Makróbíótískt-fæði

Makróbíótískt-fæði er að stofni til grænmetisfæði og samanstendur að miklu leyti af grófu kornmeti og fersku og elduðu grænmeti, en til eru frjálslegri útfærslur á því sem leyfa neyslu ávaxta, fiskmetis og fuglakjöts.

Elstu heimildir um orðið makróbíótík (e. macrobiotics) er að finna í skrifum gríska læknisins Hippókratesar (um 460-377 f. Kr.). Gríska forskeytið macro útleggst sem stór- eða lang- og bios þýðir líf. Þannig má segja að makróbíótík lúti að langlífi og hugtakið hefur verið þýtt á íslensku sem langlífiskenning.

Kenningin sjálf um makróbíótískt-fæði og lífsstíl á þó aðeins rætur að rekja til þriðja áratugs síðustu aldar. Upphafsmaður hennar var Japaninn George Ohsawa, sem lagði áherslu á einfaldleika í mataræði og náttúrulega fæðu sem væri ræktuð í sátt við umhverfið. Í kenningu sinni leitaðist hann við að sameina búddisma, austurlenska læknisfræði, kristnar kenningar og jafnvel einhverja þætti vestrænnar læknisfræði.

Meginkjarni kenningar Ohsawa byggir á jin og jang, öflunum í tvíhyggjuheimsmynd kínverskrar heimspeki og í makróbíótísku-fæði er reynt að ná jafnvægi á milli þessara afla. Fæðuflokkum og fæðutegundum er þannig skipt í jin og jang eftir bragði og öðrum eiginleikum, þar á meðal ætluðum áhrifum á líkamann. Þeir tveir fæðuhópar sem hafa veikasta jin og jang eiginleika, kornmeti og grænmeti, mynda grunninn og langstærsta hluta makróbíótísks-fæðis en reynt er að sneiða hjá fæðutegundum og -hópum sem hafa sterkustu jin og jang eiginleikana, svo sem rautt kjöt, sykur og súkkulaði.

Þótt hér verði ekkert fullyrt um jin og jang eiginleika matvæla er rétt að leggja áherslu á að makróbíótískt-fæði er að stofni til hollt. Hins vegar er almennt ráðlagt af næringarfræðingum og heilbrigðisyfirvöldum að neyta sem fjölbreyttastrar fæðu úr öllum fæðuflokkum og því getur verið hætta á að strangt makróbíótískt-fæði, sem inniheldur kannski aðeins kornmeti og grænmeti, leiði til skorts á ákveðnum næringarefnum. Meðal næringarefna sem gæti vantað í slíkt fæði (og reyndar í strangt grænmetisfæði almennt) eru prótín, B12-vítamín, D-vítamín, kalk og járn, auk þess sem orkuinntaka í heild getur verið af skornum skammti. Af þessum sökum er ekki hægt að ráðleggja börnum, ófrískum konum eða konum með barn á brjósti slíkt mataræði.

Rétt er þó að geta þess að sé grænmetisfæði nægilega fjölbreytt getur það fullnægt þörf fyrir velflest næringarefni, sér í lagi ef einhverra dýraafurða er einnig neytt, svo sem mjólkurafurða og/eða eggja. Upplýsingar um fæðuflokkana og manneldismarkmiðin er að finna á heimasíðu Manneldisráðs Íslands .

Greinin birtist fyrst á Vísindavefnum og birtist hér með góðfúslegu leyfi

Höfundur greinar