: Hvenær er barnið tilbúið?

1. Aldur. Sem almennt viðmið þarf barnið að vera tæplega tveggja ára (20 mánaða).

2. Þvagblaðra.
a. Pissar barnið mikið í einu (frekar en í smábunum allan daginn)?
b. Helst barnið þurrt í marga klukkutíma?
c. Virðist barnið vita af því þegar það er að pissa (sést það af svipbrigðum og annarri hegðun)?

3. Líkamlegur þroski. Getur barnið gengið hjálparlaust á milli herbergja? Hefur það næga stjórn á hreyfingum sínum til að tína upp smáhluti?

4. Skilningur.
Biddu barnið að:
a. sýna þér t.d. nefið, augun og munninn, o.s.frv.,
b. setjast á stól og standa upp,
c. rétta þér eitthvað, t.d. buxurnar sínar,
d. herma eftir þér, t.d. klappa,
e. koma með þér inn í annað herbergi, t.d. inn í eldhús eða baðherbergi,
f. setja einhverja tvo hluti saman, t.d. dúkkuna í vagninn,
g. fara inn í annað herbergi og sækja eitthvað sem það þekkir vel, s.s. bílinn, dúkkuna eða koppinn, ef það er ekki búið að fá óbeit á honum.

Það sem þarf er:
1. Dúkka (helst sem pissar) í hólkvíðum buxum með slakri teygju.
2. Þægilegur koppur.
3. Mikið af drykkjum sem barninu finnast góðir, t.d. í smáfernum.
4. Smáverðlaun sem hægt er að hafa í vasa, eitthvað sem barninu finnst gott. T.d salthnetur, kartöfluflögur, harðfiskur eða söl ef barnið er vant sölvum.
5. Íþróttabuxur (jogging) með rúmri teygju þannig að barnið geti leyst niður um sig og hysjað upp um sig aftur.
6. Vinalisti, þ.e. nöfn fjölskyldu og vina og annarra sem barnið þekkir og finnst mikið til koma að gleðist með því yfir framförunum.

Markmið: Að barnið verði sjálfbjarga við að pissa og kúka í koppinn.

Aðstæður/aðdragandi:
Barnið hafi vanist koppnum, – hafi t.d. fengið að ganga um með hann tómann.
Barnið hafi vanist víðu buxunum og jafnvel að búið sé að æfa það í að taka þær niður um sig og girða sig aftur.
Barninu er leyft að horfa á ykkur fara á salernið og athygli þess er vakin á hverju skrefi fyrir sig: Sjáðu, nú tek ég niður buxurnar, nú sest ég á klósettið…
Barnið þekki og skilji helstu orðin sem verða notuð s.s. þurr, buxur og blautur.
Barnið þarf að vera útsofið og vel fyrir kallað.
Barnið fái mikið að drekka alla helgina, sem skapar fleiri tækifæri fyrir það til að læra nýja siði.
Fyrirmæli séu stutt og einföld orð notuð.
Friðsæl helgi án gestagangs eða annarrar truflunar.
Ekkert sjónvarp, útvarp eða annað í gangi á meðan verið er að þjálfa barnið.

Hegðun:
Eitt skref er tekið í einu.
Hvað barnið á að geta gert í hverju skrefi er vel skilgreint.
Hvert nýtt skref felur í sér aukna færni frá síðasta skrefi.
Hvert nýtt skref kemur í beinu framhaldi þess sem á undan fór.
Hvert nýtt skref er undanfari eða aðdragandi þess skrefs sem á eftir kemur.

Afleiðingar:
Foreldrar (sá sem sér um þjálfunina) fylgjast vel með öllu sem barnið gerir og er í rétta átt.
Foreldrar bregðast vel við og umbuna jafnóðum hegðun barnsins samkvæmt því skrefi sem verið er að kenna hverju sinni, Strax, Jákvætt og Örugglega (Muna orðið SJÖ).
Umbun fellur jafnframt niður í skrefinu næst á undan sem neðar er í stiganum og fjær markmiðinu, og barnið á þegar að hafa á valdi sínu.

Þjálfunin felst í því að barnið sjái hvernig dúkkan pissar í koppinn og geri eins. Þegar þjálfuninni er lokið verður barnið ekki aðeins farið að segja til, heldur hefur það náð „hreinlætisprófinu“.

Aðferðin hefur fleiri kosti en mælanlegan árangur: Foreldrum finnst að með henni náist betra og nánara samband við börnin, og að þau sýni aukið sjálfstæði í ýmsu öðru, s.s að klæða sig og matast. Allir sem að þjálfuninni koma virðast hafa af henni gleði. Einnig sýnir eftirfylgd að árangur er viðvarandi.

Eftir þjálfunina á barnið að geta fundið þegar því er mál, áður en þörfin er orðin allt of brýn.
Það á einnig að geta:
1. Sótt koppinn.
2. Leyst niður um sig.
4. Sest á koppinn og pissað.
5. Þurrkað sig að neðan.
6. Staðið upp og girt sig.
7. Tekið koppinn og hellt úr honum í salernið án þess að sullist niður.
8. Hleypt niður á eftir.
9. Gengið frá koppnum á sinn stað, og
10. þvegið sér um hendurnar, ef það hefur skemil.

Þú byrjar á því að hrósa og umbuna þegar barnið ræður við fyrsta skrefið, síðan þegar það ræður við annað og þá það þriðja, og svona koll af kolli. Ef þú hugsar þetta svo að barnið vinni sér inn hrós og umbun, þá má e.t.v. segja að eftir því sem barninu fer fram inni það af hendi aukna vinnu fyrir sama kaup.

Þjálfun

Þú sýnir barninu öll ofangreind 10 skref í einu með dúkkunni. Ein umferð ætti að vera nóg. Ef dúkkan er ekki pissudúkka, þá reynir á að draga athygli barnsins frá eitt augnablik og lauma smá vatni í koppinn. Hugsaðu þetta eins og leik eða íþróttagrein, hvettu dúkkuna óspart og hrósaðu henni í hástert fyrir hvert skref Strax, Jákvætt og Örugglega. „Nei sko, sjáðu hvað Didda er stór stelpa, hún getur pissað í koppinn“. Tryggðu að barnið sjái vatnið í koppnum og þreifi helst á því. Þegar Didda dúkka hefur pissað í koppinn, þá gefurðu henni góðgæti. En þar sem dúkkan getur ekki borðað það segirðu barninu að það megi fá nammið ef það gerir eins og dúkkan og pissi í koppinn. Síðan spyrðu beint: Ætlar þú að pissa í koppinn eins og Didda? Þegar barnið kinkar kolli eða jánkar, seturðu bitann upp í það. Síðan heldurðu áfram næstu skref við sýnikennsluna með dúkkkunni og lýkur umferðinni.

Þegar „dúkkan“ er búin að ganga frá koppnum og þvo sér hendurnar, skaltu vekja athygli barnsins á mikilvægi þess að buxurnar séu þurrar. Spurðu barnið hvort dúkkan sé þurr og láttu það þreifa á henni. Vertu glöð, hrósaðu dúkkunni og bjóddu henni verðlaun. Spurðu barnið hvort það sé þurrt og láttu það þreifa á sér. Þetta þarf að tímasetja vel því mikilvægt er að barnið sé þurrt. Þegar barnið jánkar, skaltu brosa, klappa og faðma barnið að þér og hrósa því fyrir að vera „stóra stelpan sem er þurr“ og setja góðgætið upp í barnið. Endurtaktu þetta nokkrum sinnum með fárra mínútna millibili og hafðu þá einhvern drykk í verðlaun.

Eftir nokkur skipti, bleytirðu buxur dúkkunnar og barnið kemst að því að Didda er ekki þurr. Nú verðurðu leið og spyrð barnið hvort Didda sé lítil. Þegar barnið svarar játandi, segirðu að Didda þurfi að æfa sig að pissa í koppinn svo hún verði þurr, og að nú skuli barnið kenna Diddu að pissa í koppinn.

Þá er komið að barninu að „kenna“ dúkkunni með því að láta hana fara í gegn um öll 10 skrefin. Þú styður þétt við og gefur stutt fyrirmæli fyrir hvert skref og aðstoðar barnið aðeins ef með þarf án þess að taka fram fyrir hendur þess. Þú heldur áfram að hrósa dúkkunni í hverju skrefi og segir barninu að hrósa henni líka hástöfum. Að öllum líkindum hefur barnið þegar byrjað á því. Það er allt í lagi að ýkja viðbrögðin svolítið, klappa saman höndunum og faðma dúkkuna.

Þegar kemur að 4. skrefinu og barnið kennir Diddu að pissa í koppinn sem síðan á að fá nammið, þá gerir þú eins og fyrr og segir barninu að það fái nammið þegar það pissar í koppinn eins og Didda. Síðan spyrðu það beint og setur nammið upp í barnið um leið og það hefur gefið merki um samþykki sitt.

Láttu barnið fara í gegnum þessi 10 skref svona þrisvar til fjórum sinnum og þreifa á buxum Diddu eftir hverja umferð með sömu afleiðingum og áður. Láttu barnið einnig þreifa á sér og finna að það er þurrt. Hrósaðu því fyrir að buxurnar séu þurrar og gefðu því bita og mikið að drekka.

Þú endar svo kennslustundina þegar barnið hefur vald á að „kenna dúkkunni“ öll 10 skrefin í ferlinu, og dúkkan er stór og dugleg og þurr þegar barnið þreifar á henni.

Á meðan þessu stendur læturðu barnið þreifa á sjálfu sér alltaf við og við og verðlaunar það með miklum drykk fyrir að vera þurrt.

Nú þekkir barnið ferlið vel og komið er að því sjálfu og það á að sýna dúkkunni að það er líka stórt. Þið gerið alveg eins, barnið fer í gegn um öll 10 skrefin, en dúkkulaust. Þú getur talað fyrir munn dúkkunnar og látið hana hrósa barninu með þér.

Þú reynir að fara í gegn um umferðina – öll 10 skrefin, svona fjórum sinnum á klukkutíma. Þegar kemur að 4. skrefinu læturðu barnið sitja svona 7 til 10 mínútur og standa svo bara upp og halda áfram á næsta skref. Það mun koma að því að barnið pissi í koppinn. Og fyrr hrósar þú ekki fyrir það skref, nema að það sé mjög órólegt. Þá getur verið að þú þurfið að smækka skrefið og hrósa því fyrir að sitja rólegu og leyfa því síðan að halda áfram upp í næsta skref þegar það hefur setið rólegt örstutta stund sem stöðugt þarf að lengjast í hverri umferð.
Ef barnið er mjög vanstillt, reyndu þá að róa það með tali og nálægð þinni. Prófaðu líka að stjúka því um axlir, aftan á hálsinum og efstu hryggjaliðina.
Þegar barnið svo pissar, þarftu að vera snögg og bregðast við Strax, Jákvætt og Örugglega með mikilli gleði, munnlegu hrósi, góðgætinu beint í munninn og meiri drykk. Mundu að láta Diddu dúkku gleðjast líka.

Þið haldið æfingunum áfram og þegar barnið er búið að pissa í koppinn svona þrisvar til fjórum sinnum, þá smá trappar þú tímann niður eftir hvern sigur sem þú lætur barnið sitja, í svona fjórar mínútur í senn. Þegar barnið er farið að fara sjálf á koppinn, leyfðu því þá að ráða tímanum.

Nú verða viss þáttaskil. Barnið kann orðið að pissa í kopp og þarf að læra að pissa í hann af sjálfsdáðun. Það kennir þú barninu með því að gefa því fyrst fyrirmæli sem þú lætur svo smám saman fjara út.

Dæmi:
„Sigga, farðu og pissaðu í koppinn“. Þessu þarf barnið að hlýða og mun að öllum líkindum gera það hafi undanfarandi þjálfun gengið eftir eins og lýst var. Eftir nokkur skipti, þá verður kvaðningin (promt) aðeins almennari og þú getur sagt: „Jæja, þá er kominn tími til að pissa í koppinn“. Þegar barnið hefur pissað í nokkur skipti, víkkar þú kvaðninguna enn og spyrð: „Sigga, ætlaðu ekki að pissa í koppinn núna?“
Og svona áfram, og næst geturðu spurt: „Hvað ætlarðu að gera núna við koppinn?“ Fyrst gerirðu þetta oft, og síðan lætur þú líða lengra á milli, svo fremi að barnið pissi í koppinn. Og þú heldur áfram að bregðast við með því að samgleðjast barninu fyrir dugnaðinn og gefa því nammi og mikið að drekka.

Veltu því ekki fyrir þér sem barnið getur ekki, einbeittu þér að því sem gengur og segðu ömmu og öðrum sem eru á vinalistanum frá því í eyru barnsins hvað það sé nú orðið duglegt að pissa í koppinn.

Jafnhliða því sem þú ferð að nota vinalistann, dregurðu úr beinu hrósi við barnið. Þú getur gert það með því að hrósa stundum og láta smám saman líða lengra á milli. Síðan skaltu auka hrósið fyrir eitthvað annað sem þú ert að kenna barninu að gera sem er væntanlega síbreytilegt. Þú hættir sem sagt ekki að hvetja barnið og hrósa því, heldur tengir það nýjum athöfnum sem þú vilt sjá meira af.

Verði óhöpp eru þau að öllum líkindum tengd veikindum, of þröngum klæðnaði eða einhverjum meiri háttar breytingum á lífi barnannna. Vertu svolítið leið og láttu barnið sjálft skipta um buxur, þurrka upp og þess háttar, án þess að skamma það. Hvort það verði alvarlegt bakslag við svona tilvik ræðst af því hversu vel þjálfunin tókst, og hveru langt þið eruð komin. Ef þjálfuninni sjálfri er lokið og barnið er að æfa nýlærða hegðun með áhuga og athygli annarra, ætti svona uppákoma ekki að trufla neitt. Ef hins vegar þið eruð stödd framar í kennsluferlinum er líklegt að þú þurfir að bakka aðeins og byrja aftur heldur framar en þið voruð komin þegar truflunin átti sér stað.

Þú getur notað hliðstæða hugsun og uppbyggingu við annað sem þú vilt kenna barninu.

Góða skemmtun.

Guðríður Adda Ragnarsdóttir, atferlisfræðingur og kennari.