Offita

Hjá okkur hér á Íslandi er offita svo sannarlega vaxandi vandamál, þjóðin er að fitna.  Árið 1998 voru helmingi fleiri karlar með BMI yfir 25 en árið 1968 og rannsóknir hafa einnig sýnt okkur að börn eru að þyngjast.    Við tölum jafnvel um það sem eðlilegt að konur bæti á sig hálfu til einu kílói á ári eftir 25 ára aldurinn.  Það á alls ekki að vera sjálfsagt að bæta á sig kílói eftir kílói.  Við þurfum að spyrna við fótum og snúa þessari þróun við.

Hvers vegna er offita vandamál?  Offita er vandamál vegna þess að offitu fylgja alvarlegir fylgikvillar og vanlíðan.

Helstu fylgikvillar offitu eru:

 • Kransæðasjúkdómar
 • Sykursýki Týpa 2
 • Of hár blóðþrýstingur
 • Röskun á blóðfitu
 • Mæði
 • Heilablóðfall
 • Gallblöðrusjúkdómar
 • Svefntruflanir
 • Slitgigt í hnján
 • Krabbamein í ristli
 • Brjóstakrabbamein

Hvenær er yfirvigt orðin vandamál – hvenær tölum við um offitu?

Við skilgreiningu á offitu er oftast notaður svokallaður líkamsþyngdarstuðull (BMI). Hann er reiknaður út frá hæð og þyngd samkvæmt formúlunni þyngd/hæð2 (kg/m2 ). Með því að reikna hann út er unnt að meta hvort viðkomandi sé of þungur. Sömu viðmiðunarmörk eru fyrir konur og karla. Þessi mörk gilda aftur á móti ekki um börn. Stuðullinn tekur ekki tillit til mismunandi líkamsbyggingar og greinir ekki milli þyngdar vöðva og fitu þannig að vöðvamikill og grannur einstaklingur getur fengið háan BMI.

BMI stuðullinn gefur fyrst og fremst vísbendingu um það hvar viðkomandi er staddur m.t.t. offitu.  Hægt er að reikna út BMI stuðul sinn hér

Eðlileg þyngd er                 BMI           18,5 – 25

Fyrsta stigs offita er           BMI           25 – 30

Annars stigs offita er           BMI           30 – 40

Þriðja stigs offita er           BMI           40 og yfir

Hvers vegna fitnum við?

Það er erfitt að segja nákvæmlega til um það hvers vegna við fitnum og hvers vegna sumir fitna en aðrir ekki.

 • Efnaskiptin: Eitt er víst – efnaskiptin hjá okkur eru misjöfn.  Sumir eiga einfaldlega auðveldara með að safna forða en aðrir.
 • Borðum meira en við brennum.  Til þess að fitna eða safna forða er ljóst að það þarf að borða meira en brennt er.  Orkuinntakan þarf að vera meiri en þörfin og umframorkan er þá geymd sem fita í líkamanum.
 • Umhverfisþættir hafa auk þess mikil áhrif, kyrrseta er meiri en áður og framboð á mat gífurlegt.

 

Það er hægt að léttast og snúa þróuninni við. 

Það eru þó engar skyndilausnir líklegar til þess að hjálpa þér.  Fyrirtæki keppast við að setja á markað og selja  ,,töfralausnir”.  Þessar lausnir eru ekki líklegar til árangurs, að minnsta kosti ekki til langs tíma litið.  Einfaldar lausnir eru ekki til og eina leiðin til léttara og betra lífs er lífstílsbreyting.

“Þú berð ábyrgðina á þínu lífi og lífi barnanna þinna”

Viljir þú takast á við vandann þarft þú að taka ákvörðun um að gera það.  Þá er gott að setja sér raunhæf markmið og muna að góðir hlutir gerast hægt.  Þú ert að þessu fyrir sjálfan þig og hugsanlega börnin þín og það stendur allt og fellur með því að þú haldir út og standir þig.  Það getur verið gott að gera einskonar samning í upphafi, þar sem fram koma ástæður þess að þú leggur í þetta “langhlaup”, markmiðin sem þú setur þér á leiðinni og þegar lokatakmarkinu er náð.  Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því í upphafi að þegar takmarkinu er náð er baráttan rétt að hefjast.

Það eru nokkrar greinar um offitu inn á www.doktor.is þar sem hægt er að lesa sér til um það hvernig best er að standa að því að létta sig.  Þar má helstar nefna:

 • Offita – aðferðir sem virka,  e. Ólaf Gunnar Sæmundsson, næringarfræðing.
 • Offita – taktu hana alvarlega, grein unnin upp úr bæklingi sem Hjartavernd gaf út árið 2002.
 • Offita – hreyfing, mataræði, lyf,  e. Hildi Ósk Hafsteinsdóttir, næringarfræðing.

Ég hvet all þá sem eiga við offitu að stríða að lesa sér til um þær leiðir sem gott er að fara til þess að takast á við vandann.  Mataræði og hreyfing skiptir þar að sjálfsögðu mestu máli en auk þess eru til lyf við offitu.  Lyfin eru aðallega hugsuð fyrir þá sem hafa BMI yfir 30 eða þá sem eru með þekkta áhættuþætti offitu.   Ef vandinn er mikill er nauðsynlegt að vera í sambandi við fagfólk þegar farið er af stað.  Næringarfræðingar, hjúkrunarfræðingar, læknar, sjúkraþjálfarar eða aðrir sérmenntaðir þjálfara geta svo sannarlega gefið góð ráð og veitt stuðning.

Gangi þér vel,