Mataræði kvenna á barneignaralddri

FJÖLBREYTT MATARÆÐI – ÞARF ÉG BÆTIEFNI?

Fjölbreytni er lykillinn að hollu mataræði þar sem engin ein fæðutegund inniheldur öll þau næringarefni sem líkaminn þarfnast. Hver fæðuflokkur hefur sína sérstöðu. Á NMB getur þú lesið þér til um hvaða fæðutegundir eru helstu uppsprettur lykilnæringarefna sem vitað er að hafa þýðingu fyrir fósturþroska. Með því að svara næringarkönnuninni færð þú gott heildaryfirlit yfir mataræði þitt og hvað þú getir gert til að auka hollustu fæðunnar.

Notkun á sérfæði hefur aukist meðal almennings á Íslandi á síðastliðnum árum. Má þar nefna lág-kolvetnamataræði, steinaldarmataræði, grænmetisfæði og fleira. Fáar rannsóknir hafa kannað áhrif sérfæðis á meðgöngu á heilsu móður og barns. Hins vegar eru uppsprettur lykilnæringarefna fyrir fósturþroska í íslensku mataræði vel þekktar. Fáir þú meldingu um að hugsanlega sé neysla ákveðinna næringarefna of lítil (fremst í „samantekt“ svara við næringarkönnuninni) skaltu ræða málin við heilbrigðisstarfsmann í Heilsugæslunni og óska eftir tilvísun til næringarráðgjafa eða næringarfræðings sem getur gefið þér öruggar einstaklingsmiðaðar leiðbeiningar um val bætiefna.

Bætiefni

  • Öllum íslenskum konum á barneignaaldri er ráðlagt að taka daglega 400 microgrömm (µg) fólat daglega ásamt því að borða fólatríka fæðu á borð við hnetur, baunir og grænmeti.
  • Öllum íslenskum konum á barneignaaldri er ráðlagt að taka daglega um það bil 10 microgrömm (µg) af D-vítamíni til viðbótar við D-vítamín sem fæst úr fæðu á borð við feitan fisk og D-vítamínbættar vörur (sem geta gefið á bilinu 2,5-7,5 µg/dag). Ráðlagður dagsskammtur (RDS) fyrir þungaðar konur og konur með börn á brjósti eru 15 µg/dag.

Önnur bætiefni eru ekki ráðlögð á Íslandi út frá lýðheilsufræðilegum sjónarmiðum (það er fyrir allar konur). Hins vegar gætu sumar þungaðar konur þurft á öðrum bætiefnum að halda, til dæmis:

  • Járn – ef þunguð kona hefur sögu um lélegan járnhag eða borðar fyrst og fremst fæðu úr jurtaríkinu.
  • B12 vítamín – ef þunguð kona er ströng jurtaæta (borðar engan mat úr dýraríkinu, það er hvorki mjólkurvörur, egg, fisk né kjöt).
  • Omega-3 fitusýrur (meðal annars DHA) – ef þunguð kona notar ekki lýsi sem D-vítamíngjafa og borðar auk þess sjaldan eða aldrei feitan fisk.
  • Joð – ef þunguð kona borðar sjaldan eða aldrei fisk og notar auk þess lítið af mjólkurvörum.

 

Mælt er með því að þungaðar konur leiti til löggilts næringarfræðings eða næringarráðgjafa við val á bætiefnum á meðgöngu og brjóstagjöf. Notkun bætiefna gerir ekki alltaf gagn og getur jafnvel verið skaðleg sé neysla næringarefna úr fæðu fullnægjandi. Á þetta sérstaklega við um A-vítamín, en einnig joð og fleiri efni.

Texta er óheimilt að afrita á nokkurn hátt nema með leyfi rétthafa. ©NMB 2014

Heimildir

Fólat. Fyrir konur sem geta orðið barnshafandi. Lýðheilsustöð, Miðstöð mæðraverndar og Landlæknisembættið 2007.

Matur og meðganga. Fróðleikur fyrir konur á barneignaaldri. Lýðheilsustöð, Heilsugæslan og Matvælastofnun 2008.

Nordic Nutrition Recommendations 2012.Integrating nutrition and physical activity. Nordic Council of Ministers 2014.http://www.norden.org/en/publications/publikationer/2014-002

Ráðlagðir dagskammtar (RDS) af ýmsum vítamínum 2013. Embætti landlæknis.

Textinn ef fenginn af síðu www.nmb.is og  birt með góðfúslegu leyfi höfundar

Höfundur greinar