Misþroska börn – hagnýt ráð

Þegar verið er að hanna aðferðir er mikilvægt að hafa í huga niðurstöður rannsókna sem benda til að andlegur, tilfinningalegur og atferlislegur þroski nemenda nemi um tveim þriðju af aldri.(1) Því má reikna með að 12 ára nemandi með taugaröskun hegði sér eins og átta ára barn.

Skilningsríkur kennari, sveigjanlegur og sem kann að setja greinileg mörk er líklegur til að ná árangri. Samskiptahæfni er grundvallarskilyrði því góður árangur byggir á góðum samskiptum á milli kennara og foreldra.

Reglubundnir fundir og símasamtöl þeirra á milli ásamt samskiptabók er aukavinna sem kennarinn þarf að taka að sér. Samskiptin á milli kennara og foreldra er virkur þáttur í því upplýsingaferli sem er nauðsynlegt til að allir aðilar séu vel inni í því sem er að gerast hverju sinni. Breytingar verða t.d. þegar nýrra einkenna verður vart, breyttar aðstæður í skólanum eða heima og þegar verið er að prófa ný lyf eða breyta skammtinum. Góð samskipti á milli skóla og heimilis eru grundvöllur árangurs.

Nota má samskiptabókina til að hvetja til góðrar hegðurnar með því að skrifa um jákvæða hluti og hrósa barninu frekar en að skrifa bara þegar eitthvað neikvætt hefur gerst. Samskiptabókin er einnig mikilvægur hlekkur varðandi lyfjanotkun. Þar má skrá t.d. aukaverkanir lyfja þegar þeirra verður vart. Skrá bæði jákvæðar hliðarverkanir (betri eftirtekt, færri kækir, árátta og þráhyggja minnkar, aukin námshæfni) og neikvæðar hliðarverkanir (þreyta, syfja, þorsti, ógleði, pirringur, aukinni árásargirni, skólafælni). Hafa skal samband við foreldra áður en talað er við lækni.

Í staðinn fyrir að velja „tengilið“ fyrir nemandann má leyfa honum að velja hann sjálfur, velja einhvern starfsmann skólans sem hann treystir og getur rætt sín vandamál við. Sömu aðferð má nota við að finna „félaga“, einn bekkjarfélaga sem liðsmann – annað hvort sem námsfélaga til að gera það sem nemandinn getur ekki gert (s.s. að taka glósur eða ljúka verkefni) eða bara sem félaga til að taka til fyrirmyndar (í frímínútum, í matarhléi, úti á leikvelli eða til og frá skóla).

Mikilvægt er að nemandi fái tækifæri til að hreyfa sig reglulega á milli frímínútna. Til dæmis að fá sér að drekka, sendast eða gera smá viðvik. Að refsa nemanda með athyglisbrest með ofvirkni, Tourette heilkenni og áráttu og þráhyggju fyrir óæskilega hegðun eykur aðeins streitu og kvíða og æsir upp önnur einkenni.

Heyrnarhlífar eða heyrnartól með tónlist til að nota í tímum getur verið lausnin fyrir nemanda sem er viðkvæmur fyrir hávaða. Ef nemandinn vinnur verkefni sín eins og honum er sagt þá er sjálfsagt að nota tónlist ef hann óskar þess. En ef hann misnotar þessi forréttindi þá á að taka þau af honum.

Nemandi með Tourette heilkenni getur oft bælt niður kæki, í styttri eða lengri tíma. Það er þó ekki æskilegt því bæling dreifir athygli og einbeitingu frá náminu. Bæling skapar einnig streitu, og streitan eykur kækina. Langvarandi streita getur leitt af sér „storm“.

Aftur á móti þarf nemandinn að hafa öruggt skjól að fara í þegar kækirnir versna eða þurfa að fá útrás (hjá skólahjúkrunarfræðingi, námsráðgjafa, á bókasafninu eða skólasálfræðingi). Mikilvægt er að hann fái að fara frá þegar hann þarf. Nemandi getur orðið svo æstur að hann verði ófær um að biðja um leyfi til að fara út úr skólastofunni. Þá er mikilvægt að hafa ákveðnar reglur sem hindra óvissuástand.

Kennarar og foreldrar þurfa að vinna saman, deila vandamálum og deila gleði þegar vel tekst til. Algengt er að kennarar og foreldrar verða fyrir vonbrigðum og lenda jafnvel í andstöðu þegar viðleitni þeirra er ekki metin að verðleikum. Kennarar ættu að hlusta á foreldra og reyna að skilja þau vandamál sem þeir standa frammi fyrir þegar þeir eru að reyna að gera sitt besta fyrir fatlað barn og hjálpa því til þroska. Foreldrar verða einnig að hlusta á kennarana og láta í ljós að þeir kunna að meta það sem kennarar gera fyrir nemandann.

Til að takast á við óæskilega kæki (spýtir, blótar, káfar á sér eða öðrum á óheppilegum stöðum) þarf að nýta allar hugmyndir og oft hafa foreldrar og aðrir skólastarfsmenn góðar hugmyndir. T.d. nemandi sem spýtir getur borið með sér pappírsþurrkur eða nemandi sem blótar eða káfar fer á afvikin stað þegar hvötin kemur yfir hann.

Nemandi með áráttu og þráhyggju fær iðulega kvíðaköst vegna hugsana og ímyndana sem hann ræður ekki við, hvorki að stjórna eða losa sig við. Þó svo að nemandinn viti að þessar hugsarnir eru óskynsamlegar og óhóflegar getur hann ekki stoppað kækina án þess að því fylgi líkamleg vanlíðan. Þegar þráhyggjan tekur völdin verður nemandinn ófær um að einbeita sér að náminu eða verkefnum. Aðlaga þarf því verkefni og kröfur þegar þetta gerist.

Nemandi með áráttu og þráhyggju finnur oft fyrir sterkri þörf á að stroka út og skrifa aftur stafi og orð eða byrja upp á nýtt í hvert sinn sem hann gerir mistök. Þetta er ósjálfrátt og nemandinn getur ekki ráðið við þetta. Oft getur gengið betur að láta nemandann vinna þannig verkefni á tölvu. Leita ber læknis ef einkenni versna.

Nemandi með áráttu og þráhyggju & thorn;arf að fá verkefni sem hann getur lokið við í tíma.

Ef hann er þvingaður til að hætta við hálfnað verk, tíminn er búinn, verður hann kvíðinn. Best er því að hann fái að ljúka því sem hann er að gera því annars er hætta á að dagurinn sé ónýtur.

Nemandi með áráttu og þráhyggju finnur sig oft knúinn til að fara yfir svörin eða niðurstöðurnar aftur og aftur og þarf því lengri tíma til að ljúka verkefninu. Hann getur þurft marga tíma til að ljúka litlu verkefni því hann þarf að endurskoða allt mörgum sinnum.

Skólastofan:

Nemandinn skal vera staðsettur nálægt kennaranum. Þannig getur hann fylgst með hvernig honum gengur og aðstoðað hann eftir þörfum. Ef kækir eru þannig að þeir trufla aðra nemendur getur verið best að hafa hann aftast. Gott er að staðsetja fyrirmyndarnemendur nálægt nemandanum á þann hátt að þeir hafi jákvæð áhrif. Staðsetja má nemandann nálægt dyrum svo hann valdi sem minnstri truflun þegar hann þarf að fara út úr tíma. Gera þarf ráðstafanir fyrir ofvirkan nemanda eða nemanda með kæk að fara í „leshorn“ þegar einkennin verða erfið. Hrósa ber nemanda fyrir að nýta sér það, það hvetur hann til að halda áfram að nota það.

Skólastofuna má skipuleggja þannig að skipulagið stuðli að sjálfstæði í vinnubrögðum. Skipulagið gefur nemandanum tækifæri til að hafa áhrif á umhverfið og þannig læra að treysta á sjálfan sig. Því sjálfstraustari sem nemandinn verður, því áhugasamari verður hann við námið.

Mikilvægt er að skólastofan sé hlýleg og áhugaverð sem námsumhverfi. Sértæka námsefnið þarf að henta kennaranum. Rannsóknir sýna að námsárangur nemenda er í beinu sambandi við ánægju kennara með námsefnið. Gott er að hafa aðgang að nokkurs konar námsmiðstöð, rannsóknarstofu eða miðstöð sem býður upp á ýmislegt námsefni og ólíkar aðferðir við kennslu. Fjölbreytnin viðheldur áhuga og eftirtekt og leyfir ofvirka nemandanum að vera á ferðinni. Upplýsingar og leiðbeiningar skulu vera í augnhæð. Frá þriðja bekk má nota kennsluáætlunina eða námsskrá til að aðstoða nemandann við að skipuleggja námið.

Vinnubók:

Hlutverk vinnubókarinnar er að halda utan um öll verkefni. Bókin virkar einnig sem skilaboðaskjóða á milli kennara og foreldra.

Nemandinn þarf að læra að skipuleggja vinnubók (sem skal vera vönduð mappa). Mappan þarf að rýma allar námsgreinar (ef allir kennara eru sammála um að nemandinn noti aðeins eina möppu/vinnubók) og vera með vasa innan á báðum kápum. Best er ef mappan er með frönskum rennilás svo blöðin detti ekki úr.

Nemandinn þarf að vera ánægður með vinnubókina og því er best að hann sjálfur velji hana. Hann getur síðan útbúið verkefnablaðsíðu á tölvu til að hafa fremst í vinnubókinni. Þar skráir hann lista yfir öll verkefnin og í þeirri röð sem hann á að vinna þau.

Nemandinn þarf að fá tækifæri nokkrum sinnum á dag til að skipuleggja sig og námsefnið. Hann þarf að fá hjálp af og til (a.m.k einu sinni í viku) við að koma reglu á námsgögnin. T.d. má hjálpa honum við að fara í gegnum dótið sitt og endurskipuleggja vinnubókina. Skipta um milliblöð, hreinsa til í skólatöskunni o.s.frv.

Góð regla er að kennarar setji stafina sína þegar heimavinnan hefur verið skráð rétt og einnig þegar nemandinn skilar fullunnu verkefni. Foreldrar skulu einnig setja stafina sína þegar nemandinn hefur lokið við heimavinnuna. Þetta hindrar misskilning ef nemandinn týnir verkefninu á milli heimilis og skóla.

Milliblöðin í vinnubókinni skulu vera í samræmi við stundatöfluna. Gott er að nota sjálflímandi flipa sem hægt er að skrifa á til að merkja verkefni hvers tíma. Blöðin má dagsetja og raða í rétta röð undir hverju milliblaði. Einnig er gott að hafa plastmöppu (poka) fyrir aftan hvert námsefni til að safna í dreifiblöðum og heimaverkefnum.

Litamerkingar:

Einfalt og áhrifaríkt ráð er að litamerkja allar bækur t.d. með hlífðarplasti. Merkja skal allt námsefni í sama lit sem tilheyrir ákveðnu fagi (ekki nota svipaða liti sem hægt er að villast á). Milliblöðin í vinnubókinni eru að sjálfsögðu merkt á sama hátt. Litamerkingar auðvelda nemandanum að muna eftir öllu sem hann þarf að hafa með sér og halda röð og reglu.

Atburðaskrá:

Atburðaskrá, til að senda skilaboð á milli heimilis og skóla, getur verið gagnleg þegar um yngri nemendur er að ræða. Þar eru skráð þau forréttindi sem barnið hefur unnið sér inn t.d. um helgar ef það hefur verið duglegt við heimanámið. Föstudagsskýrsla kennarans getur t.d. ákvarðað forréttindi barnsins yfir helgina (ákveðin stig til að fá að horfa á sjónvarið, nota tölvuna, fara í bíó, fara seint að sofa, fá vasapening o.s.frv.).

Pennaveski:

Pennaveskið ætti að vera fast við möppuna og innihalda: Nokkra skrúfblýanta og penna með bleki sem hægt er að stroka út (ekki þó fyrir örvhenta því vinstri höndin nuddast yfir allt sem skrifað er). Auka strokleður, merkipenna – nokkra liti, litla reiknivél, skæri, lítinn gatara og reglustiku. Einnig er gott að hafa gatastyrkingu fyrir götuð blöð (sterkur sjálflímandi borði með götum) og sj&aacu te;lflímandi miða til að gera við göt sem nemendur gera á pappírinn þegar þeir stroka út eða taka of mikið á.

Skólataska:

Foreldrar þurfa að kaupa góða skólatösku, með hólfum því nemandinn á oft í erfileikum með að halda röð og reglu. Bestir eru bakpokar með rennilásum og fóðruðum axlarreymum sem fást í útivistarbúðum.

Varahlutir:

Bæði foreldrar og kennarar þurfa að hafa aukahluti við hendina svo sem pappír og penna. Foreldrar þurfa að skaffa auka námsgögn í byrjun hverrar annar. Þessir aukahlutir þurfa að vera í skólastofunni í sérstökum kassa (eða skúffu) merktum nemandanum. Þar getur hann náð sér í það sem hann þarfnast hverju sinni. Þetta flýtir fyrir því að hann ljúki verkefnum og hindrar að honum finnist hann vera misheppnaður þegar hann gleymir eða týnir hlutum. Æskilegt er að foreldrar hafi auka bækur heima til að minnka áhyggjur vegna gleymsku. Einnig er gott að hafa auka bækur tiltækar í skólastofunni svo nemandinn geti fylgst með og strikað undir í tímum þegar hann gleymir sínum heima.

Sýnilega fötlun er svo miklu auðveldara að skilja heldur en ósýnilega. Að hafa auka bækur fyrir þessa nemendur má líkja við að hafa auka hækjur fyrir hreyfihamlað barn.

Nemandinn þarf oft rúman tíma til að fara á milli bekkja. Hann þarf einnig rúman tíma til að taka til það sem á að fara með heim fyrir heimanámið. Að sjá um námsgögnin og að pakka í töskuna gæti verið eitt af föstum verkefnum stuðningskennara. Nemandi með taugaröskun getur iðulega ekki skipulagt eða leyst vandamál þó svo að hann hafi glímt við þau margsinnis áður.

Árvekni

Nemendur með athyglisbrest, athyglisbrest með ofvirkni, Tourette heilkenni og áráttu og þráhyggju þurfa að hafa mikið fyrir því að fylgjast með. Með þolinmæði getur nemandinn lært tækni til þess að virkja eftirtektina og taka eftir. Eftirfarandi hegðunarmynstur hjá nemendum með hegðunarröskun eru verulega frábrugðin mynstri skólafélaganna.

 • Eiga erfitt með að einbeita sér
 • Eiga erfitt með að fylgja leiðbeiningum og fyrirmælum
 • Eiga erfitt með að ljúka verkefnum í tæka tíð
 • Eiga erfitt með að sitja kyrrir
 • Eru oft kvíðnir og stressaðir
 • Hafa þörf fyrir sérstakar útskýringar og síendurteknar leiðbeiningar
 • Halda athyglinni aðeins í stuttan tíma í einu
 • Skólaleiði
 • Taka ekki ábyrgð á eigin skólastarfi
 • Týna sér í dagdraumum

Vekja þarf eftirtekt nemandans áður en fyrirmæli eru gefin og byrja á kynningu. Nemandi getur átt erfitt með að halda augnsambandi því það getur verið truflandi fyrir hann. Ef snertingar er þörf til að vekja athygli notið þá ákveðin handtök, létt snerting getur verkað pirrandi. Mikilvægt er að tala hægt og skýrt og taka eitt fyrir í einu. Gott er að nota hjálpargögn; texta, myndrænt efni og sýnikennslu. Röddin er mikilvægt tæki til að gera umhverfið tryggt og hlýlegt, sérstaklega þegar verið er að endurtaka upplýsingar og fyrirmæli.

Nemandi ætti að merkja við, t.d. nota merkipenna í mismunandi lit. Hann þarf að fá tækifæri til að byrja á verkefninu eða gera eitt dæmi svo hann sé öruggur um að hann viti hvað hann á að gera. Hann þarf líka að geta beðið um hjálp án þess að honum finnist það niðurlægjandi.

Heimaverkefni

Að gera ekki verkefni eða heimaverkefni, að geta ekki tekist á við þau, má yfirleitt rekja til röskunarinnar en ekki leti eða óvilja til að vinna að náminu. Nemandinn er mismunandi upplagður og því ekki alltaf móttækilegur. Gera má ráð fyrir að hann eigi í erfiðleikum með að skipta um eða byrja á nýjum verkefnum.

Nemandi þarf að fá fyrirmæli þegar hann er vel upplagður svo ró haldist í bekknum. Í fyrstu tímum á morgnana þegar hann er ekki vel vaknaður ætti ekki að setja fyrir flókin verkefni. Verkefni þar sem nemandinn getur þurft á aðstoð að halda þarf að gera í tíma en þau verkefni sem hann getur sjálfur gert láta hann gera sem heimaverkefni. Nemandi á oft erfitt með að viðurkenna að létt eða einfalt verkefni sé of þungt fyrir hann. Hann þarf að fá stuttar vinnulotur. Best er að veita nauðsynlegar leiðbeiningar áður en nemandinn þarf að leita þeirra.

Ef nemandi hefur verið fjarverandi þarf að hafa fund með honum til að skipuleggja hvernig best sé að ná upp því sem hann missti af.

Námsaðferðir

Erfiðleikar við að ná einbeitingu og ljúka við verkefni er dæmigerð hegðun nemenda með taugaröskun. Kröfur sem gerðar eru í skólanum verða að taka mið af getu nemandans hverju sinni.

Til að hjálpa nemandanum í skólastarfinu þurfa kennarar og foreldrar að vinna saman. Velja þarf aðferðir kennslufræðinnar en einnig óhefðbundnari aðferðir til að ná árangri.

Nemandinn þarf að læra námstækni. Skólafélagar sem náð hafa góðum tökum á náminu geta aðstoðað hann. Oft þarf nemandinn að fá að nota óhefðbundnar aðferðir í skólastofunni þó svo að aðrir nemendur fái það ekki.

Hvatvísi

Nemandi með hegðunarröskun er oft hvatvís, framkvæmir eða talar áður en hann hugsar. Léleg sjálfstjórn á rætur sínar að rekja til taugaröskunarinnar. Hvatvísin getur lýst sér á eftirfarandi hátt, einn eða fleiri vegu:

 • Á erf itt með að læra af reynslunni
 • Á erfitt með að vera hljóðlátur
 • Á í erfiðleikum með að fylgja munnlegum leiðbeiningum
 • Á í erfiðleikum með að fylgja skriflegum leiðbeiningum
 • Áhættuhegðun
 • Byrjar á verkefni áður en leiðbeiningar liggja fyrir
 • Framkvæmir án umhugsunar
 • Hespar af verkefnum
 • Kæruleysisleg mistök
 • Spurningum svarað áður en lokið hefur verið við að leggja þær fyrir
 • Svarar án þess að vera spurður
 • Talar til annara nemenda þó þögn skuli ríkja í kennslustofunni
 • Tekur hluti frá öðrum nemendum
 • Truflar kennarann og aðra nemendur
 • Truflar og ónáðar aðra nemendur í leik og/eða starfi
 • Þarf stöðugt að vera að þreifa á hlutum

Ofvirkni

Smávægileg hreyfiþörf hins ofvirka á ekki að þurfa að hafa mikil áhrif ef rétt er staðið að málum því með því móti losnar nemandinn við pirring og getur síðan betur einbeitt sér.

T.d. má láta allan bekkinn standa upp af og til að gera æfingar. Einnig má láta nemandann hafa tvo vinnustaði í bekknum þar sem hann getur farið á milli þegar hreyfiþörfin grípur hann sínu ógnartaki. Hann ætti að fá að fara út úr bekknum þegar hann þarf þess með.

Ofvirkni lýsir sér oft í einhverju af eftirtöldu hegðunarmynstri:

 • Breytir stöðugt um stellingar, flytur til borð og stól, stöðugt á iði
 • Erfitt að sitja kyrr
 • Fikt og ásláttur með puttunum, blýanti eða öðru tiltæku
 • Fiktar í öllu nærtæku
 • Gengdarlaust tal
 • Hleypur úr einu verkefni í annað
 • Ið, hristir fætur, sparkar og iðar
 • Kastar hlutum
 • Óhófleg hreyfiþörf

Andstöðuþrjóskuröskun

Árásargirni og mótþrói hefur verið nefnd andstöðuþrjóskuröskun. Ofvirkir nemendur og nemendur með kæki hafa ekki stjórn á líkama sínum sem stöðugt er á iði og hreyfir sig oft alveg stjórnlaust. Síendurteknar hreyfingar sem nemandinn hefur ekki stjórn á geta valdið sársauka. Áráttu og þráhyggju fylgir að lítið þarf til að koma af stað kvíðakasti, skaprauna og reita til reiði sem síðan getur fengið útrás í árásargirni. Kennarinn þarf því að sjá til að allt í umhverfinu stuðli að því að nemandinn geti haldið sjálfstjórninni.

Ef kennaranum tekst að skapa gott samband við nemandann þannig að hann beri traust til kennarans, finni virðingu og umhyggju, þá aukast líkurnar til muna á að hann muni leita til kennarans með erfiðleika sína og geti sagt hvernig honum líði hverju sinni. Ef þannig samband skapast í skólanum mun það auðvelda mjög allan skilning umhverfisins á hegðun nemandans.

Þegar þroski barnsins leyfir má hafa fundi með bekknum í byrjun hverrar annar þar sem ræddar eru hegðunarreglur (svo óheppileg hegðun festist ekki í sessi) og hvernig skal staðið að úrlausn vandamála sem upp kunna að koma. Síðan eru haldnir fundir þegar vandamál koma upp, allt eftir þörfum og þegar þroskinn eykst geta skólafélagar lagt nemandanum lið. Óskipulag, hávaði og mannfjöldi eins og oft vill verða í frímínutum eru aðstæður sem eru erfiðar þessum nemendum. Þegar skóla lýkur á daginn getur verið nauðsynlegt að leyfa nemandanum að yfirgefa bekkinn áður en tíma lýkur til að forðast þrengsli á göngum. Skólastarfsmaður ætti að fylgjast vel með nemandanum í frímínútum til að geta gripið inn í ef eitthvað fer úrskeiðis (sem gerist reglulega).

Undirbúa þarf nemandann vel fyrir allar breytingar.

Skipulagið þarf að vera þannig að hreyfiþörfin fái útrás á sem eðlilegastan hátt og valdi sem minnstri truflun. Kennslu- og námsaðferðir skulu stuðla að því að halda streitu í lágmarki, að sem minnst truflun verði sem skapraunar nemandanum eða reitir hann til reiði. Að geta ekki veldur skapraun og því þurfa verkefnin að henta getu nemandans. Verkefni sem krefjast þess að nemandinn fái aðstoð er best að vinna í tíma en önnur verkefni henta sem heimaverkefni. Stutt verkefni eru æskileg því umfangsmikil verkefni valda erfiðleikum. Auka má heldur smátt og smátt lengd þeirra í takt við aukna hæfni nemandans.

Nemandi með áráttu og þráhyggju á ekki að byrja á nýju verkefni nema tími sé til að ljúka því.

Nemandinn þarf að læra að tala um vandamálin: „Ég get þetta ekki, þetta er of mikið fyrir mig“ „Ég skil þetta ekki“. „Ég þarf að fá að vera í friði, ég er að reiðast“. Hann þarf að læra að takast á við reiðina. Mikilvægt er að hann skilji að aðrir geti ekki sætt sig við reiðiköstin, að þau séu hegðun sem ekki sé hægt að líða. Einnig er mikilvægt að hann viti að hann sé ekki einn um þessa reiði, aðrir sem þjást af tauga- og hegðunarröskun eiga jafn erfitt og þurfa að læra að takast á við þessa reiðitilfinningar.

Aldrei má reyna að hafa áhrif þegar „stormur“ geysar því það eykur bara á. Betra er að reyna að afleiða nemanda þegar einkenni reiðikasts sjást (ef tími vinnst til). Einnig má reyna að þjálfa nemandann í að þekkja fyrirboða storms svo hann geti sagt frá þeim tilfinningum sem bærast innra með honum.

Nota má bókasafnið og tölvuverið til að koma til móts við þörf nemandans fyrir fjölbreytni.

Lokaorð

Nemandi með hegðunarröskun er mikil ögrun fyrir k ennara. Ekki er á allra færi að takast á við hegðunarraskanir og allra síst án aðstoðar. Miklar upplýsingar liggja fyrir en mest allt fræðsluefni er á erlendum tungumálum. Foreldrafélag misþroska barna hefur heilmikið bókasafn sem er aðgengilegt öllum félögum og öðrum áhugasömum.

Oft er lítið hægt að segja fyrir um hvaða hegðunar megi vænta eins og fram kemur hér að framan. Leiðbeiningarnar og tillögurnar eru byggðar á reynslu og eru því aðeins tillögur um hvað hægt er að gera, en hvað heppilegt er að gera fer eftir aðstæðum.

Reynslu og þekkingu sérkennara, skólasálfræðinga og annarra skólastarfsmanna af nemendum með hegðunarröskun ættu kennarar að nota til hins ýtrasta svo og reynslu foreldra og annarra sérfræðinga við meðhöndlun þessara barna.

Heimild:

1. Barkley, R.A. New ways of looking at ADHD. (Lectuer, 1991). Third Annual CH.A.D.D. Conference on Attention Deficit Disorders, Washington, D.C.

Birt með góðfúslegu leyfi Foreldrafélags misþroska barna.