Láttu ekki góma þig með ónýtar tennur


Hefur þú hugleitt að

 • það er hægt að komast nær algerlega í veg fyrir tannskemmdir og tannholdssjúkdóma?
 • sífellt nart skemmir tennurnar?
 • með góðri munnhirðu verður andardrátturinn ferskur?
 • rannsóknir sýna að flúor varnar tannskemmdum?
 • flúor gagnast fólki á öllum aldri?
 • með tannburstanum hreinsar þú 60% af yfirborði tanna, tannþræði 40%?
 • kalk styrkir tennur og bein?
 • vatn er besti svaladrykkurinn sem völ er á?
 • vatn og mjólk valda ekki sýruskaða á tönnum?
 • það er vel þess virði að halda tönnunum heilum alla ævi?

Vendu þig á að borða fjölbreytta og holla fæðu, burstaðu tennurnar með flúortannkremi og notaðu tannþráð og flúorskol. Nauðsynlegt er að fara reglulega í eftirlit til tannlæknis svo hægt sé að greina og helst koma í veg fyrir tannsjúkdóma áður en þeir verða að vandamáli.

Hefur þú hugleitt að

 • nú er besti tíminn til að leggja grunn að góðri tannheilsu?
 • á unglingsárunum er mikil hætta á að tennurnar skemmist?
 • 18 ára og eldri bera allan kostnað vegna tannviðgerða?
 • tennur þínar ættu að endast þar til yfir lýkur?

Við glerungsyfirborð tanna á sér stað stöðugt úrkölkunar- og endurkölkunarferli. Sýrustig í munni ræður miklu um hvort hefur yfirhöndina. Þegar sýrustigið fellur, leita steinefnin út úr tönnunum (úrkölkun) og þegar sýrustigið hækkar á ný fara steinefnin að hlaðast inn í tennurnar á nýjan leik (endurkölkun).

Sýrueyðing

Flest af því sem við borðum og drekkum sýrir munnvatnið; sykrað og súrt fæði þó langmest. Samspil sýkla, sykurs, sýru og tíma getur leitt til tannskemmda. Sýklar breyta sykri fæðunnar í sýrur og í u.þ.b. hálftíma eftir að sykurs hefur verið neytt, ríkja kjöraðstæður úrkölkunar. Annars konar vandamál, sýrueyðing tanna, fer vaxandi og má í því sambandi nefna að neysla gosdrykkja og ávaxta-drykkja, í tíma og ótíma, veldur því að glerungurinn á yfirborði tannanna eyðist. Hugleiddu því bæði hvað þú borðar og drekkur, og ekki síður hversu oft á dag.

Munnvatnið

Eitt meginhlutverk munnvatns er að gera sýrurnar hlutlausar. Þegar við tyggjum sykurlaust tyggjó stóreykst munnvatnsflæði og verkunartími sýrunnar styttist. Hafðu samt í huga að það að tyggja sykurlaust tyggjó kemur ekki í stað tannburstunar og notkunar á tannþræði! Flúor er vítamín tannanna. Það tekur m.a. þátt í endurkölkun og myndar sterkara glerungsyfirborð. Notaðu því ávallt flúortannkrem við tannburstun, auk þess sem flúorskol og flúortyggjó er gott ef þú vilt styrkja tennur þínar enn frekar. Flúor gagnast fólki á öllum aldri!

Þegar blæðir úr tannholdi við burstun er líklegt að tannholdsbólga sé að minna á sig! Ef munnhirða er ekki bætt á þessu stigi getur bólgan færst niður í bein og stoðvefi tannanna. Í framhaldi af því getur beinið eyðst og tönnin losnað.

Fyrstu afleiðingar reykinga og tóbaksnotkunar koma fram í munnholi. Andremma, gular tennur og tannholdsbólgur eru algengar afleiðingar og hættan á myndun krabbameins í munnholi margfaldast.

Birt með góðfúslegu leyfi Tannlæknafélags Íslands af vef þeirra tannsi.is