Líffæragjafir

Taktu afstöðu

Enginn vafi er á því að líffæraígræðslur eru í hópi mestu framfaraspora læknisfræðinnar á liðinni öld. Árið 1991 tóku á Íslandi gildi lög um skilgreiningu heiladauða og gerðu þau okkur kleift að leggja til líffæri til gjafar sjálf, en fram að því höfðu Íslendingar einungis þegið líffæri frá öðrum þjóðum án þess að leggja þau til sjálfir. Árið 1992 hófst samvinna við hin Norðurlöndin í tengslum við samtökin Scandiatransplant. Gerður var samningur um líffæraígræðslur og líffæragjafir við Sahlgrenska sjúkrahúsið í Gautaborg, en frá 1996 hefur þessi samvinna verið við Rigshospitalet í Kaupmannahöfn.

Árið 1995 gaf Landlæknisembættið út bækling um líffæragjafir þar sem fólk var hvatt til að taka afstöðu til líffæragjafar. Bæklingurinn var endurútgefinn í fyrra, árið 2003, og er til á heilsugæslustöðum og mörgum apótekum. Þar er fólki gefinn kostur á að taka afstöðu til líffæragjafa með því að láta ákvörðun sína í ljós á sérstöku korti sem hægt er að hafa á sér. Ekki er vitað um hversu margir Íslendingar bera slíkt kort, en allt bendir til að þeir séu fremur fáir.

Ábendingum fyrir líffæraflutningi fer fjölgandi, m.a. vegna þess að nú er unnt að flytja fleiri líffæri en áður, t.d. þarma. Ennfremur er ónæmisbælandi meðferð orðin auðveldari og veldur minni aukaverkunum en áður. Líklegt er því að þörfin vaxi. Hins vegar hefur líffæragjöfum farið lítillega fækkandi í nokkrum nálægum löndum, t.d. Noregi og Svíþjóð. Á Íslandi eru hlutfallslega heldur færri líffæragjafir en á hinum Norðurlöndunum, á árabilinu 1993–2003 gáfu Íslendingar að meðaltali 11 líffæragjafir per milljón íbúa á ári, en 12–18 á hinum Norðurlöndunum. Á Vesturlöndum deyja nú fleiri sjúklingar sem bíða líffæragjafar heldur en þeir sem fá líffæri og lengjast biðlistar heldur í nálægum löndum.

Á skurðlæknaþingi síðastliðið vor kynntu læknar og hjúkrunarfræðingur frá gjörgæsludeild og nýrnadeild Landspítalans niðurstöður athugunar á líffæragjöfum á Íslandi í 10 ár, frá 1992–2002. Kemur þar m.a. fram að þegar leitað var samþykkis ættingja fyrir líffæragjöf var erindinu neitað í um 40% tilvika. Er þetta hliðstætt og í Bandaríkjunum þar sem talan er 46%, en um tvöfalt hærra en á Spáni þar sem 23% beiðna af þessu tagi er hafnað. Upplýsingar um þetta liggja ekki fyrir frá hinum Norðurlöndunum. Líffæragjafir héðan virðast samsvara þörfum Íslendinga fyrir líffæri, um 9 á ári. Þó eru helmingi fleiri einstaklingar árlega á biðlista hér á landi eftir líffærum (7–8) en þeir sem fá líffæri (3–4 árlega). Þetta endurspeglar væntanlega skort á líffærum til ígræðslu, bæði hérlendis og í Scandia transplant samstarfinu. Fæst af þeim líffærum sem tekin eru hér á landi fara til ígræðslu í Íslendinga.

Hvað er til ráða?

Nauðsynlegt er að aukin umræða fari fram um líffæragjafir hér á landi. Vakin er athygli á líffæragjafakortunum. Hjá Landlæknisembættinu starfar nú vinnuhópur sem fjallar um svonefnda líknarskrá (living will) þar sem gert er ráð fyrir að fólk geti á vottfestan hátt gert grein fyrir óskum sínum um hvernig með það sé farið rétt fyrir eða við andlát. Verður þar einnig ræddur kostur þess að efla lagalega stöðu áðurnefndra gjafakorta eða hliðstæðs fyrirbæris. Í Bandaríkjunum er merki í ökuskírteinum þeirra sem vilja gefa líffæri.  Rætt hefur verið um, bæði hér á landi og í nálægum löndum, að taka upp sérstaka miðlæga skráningu á þeim sem tilbúnir eru að gefa líffæri. Þessar upplýsingar benda til að hér þurfi að efla samfélagsumræðu um líffæragjafir og líffæraflutninga. Þó tilefni líffæragjafa úr látnu fólki sé ætíð hörmulegt skiptir máli að hver og einn taki afstöðu til líffæragjafar og ræði hana við aðstandendur sína. Ef unnt er að bjarga með því fleiri lífum en nú er tilganginum náð.

Frá Landlæknisembættinu