Mýelínslíður

Mýli er hvítt, fitukennt efni utan um suma langa taugaþræði, einkum taugasíma (e. axons), en þeir flytja taugaboð frá taugafrumum eða taugungum (e. neurons) til annarra frumna í líkamanum.

Svokallaðar slíðurfrumur (e. Schwann cells) mynda einangrandi taugaslíður utan um taugaþræðina með því að vefja sig í mörg lög utan um þá líkt og snúðar og gefa frá sér mýli. Þannig raða slíðurfrumurnar sér hver við hliðina á annarri eftir endilöngum taugaþræðinum. Þær snertast þó ekki alveg heldur er örlítið bil á milli þeirra þar sem ekkert mýli er og kallast það mýlisskor (e. node of Ranvier).

Taugaboð raf- og efnafræðileg boð sem flytjast bæði innan og á milli taugafrumna. Mýli stuðlar að því að taugaboð berast mun hraðar eftir taugasímunum en ella. Mýlisslíðrið einangrar taugasímann þannig að enginn rafstraumur getur borist eftir honum þar sem slíðrið umlykur hann. Í mýlisskorunum er yfirborð taugasímans aftur á móti óeinangrað og rafstraumurinn stekkur því á milli mýlisskora. Þannig berst taugaboðið mun hraðar eftir taugafrumunni en ef það færi eftir öllu yfirborði símans.

Glöggir lesendur velta því ef til vill fyrir sér hvernig taugaboðið kemst á milli skora ef mýlið milli þeirra einangrar símann þannig að rafstraumur berst ekki eftir honum. Þannig er að yfirborð slíðurfrumna sem snúa frá símanum (á ystu vefju „snúðsins“) og liggja milli skora er mjög jónaríkt og því vel til þess fallið að leiða rafstraum milli þeirra hratt og örugglega. Útkoman verður svokölluð stökkleiðni taugaboðs, sem veldur því að taugaboð flyst eftir mýldum taugaþráðum allt að hundrað sinnum hraðar en eftir ómýldum þráðum.

Taugakerfið samanstendur af svokölluðu hvítu og gráu efni. Mýli myndar hvíta efni taugakerfisins. Í heilanum er það kallað heilahvíta og er um helmingur af þyngd heilans. Það finnst fyrir innan svokallaðan heilagrána sem er úr gráa efni taugakerfisins og myndar ysta hluta heilans. Hvítt efni finnst einnig í mænunni þar sem það er kallað mænuhvíta. Hún liggur utan um mænugrána sem er umhverfis mænugöngin innst í mænu. Enn fremur finnst hvítt efni í taugum um allan líkamann.

Þótt mýli hafi verið þekkt lengi var það ekki fyrr en árið 2005 sem menn uppgötvuðu hvernig myndun þess er virkjuð. Þá uppgötvaðist að genið neuregúlín stýrir myndun vaxtarprótíns sem taugungar mynda. Rannsóknir síðustu ára hafa sýnt að þetta ræður þykkt mýlísslíðursins utan um taugasíma. Komið hefur í ljós að mýldir taugasímar hafa þetta gen en ekki þeir sem eru ómýldir. Þetta gerir það að verkum að ef slíðurfrumum er bætt í rækt með ómýldum símum setjast þær á þræðina en mynda hins vegar ekki mýli utan um þá. Ef geninu neuregúlín er hins vegar komið fyrir í taugasímunum og slíðurfrumum síðan bætt í ræktina, þá setjast þær ekki aðeins á símana heldur mynda einnig mýlisslíður utan um þá.

Þessar tilraunir voru gerðar á sýnum úr úttaugakerfi músafóstra. Nú er verið að rannsaka hvort neuregúlín-genið hefur sömu áhrif á myndun mýlis í miðtaugakerfinu (heila og mænu). Ef svo reynist vera gefur það vonir um að í framtíðinni verði ef til vill mögulegt að gera við skaddaðar mænur og heilataugar með því að flytja neuregúlín-genið inn í frumurnar eða virkja starfandi genið í taugungum. Rannsóknir beinast nú að því að svara þeirri spurningu hvort þetta gen geti endurstillt taugung sem hefur tapað mýlisslíðrinu vegna slyss eða sjúkdóms þannig að hann fari að gera við sig og mynda nýtt mýlisslíður. Þessar rannsóknir geta haft mikla þýðingu fyrir meðferð taugasjúkdóma eins og til dæmis MS.

Grein þessi birtist fyrst á Vísindavef HÍ

Höfundur greinar