Ráðgjöf í reykbindindi

Ert þú einn af þeim sem hefur lengi velt því fyrir þér að hætta að reykja, en ekkert gengið??

Reykingar eru gríðarlegt heilbrigðisvandamál, 8. hverja sekúndu deyr einhver í heiminum af völdum reykinga. Að meðaltali deyr einn Íslendingur á dag af völdum reykinga. Þessar tölur undirstrika mikilvægi tóbaksvarna og allrar þeirrar vinnu sem lögð er í að hjálpa fólki að hætta að nota tóbak.

Það besta sem reykingarfólk getur gert fyrir heilsu sína er að hætta að reykja.

Ávinningurinn af því að hætta að reykja kemur strax eftir 20 mínútur og er að skila sér jafnt og þétt í 10 ár:

20 mínútur Blóðþrýstingur og hjartsláttur verða eðlilegri. Blóðflæði eykst til handa og fóta.
8 klst. Súrefnismettun í blóði verður eðlileg. Hætta á hjartáfalli minnkar.
24 klst. Kolmónoxíð er horfið úr líkamanum. Lungun byrja að hreinsa sig.
48 klst. Nikótín er farið úr líkamanum. Lyktar- og bragðskyn eykst.
72 klst. Öndun verður léttari og úthald eykst.
2 – 12 vikur. Blóðflæði um líkamann eykst.
3-9 mánuðir Öndunarvandamál minnka og lungnastarfsemi hefur aukist um 5-10%.
5 ár Hætta á hjartaáfalli minnkað um helming.
10 ár Hætta á lungnakrabbameini minnkað um helming. Hætta á hjartaáfalli orðin sú sama og hjá þeim sem aldrei hefur reykt.

Ráðgjöf í reykbindindi, grænt númer 800-6030 er símaráðgjöf fyrir fólk sem vill hætta eða er nýhætt að reykja og vantar stuðning.

Þó svo þjónustan beri nafnið Ráðgjöf í reykbindindi er þessi þjónusta fyrir alla þá sem vilja þiggja aðstoð við að losna úr viðjum NIKÓTÍNFÍKNAR.

Í dag starfa 7 sérþjálfaðir hjúkrunarfræðingar við RíR, en læknir, næringarráðgjafi og aðrir sérfræðingar eru til aðstoðar ef með þarf.

Svarað er í símann alla virka daga milli kl.17 og 19, þess á milli er símsvari sem hægt er að skilja eftir skilaboð á.

Símtölin eru öll tekin eftir fyrirfram ákveðnu kerfi. Fólk getur hvort sem er fengið ráðgjöf með nafnleynd eða látið skrá sig og fengið endurhringingar (stuðningssamtöl). Einnig er skjólstæðingum sent fræðsluefni sér að kostnaðarlausu. Nýverið tóku Ráðgjöf í reykbindindi og Doktor.is upp samstarf og gefst nú fólki kostur á að hafa samband við Ráðgjöf í reykbindindi með fyrirspurnum í gegnum Doktor.is.