Nýrnasjúkdómar

Nýrnasjúkdómar eru margir og margs konar. Sumir koma fram strax við fæðingu á meðan aðrir birtast ekki fyrr en á fullorðinsárum. Flestir nýrnasjúkdómar eru ekki arfgengir en flokka má þá arfgengu í sex almenna flokka.

Í fyrsta flokki eru vanskapanir nýrna og annarra þvagfæra. Í öðrum flokki eru ýmsir blöðrusjúkdómar (e. cystic diseases). Hér er ekki átt við þvagblöðruna, heldur blöðrumyndanir í þvagfærum. Í þeim þriðja eru kvillar í síunarferli nýrnanna eða svokallaðir æðhnoðrasjúkdómar (e. glomerular diseases). Í fjórða flokki eru sjúkdómar í nýrapíplum (e. tubular diseases), í þeim fimmta eru arfgengir efnaskiptagallar og í þeim sjötta eru nýrnakrabbamein.

Flestir arfgengir nýrnasjúkdómar koma fram í bernsku eða á unglingsárum en sumir koma ekki fram fyrr en seinna. Orsök IgA-nýrnakvilla (e. IgA nephropathy) sem hér var sérstaklega spurt um er ekki ljós, en sjúkdómurinn liggur þó að einhverju leyti í ættum og því er líklegt að arfgengir þættir komi eitthvað við sögu. Hann er þó ekki dæmigerður arfgengur sjúkdómur, það er að segja ekki eingena sjúkdómur.

 

IgA er skammstöfun fyrir ónæmisglóbúlín A (e. immunoglobulin A), ónæmisprótín sem telst til mótefna líkamans og er hluti af ónæmiskerfinu.Þegar um IgA-nýrnakvilla er að ræða falla sameindir þessa prótíns út í æðhnoðrum nýrnanna. Undir eðlilegum kringumstæðum sía æðhnoðrarnir úrgangsefni og umframvatn úr blóði og koma til þvagblöðru sem þvag. IgA útfellingarnar trufla þessa síun og leiða til þess að blóð og prótín enda í þvagi og bjúgur kemur á hendur og fætur. Þetta er þrálátur nýrnasjúkdómur og getur þróast í áratugi. Sé lokastig hans nýrnabilun verður sjúklingurinn að fara í nýrnavél eða fá nýrnaígræðslu.

Helsta einkenni þessa nýrnakvilla er blóð í þvagi en hann er oft einkennalaus og getur verið til staðar í mörg ár áður en hann er greindur. Af þeim sökum er erfitt að átta sig á tíðni hans á byrjunarstigi. Hann er þó talinn vera algengasti staðbundni æðhnoðrabólgusjúkdómurinn, það er sem ekki er fjölkerfasjúkdómur með áhrif á mörg önnur líffæri en nýrun, eins og sykursýki og rauðir úlfar (e. lupus).

Ekki er mælt með neinni sérstakri meðferð við IgA-nýrnakvilla ef sjúkdómurinn er vægur eða á byrjunarstigi og sjúklingurinn er með eðlilegan blóðþrýsting og lítið prótín í þvagi (innan við 1 gramm í þvagi sem hefur verið safnað í sólarhring). Þegar prótínmagn í þvagi fer yfir 1 gramm á sólarhring er stundum gripið til þess ráðs að vernda nýrnastarfsemi með því að minnka þetta magn og lækka blóðþrýsting. Sjúklingurinn er þá settur á blóðþrýstingslækkandi lyf. Stundum er einnig mælst til þess að sjúklingur dragi úr prótínneyslu og stýri fæðuneyslu sinni þannig að hann forðist þær fæðutegundir sem stuðla að hækkun blóðfitu og blóðþrýstings.

Grein þessi birtist fyrst á Vísindavef HÍ

Höfundur greinar