Lífsleikni

Kenndu mér að lifa!

Lífsleikni nefnist fag sem er að hasla sér völl í íslenskum grunnskólum. Tilgangurinn með kennslu þess er að örva tilfinningagreind nemenda. Tilfinningagreind er félagsleg og persónuleg hæfni til að þekkja sjálfan sig og aðra – en fræðin sem kennd eru við hana þykja mjög athyglisverð. Þau samanstanda af sálfræði og öðrum félagsvísindum, taugafræði og líffræði. Í þeim má finna hafsjó merks fróðleiks en hér gefst aðeins ráðrúm til að stikla á stóru og veita lesendum nasasjón af tilfinningagreind, í þeirri von að þeir leiti sér frekari upplýsinga – og nýti sér þetta huglæga hjálpartæki í tilverunni.

Í þessari umfjöllun um tilfinningagreind styðst ég við samnefnda bók eftir Bandaríkjamanninn Daniel Goleman, sálfræðing og blaðamann hjá The New York Times. Hún kom út á Íslandi síðastliðið haust og varpar ítarlegu ljósi á áðurnefnd fræði. Við gerð hennar leitaði Goleman í smiðju margra þekktra fræði- og vísindamanna, kennara og annarra sérhæfðra aðila auk þess að afla heimilda um fjölda rannsókna á sviði tilfinninganna. Á hinn bóginn beið hann með að skrifa bókina uns nægilegar vísindalegar upplýsingar voru fyrir hendi, afrakstur umfangsmikilla rannsókna á starfsemi heilans. Rannsókna sem bæta heilmiklu við vitneskju okkar um mannshugann, líkt og orð Golemans gefa til kynna: „Taugafræðilegar upplýsingar streyma að og sýna skýrar en nokkru sinni fyrr hvernig heilastöðvar tilfinninganna knýja fram reiði og tár, og hvernig þeir hlutar heilans sem eiga sér mun lengri forsögu koma ýmist róti á árásargirni eða ástúð og verka bæði til góðs og ills. Svo glöggur skilningur á gangverki tilfinninganna á sér ekki fordæmi, en hann setur nýjar aðferðir til að bæta úr tilfinningakreppu samfélagsins í brennidepil.“

Ofmetin greindarvísitala

Vísindamönnum hefur tekist að varpa ljósi á virkni heilans meðan við hugsum og finnum til; þegar hugmyndaflugið er að verki og í draumförum okkar. Uppgötvanir þeirra hafa leitt í ljós að tilfinningar ráða hegðun, samskiptum og jafnvel örlögum einstaklingsins í mun meira mæli en menn gerðu sér grein fyrir.

Þar af leiðandi sýnir Goleman fram á að greindarvísitala ráði ekki fararheill okkar, hún hafi mun minna vægi en álitið hefur verið hingað til. Staðreyndin sé sú að fólk með lága greindarvísitölu geti átt velgengni að fagna en fólk með háa greindarvísitölu geti farið halloka í lífinu. „Ég held því fram að alloft hljóti þeir eiginleikar að gera gæfumuninn sem hér nefnast einu nafni tilfinningagreind en þar má nefna skapstillingu, atorku og þrautseigju, auk hæfileikans til að hvetja sjálfan sig til dáða,” fullyrðir hann og telur að tilfinningagreind sé sú gáfa sem mestu varði. Hún feli í sér getu sem hafi djúpstæð áhrif á alla aðra hæfileika …

Fátt skiptir eins miklu máli og að læra þá kúnst að þekkja eigin huga og virkja hann, efla getuna til að tjónka við niðurdrepandi hugsanir og greiða úr tilfinningaflækjum. Að öðrum kosti er hætt við að einstaklingurinn lendi í vítahring: tilfinningaflækjur skapa streitu sem veldur þrálátum áhyggjum – og áhyggjurnar valda enn meiri streitu; þær leiða ekki til lausna heldur ala á angist og kvíða. Þessar leiðindakenndir geta orðið svo fyrirferðarmiklar að fátt annað kemst að í huga einstaklingsins og hann snýst í hringi, fullur vanmáttar, einbeitingarleysis og ranghugmynda. Í versta falli getur streita valdið lífshættulegum sjúkdómum. Í slíkum vítahring er ráðlegt að rökræða við neikvæðar hugsanir og losa sig þannig við „áhyggjur sem snúast um áhyggjur“. Best er að temja sér að draga í efa þær hugsanir sem eru kjarni heilabrota, bera brigður á gildi þeirra og beina huganum að jákvæðari kostum. Eins má gera gagngert ráð fyrir ánægjulegum viðburðum og dreifa huganum þannig.

En síðast en ekki síst verður hver og einn að þekkja sinn innri mann til að kljást við erfiðar kenndir og ertandi áhyggjur – það er svo mikilvægt að kunna að beina huganum að bjartari hliðum tilverunnar, svo hann verði ekki strengjabrúða tilfinninganna. Svo lengi sem við göngumst ekki við tilfinningum okkar er voðinn vís. Bælt hugarangur bitnar á vinnugetu, einbeitingu, daglegri líðan, svefni, skapi og samskiptum, svo fátt eitt sé upptalið.

Taumlausar kenndir

Þó er hægara sagt en gert að hafa hemil á hugsunum sínum, tilfinningaskalinn er marglitur og getur hæglega komið okkur í opna skjöldu. Stundum teljum við okkur ekki ráða við tilfinningarnar: áhyggjur hrannast upp, streitan eykst, einbeitingin hverfur, skapsveiflur verða fyrirferðarmeiri og geðshræringar eiga greiða leið að sálartetrinu. Af þeim sökum er nauðsynlegt að varast skyndihvatir sem geta fengið besta fólk til heimskulegra athafna. Flestir kannast við að hafa einhvern tímann gert eða sagt eitthvað sem þeir dauðsjá eftir og fyrir vikið þurft að kljást við ertandi afleiðingar sem hrelldu sjálfsímyndina. Oft eru það hlutir sem stríða á móti sannfæringu gerandans en hugaræsingurinn tók af honum ráðin!

Manneskjum hættir til að stjórnast af ótta, hvötum, ranghugmyndum og viðbrögðum, taumlausar kenndir eru gjarna fljótvirkari en dómgreindin. Heilinn er stundum tilfinningalega ónákvæmur, hann getur jafnvel sent okkur úrelt skilaboð og þannig framkallað öfgafull viðbrögð við sárasaklausum kringumstæðum. Manneskja sem ræður illa við hvatir sínar og viðbrögð á jafnframt bágt með aðrar hliðar tilfinningalífsins. Meðan hvatirnar stjórna ferðinni á hún bágt með að setja sér markmið; þær bera sigurorð af sjálfsaganum og draga hana á asnaeyrunum frá góðum ásetningi. Því sakar ekki að leggja eftirfarandi orð úr bókinni góðu á minnið: „Ef til vill skiptir engin sálræn hæfni meira máli en sú að standast skyndihvatir.”

Börn „öguð“ til dauða

Að sama skapi leggur Goleman ríka áherslu á sjálfstjórn og bendir á að fljótfærni sé afleiðing sterkra geðhrifa, hvata sem hrifsa völdin af skynseminni – og hann undirstrikar einnig gildi samkenndar. Það er gild ástæða fyrir því að áðurnefndir eiginleikar eru honum ofarlega í huga. Hann er þeirrar skoðunar að samfélög heimsins hafi nefnilega brýna þörf fyrir þetta tvennt: Að við höfum taumhald á sjálfum okkur og samúð með öðrum.

Óleystir tilfinningahnútar trufla vissulega daglegt líf. Þeir geta bitnað á starfi, barnauppeldi, ástalífi, heilsu og samskiptum. Í versta falli brjótast þeir út í hættulegri hegðun og hræðilegum verknuðum. Átakanlegt dæmi þess má sjá í títtnefndri bók: „57% morða á börnum undir tólf ára aldri eru framin af foreldrum eða stjúpforeldrum, að því er fram kemur í skýrslu. Í næstum helmingi tilvika segjast foreldrar „bara hafa verið að reyna að aga barnið“. Kveikjan að barsmíðum sem leiddu til dauða var sú að börn „brutu af sér“, til dæmis með því að vilja ráða því á hvaða rás sjónvarpið var stillt, með því að gráta eða gera í buxurnar.”

Í kjölfarið fylgir klausa um þýskan ungling sem var fyrir rétti eftir morð á fimm tyrkneskum konum og telpum. „Hann kveikti í húsi þar sem þær voru í fastasvefni. Hann er félagi í klíku nýnasista, segist ekki tolla í vinnu, kveðst vera drykkfelldur og kennir útlendingum um ófarir sínar. Hann er svo lágróma að vart heyrist til hans þegar hann segir fyrir rétti: „Ég er óumræðilega leiður yfir því sem við höfum gert. Ég get ekki lýst því hvað ég skammast mín.“

Alþjóðleg tilfinningafirring

Goleman tekur fleiri óhugnanleg dæmi um tilfinningalega firringu og bendir svo á að fréttir séu oft morandi í slíkum frásögnum. „Þær eru sönnun þess að mannasiðum hrakar, almennt öryggisleysi fer vaxandi og illar hvatir leita útrásar af þvílíku offorsi að líkja má við holskeflu. Slíkar fréttir endurspegla þó einungis í stækkaðri mynd það stjórnleysi tilfinninganna sem við verðum óþægilega vör við hjá sjálfum okkur og náunganum.“

Nú kann einhver að segja að svona hryllingur eigi sér bara stað í útlöndum. Sá sami ætti þá að minnast unga lögfræðingsins sem myrti vin sinn í Öskjuhlíð, piltsins í Keflavík sem nauðgaði stúlku og drap vinkonu hennar, náungans sem hrinti ungri stúlku af svölum og varð valdur að dauða hennar, vinkvennanna sem lömdu stúlku svo harkalega að hún varð fyrir heilaskaða, ungra innflytjenda sem verða reglulega fyrir harkalegu ofbeldi sökum kynþáttahaturs og unglingsstúlknanna sem var nauðgað síðastliðna verslunarmannahelgi. Hann ætti líka að kynna sér starfsemi Stígamóta og spjalla við einstaklinga sem hafa verið misnotaðir kynferðislega, skoða meðferðarstofnanirnar sem hafa ekki við að taka á móti virkum fíklum – jafnvel líta á heimasíðu íslenskra þjóðernissinna. Af nógu er að taka hvað varðar firringu í þessu 283.361 manns þjóðfélagi.

Um vandræðaástandið í heiminum segir Goleman: „… sú mynd sem við blasir vitnar um tilfinningalega firringu, örvæntingu og ófyrirleitni, innan fjölskyldunnar og í samfélaginu öllu. Til eru dæmi um sívaxandi heift og örvæntingu á þessu tímabili, hvort sem þau birtast í umkomuleysi lyklabarna sem fengið er sjónvarp í stað barnfóstru, í þjáningum barna sem eru yfirgefin, vanrækt eða verða fyrir misþyrmingum eða ömurlegu ofbeldi innan hjónabandsins. Tilfinningaleg kröm er að grípa um sig. Það má til dæmis ráða af tölum um þunglyndi sem eykst ört um allan heim, svo og vísbendingum um stigvaxandi ofbeldi …“

Börn og tilfinningaþjálfun

Eina ráðið gegn þessari firringu í komandi framtíð er að styrkja og göfga þær ungu sálir sem erfa munu tætt þjóðfélög heimsins. Tilfinningagreind má kenna börnum og gera þeim þannig kleift að nýta sem best þær gáfur sem þau kunna að hafa hreppt í happdrætti erfðanna.

Að sama skapi skiptir tilfinningalegt öryggi sköpum fyrir sjálfsmynd barns og ekki síður framtíð þess, enda valda tilfinningarnar miklu um hvernig okkur vegnar á lífsleiðinni. Foreldrar verða því vera til staðar fyrir börnin sín og virkja öryggiskennd þeirra og sjálfstraust jafnt sem félagslegan og tilfinningalegan þroska, áhugahvöt, ábyrgðarkennd og frumkvæði – og samkennd barnanna því hún eykur hæfni þeirra til að skilja annað fólk. Jafnframt er námshæfni að miklu leyti háð því að börn tileinki sér ýmsa grunnþætti á þessum sviðum.

Þess má geta að í bókinni Tilfinningagreind er mikið fjallað um börn og kaflinn Tilfinningalegt uppeldi fjallar sérstaklega um þau. Goleman tekur fram að það sé álitamál hvenær hefja skuli tilfinningaþjálfun. „Sumir halda því fram að ekki sé of snemmt að byrja þegar á fyrstu æviárum barnsins. T. Berry Brazelton, barnalæknir við Harvard, lítur svo á að foreldrar hafi upp til hópa gagn af handleiðslu til að þeir geti gefið börnum sínum gott fordæmi á þessu sviði.“ Og hann bætir við að leikskólaárin ráði úrslitum að þessu leyti, ef rétt sé haldið á spöðunum geti þjálfun í lífsleikni haft holl áhrif fram á fullorðinsár: „Svo sem fram kemur í færri vímuefnavandamálum og handtökum, betri hjónaböndum og betri tekjumöguleikum. Mestur er árangurinn af slíkri íhlutun þegar hún er framkvæmd í samræmi við framvindu tilfinningaþroska.“ Um þessar mundir er lífsleikni, þjálfun í tilfinningagreind, að skipa sér sess á námskrám íslenskra grunnskóla, og undirrituð hefur sjaldan eða aldrei heyrt nokkuð jafn gáfulegt. Hún hefði gjarnan viljað fá svona bók á fimmtán ára afmæli sínu; í öllum hamaganginum sem fylgdi unglingsárunum átti hún nefnilega þá ósk heitasta að snúa sér að alvitrum aðila og segja: „Kenndu mér að lifa!“

Vonir um bata

Því miður fyrirfinnst hvergi „alvitur aðili“ til að leiða okkur klakklaust í gegnum lífið. Og þótt svo væri er örðugt að ausa úr viskubrunnunum yfir unglinga: þeim hættir til að þurfa að brenna sig sjálfir til að læra af reynslunni. Á hinn bóginn eru margir þeirra auðsæranlegar, ráðvilltar sálir og líklega grynnkaði á uppreisnargirninni með aukinni meðvitund um hugann og skilningi á óþreyjufullum kenndum. Ekki síst vegna þess að unglingar upplifa sig gjarna öryggislausa eða óeðlilega og taka því á tilfinningunum með því að bæla þær. Fyrir vikið fá þeir útrás í hömluleysi og/eða leita í vímuefni. Að mati undirritaðrar er kennsla í lífsleikni lífsnauðsynleg í farteski ungs fólks þegar það stígur fyrstu skrefin út í lífið. Bæði til að það forðist varhugaverðar „lausnir“ við bágri líðan og til að efla félagslega hæfni, hæfileika og sjálfsvitund.

Að auki takmarkast tilfinningagreind ekki við unglingsárin heldur reynir á hana svo lengi sem við tórum. Fullorðnar manneskjur eru líka margar hverjar ráðvilltar og auðsæranlegar. Á hinn bóginn eiga þær að hafa öðlast meiri þroska og hæfni til að skilja og kljást við tilfinningar sínar. Þær eiga að geta séð fótum sínum forráð, tekið uppbyggilegar ákvarðanir, verið meðvitaðar um raunverulegar þarfir sínar, einbeitt sér, haft stjórn á sterkum hvötum, beitt rökhugsun og sýnt hæfni í mannlegum samskiptum. Áðurnefndir hlutir eru þó auðveldari í orði en á borði og því veitir fæstum okkar af hjálpartækinu sem felst í fræðum þeim sem kennd eru við tilfinningagreind.

Við erum mannleg

„Það er svo erfitt að vera manneskja.“ Þessi sársanna setning hrökk upp úr Sigurlínu Jónsdóttur, móður Sölku Völku í skáldsögu Halldórs Laxness. Örfá orð úr illa þefjandi kvenmannsbúk sem segja svo ofboðslega margt. Sigurlína var tilfinningavera, hún stjórnaðist af hvötum, eymd, ást og fýsnum; hjarta hennar var valtast alls hins valta. Og líklega hefði Sigurlínu, líkt og öðrum fátækum fiskvinnslukonum í krummaskuðum á Íslandi um 1930, brugðið við að opna bók og lesa svart á hvítu: „Nú loks hafa vísindin það á valdi sínu að fjalla um þær knýjandi torráðnu hliðar sálarlífsins er síst lúta rökrænum lögmálum og nú er loks unnt að kortleggja hjarta mannsins af einhverri nákvæmni.“

Eflaust hefði þessi tilfinningaríka kona sungið af gleði yfir að finna svona merkilega bók og við sem lifum í upphafi nýs árþúsunds ættum að gera hið sama. Það er nefnilega ómetanlegt að komast í kynni við fræði sem eru slíkt hjálpartæki að við getum létt líf okkar til muna og sagt fullum hálsi: „Það er skemmtileg áskorun að vera manneskja.“

Í dag getum við fræðst um tilfinningalíf okkar og notað þann fróðleik meðvitað til að rækta góða eiginleika en tekist á við skapgerðarbrestina. Það eru forréttindi að lifa á tímum þar sem okkur býðst vitneskja um tilfinningarnar sem við getum notað til að stjórna eigin lífi í stað þess að láta þær ráða ferðinni. Þó verður að segjast að tilfinningar eru magnaðar í lífi hvers einstaklings og vandmeðfarnar. Þær geta leitt okkur til andskotans ef við höfum ekki stjórn á þeim. Vitaskuld er strembið að kljást við mein á borð við þunglyndi, þrálátar áhyggjur, tómlæti, vanmátt, reiði, angist, þráhyggju, hjónaerjur, fíknir, átröskun, einmanakennd, öryggisleysi, feimni, einbeitingarleysi, tilfinningalegt ólæsi og samskipti, svo fátt eitt sé upp talið. En með því að kynna okkur tilfinningagreind getum við skerpt getuna til að taka á þessum vandamálum og eflt bjartsýni, sjálfsvitund, einbeitingu, flæðitilfinningu við vinnu, góð samskipti, samkennd, vellíðan, sjálfstjórn og aga, jafnvægi og félagslega hæfni; eiginleika sem einkenna þá sem velgengni njóta.

Þrátt fyrir að fræðin sem lúta að tilfinningagreind séu kornung eru margir áhugasamir um þau hér á landi. Vonandi munu þau kveikja forvitni sem flestra í komandi framtíð því eina ráðið við ofbeldinu, fíknunum og nauðgununum, sem samfélagið stendur reglulega ráðþrota frammi fyrir, er að sem flestir öðlist heilbrigða vitund. Og hún er jafnframt eina ráðið við íþyngjandi hvötum, kenndum og ráðvillu sem hrjá svo margt venjulegt fólk á degi hverjum. Því er ekki úr vegi að vitna enn einu sinni í Goleman að lokum: „Annars vegar er sú sameiginlega vá sem við blasir á sviði tilfinningalífsins og hins vegar tiltæk úrræði sem vekja vonir um bata.“

Í bókinni Tilfinningagreind má finna eftirfarandi lista sem kallast Samstarfsverkefni á vegum W.T. Grant: Virkir þættir í árangursríkum forvörnum.

Meðal helstu þátta þjálfunar sem ber árangur eru þessir:

TILFINNINGAHÆFNI

 • Bera kennsl á tilfinningar og kunna að nefna þær.
 • Tjá tilfinningar.
 • Meta hve öflugar tilfinningar eru.
 • Hafa stjórn á tilfinningum.
 • Slá umbun á frest.
 • Hafa hemil á skyndihvötum.
 • Draga úr streitu.
 • Gera greinarmun á tilfinningum og athöfnum.

VITSMUNALEG HÆFNI

 • Kunna að tala við sjálfan sig – halda uppi „innri samræðum“ og nota þær sem aðferð til að fást við málefni eða ögrandi viðfangsefni eða til að efla framgöngu sína.
 • Ráða í vísbendingar án orða og túlka þær – átta sig til dæmis á því hvernig félagslegir þættir hafa áhrif á hegðun og líta á sjálfan sig í víðtækara félagslegu samhengi.
 • Leysa vandamál og taka ákvarðanir í áföngum – hafa til dæmis hemil á skyndihvötum, setja sér markmið, koma auga á önnur úrræði og sjá afleiðingar fyrir. Skilja sjónarmið annarra.
 • Kunna skil á almennum kröfum um hegðun – skilja hvað er við hæfi og hvað ekki. Bjartsýni gagnvart tilverunni.
 • Sjálfsvitund – temja sér til að mynda að gera raunhæfar væntingar til sjálfs sín.

SAMSKIPTAHÆFNI

 • Án orða – halda uppi tjáskiptum með því að horfast í augu við fólk, með svipbrigðum, raddblæ, látbragði o.s.frv.
 • Í mæltu máli – orða óskir afdráttarlaust, svara gagnrýni af einurð, verjast óæskilegum áhrifum, hlusta á aðra, hjálpa öðrum og taka virkan þátt í æskilegum félagsskap jafnaldra.

Birt með góðfúslegu leyfi Geðhjálpar

Pistillinn er úr blaði Geðhjálpar, Okkar mál sem kom út 21. október sl.
Ritstjóri: Áslaug Ragnars
Ábyrgðarmaður: Sveinn Magnússon