Miðborg Reykjavíkur; borg óttans

„Segja mætti að Reykjavík væri tvær borgir – annars vegar þeirra sem ferðast um hana að degi til og hinsvegar þeirra sem réðu ríkjum á nóttunni. Þeir sem ekki þekktu Reykjavík næturinnar tryðu hreinlega ekki hvernig ástandið þar væri……….”

Þetta brot úr gömlu viðtali sem tekið var við mig í Tímanum sáluga árið 1990 rifjaðist upp fyrir mér eftir atburði liðinnar helgar í Reykjavík. Eins og kom fram í fréttum réðist æstur múgur á lögregluþjóna sem voru við skyldustörf . Lögreglan hafði reynt að skakka leikinn þegar hópur manna gekk í skrokk á liggjandi, varnarlausu fórnarlambi sínu einhverstaðar í miðborg Reykjavíkur. Samkvæmt fréttunum voru um 1000 manns í miðbænum þessa nóttina. Lögregluþjónarnir voru víst 10. Enda fóru leikar svo að ribbaldar götunnar hröktu lögregluna á brott. Þeir sem að lögreglunni veittust höfðu áður skemmt sér við að horfa á misþyrmingarnar.

Það er alveg ótrúlegt hvað lítið hefur breyst að nóttu til í miðborg Reykjavíkur á þessum tíu árum sem liðin eru frá því er ofangreint viðtal í Tímanum var tekið við mig. Þá starfaði ég í Útideild Unglinga í Reykjavík, sem nú er reyndar búið að leggja niður af einhverjum mér óskiljanlegum ástæðum. Harkan var þá mikil í borginni rétt eins og nú. „…dæmi er um bardaga með hnífum, nauðganir, skemmdarverk og líkamsárásir á þá sem hafa orðið viðskila við sinn hóp. Þá séu dæmi um 12 ára börn afvelta af áfengisneyslu á flækingi innan um óhroðann”. Svona var Reykjavík fyrir 10 árum. Svona er Reykjavík í dag. Nema hvað nú hefur heimur fíkniefnaneyslu harðnað til muna og drykkja ungmenna er stöðugt að aukast, alla vegana ef mark er takandi á skoðannakönnunum á meðal unglinga.

Hefur þá svona lítið breyst á nóttunni í Reykjavík, nema þá helst í öfuga átt? Ég tel það alla veganna spor í öfuga átt þegar ofbeldið er orðið svo ríkjandi að hópur fólks skemmtir sér við að horfa á misþyrmingar og ræðst síðan á lögregluna þegar hún reynir að koma varnarlausu fórnarlambi ofbeldismanna til hjálpar. Sumt hefur vissulega breyst á þessum tíu árum síðan ég var í Útideildinni. Nú er opið á börunum út í eitt, frá morgni til kvölds og súlustaðirnir hafa gert sitt til að auka á kryddið í hasar næturlífsins. En annað hefur ekki breyst. Ég man t.d. vel eftir því á vaktinni með Útideildinni þegar unglingar í yfirfullum miðbænum gerðu eitt sinn aðsúg að fámennum hópi 8-10 lögreglumanna sem reyndu að skýla sér við innganginn að Silla og Valda sem þá var og hét. Lögregluþjónunum var þá bjargað úr umsátrinu þegar tvær „Svarta Maríur” ruddust að, kipptu aðþrengdum mönnunum um borð og blússuðu burt. Nú um helgina urðu lögregluþjónarnir 10 að hörfa undan ofurefli liðs, rétt eins og þá. Hvað eru 10 lögregluþjónar að gera einir í miðbænum á nóttu þegar 1000 manns eru á götunni, ég bara spyr? Af hverju eru laganna verðir ekki fleiri, þó ekki sé nema til að koma í veg fyrir að einhverjir þeirra verði fyrir alvarlegu slysi þegar á þá er ráðist? Og þetta er ekki í eina skiptið sem fámennt lögreglulið á í vök að verjast hér á höfuðborgarsvæðinu á undangengnu ári.

Já, það er búið að fjölga börum, opna súludansstaði, skrúfa frá áfenginu allan daginn, allan sólahringinn, en ekkert lagast. Ofbeldið bara eykst dag frá degi. Skrítið (eða hvað?). Ætli ástæðan geti ekki verið sú að of lítið er gert til þess að komast að rót vandans, þeirri rót sem veldur ofbeldi, vímuefnaneyslu og upplausn. Í viðtalinu í Tímanum fyrir 10 árum var bent á tvær leiðir til úrbóta. Annarsvegar að auka löggæslu. Hinsvegar að „…. styrkja hag fjölskyldunnar og búa svo um hnúta að börn og unglingar væru ekki aðskilinn frá foreldrum sínum meira og minna allt árið vegna langrar vinnu foreldranna…..”.

Viðbrögðin við þessum gömlu tillögum láta enn á sér standa.