Leghálskrabbameinsleitin til fyrirmyndar

Leitarstarf Krabbameinsfélagsins vekur athygli erlendis

Nýjum tilfellum af leghálskrabbameini hefur fækkað um meira en 70% hér á landi eftir að skipuleg leit hófst og dauðsföllum hefur fækkað um 90%. Þetta kemur fram í yfirlitsgrein um leit að leghálskrabbameini eftir Kristján Sigurðsson yfirlækni Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins, en greinin birtist í ágústhefti tímaritsins Cytopathology.

Þessi árangur er sagður hafa náðst vegna góðs skipulags og greiningar á forstigsbreytingum sjúkdómsins, á sama tíma og tíðni forstigsbreytinga hefur vaxið mjög mikið hjá ungum konum. Mikilvægt er talið að konur mæti til leitar á tveggja ára fresti frá tvítugu til fertugs og á fjögurra ára fresti eftir það til sjötugs.

Í greininni er einnig rætt um íslenskar rannsóknir á áhrifum bólusetningar við HPV-veirum og lögð áhersla á nauðsyn þess að ekki verði slakað á hefðbundinni leit að leghálskrabbameini eftir að bólusetning verður tekin upp. Þrátt fyrir að bólusetning sé mjög gagnleg gegn ákveðnum stofnum veirunnar er bent á að aðrir stofnar séu algegastir hjá konum undir 25 ára aldri.

Fjallað er um grein Kristjáns í ritstjórnargrein tímaritsins sem heitir ,,Smátt er fallegt og það á að taka alvarlega.” Þar er sagt að leitarstarfið á Íslandi sé einstakt og að aðrar þjóðir geti tekið okkur sér til fyrirmyndar við leit að krabbameini í leghálsi.

Að beiðni Krabbameinsfélagsins hefur ritstjórn Cytopathology ákveðið að heimila opinn aðgang tímabundið að yfirlitsgrein Kristjáns og ritstjórnargreininni þannig að sem flestir geti kynnt sér efni þeirra.  

Grein Kristjáns Sigurðssonar:
http://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1111/j.1365-2303.2010.00783.x/pdf

Ritstjórnargrein:
http://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1111/j.1365-2303.2010.00785.x/pdf

Frétt tímaritsins:
http://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1111/j.1365-2303.2010.00778.x/pdf