Lífsvísir

 Leiðbeiningar til að sporna gegn sjálfsvígum


 

Eins og öllum er kunnugt eru sjálfsvíg þjóðfélagslegt vandamál á Íslandi eins og annars staðar í heiminum.  Þesssi málaflokkur hefur ekki fengið þá umfjöllun sem til þarf til að kryfja það til mergjar og reyna að skilja hvers vegna enstaklingur í blóma lífsins tekur slíka ákvörðun.  Þessi mál hafa meira og meira verið að koma fram í dagsljósið og eru mikið umhugsunarefni fyrir samfélagið.

   

Í ágúst árið 2000 komu félagar í Kiwanishreyfingunni saman til síns árlega Umdæmisþings, Ísland – Færeyjar, og var þingið haldið í Reykjanesbæ.  Við setningu þingsins hélt séra Ólafur Oddur Jónsson, sóknarprestur í Reykjanesbæ, ræðu sem var tileinkuð umræðu um sjálfsvíg. Skömmu fyrir þingið höfðu fjórir einstaklingar í bænum svipt sig lífi og höfðu þessir atburðir mikil áhrif  á alla í bæjarfélaginu. Því fannst séra Ólafi  tími til komin að opna þessa umræðu.

Kiwanismenn og -konur urðu felmstri lostin yfir þeim staðreyndum sem þarna voru fluttar.  Að loknu þingi fór Kiwanisfólk að ræða þetta sín á milli og úr varð að klúbbar í Ægissvæði, þ.e. Kópavogi, Hafnarfirði, Reykjanesbæ, Varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli og Vogum, alls 10 klúbbar, ákváðu að athuga hvað þeir gætu gert til að koma að þessu máli og láta gott af sér leiða.  Í góðu samstarfi við séra Ólaf Odd var hafinn undirbúningur og úr varð, að tillögu séra Ólafs, að við gæfum út leiðbeiningar í bókarmerkisformi sem auðvelt væri að dreifa víða. Texti leiðbeininganna var unninn í samvinnu sr. Ólafs og  forvarnarfulltrúa Landlæknisembættisins, Salbjargar Bjarnadóttur, ásamt sérfræðingum sem mynda teymi á vegum Landlæknisembættisins í þessum málaflokki. 

Á Lífsvísi er reynt að koma til skila í þremur megin atriðum: hvernig á að þekkja einkennin, hvernig þú getur hjálpað og hvar þú getur leitað aðstoðar, allt þetta miðar að því að við séum meira meðvitandi og getum betur tekið þátt í forvörnum gegn sjálfsvígum.

Það er von okkar Kiwanismanna og -kvenna að þetta framtak okkar verði til góðs í því forvarnarstarfi að koma í veg fyrir að einstaklingar leiðist út í svo afdrifaríkar ákvarðanir að tak sítt eigið líf. Við viljum þakka öllum þeim sem að þessu verkefni komu og gerðu þetta mögulegt.

 

f.h. Kiwanisklúbbanna í Ægissvæði
Guðbjartur Kristján Greipsson
Verkefnisstjóri

 

Frá Landlæknisembættinu