Reisn alþingis

NOKKUÐ hefur verið deilt á Alþingi undanfarnar vikur vegna samansafnaðra þingmála, sem varð að afgreiða fyrir þinglok og hefur verklagi þess jafnvel verið líkt við færibandavinnu. Ekki má efast um vinnusemi, samviskusemi og heiðarleika alþingismanna okkar við þessi störf og eðlilegt er að ágreiningur sé uppi og að umræða fari fram um mál sem til afgreiðslu koma.

Á nýliðnu þingi sýndu alþingismenn skilning, framsýni og vilja í verki með stuðningi sínum við baráttuna gegn sjúkdómum, sem mörg hundruð Íslendinga fá á ári hverju. Hér er átt við samþykkt Alþingis á þingsályktunartillögu um auknar forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi og öðrum sjúkdómum þeim tengdum, en fyrsti flutningsmaður hennar var Árni Ragnar Árnason alþingismaður. Ályktunin var samþykkt samhljóða á Alþingi hinn 3. maí síðastliðinn og hljóðar þannig.

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra í samráði við landlækni að gera tillögur um hvernig staðið skuli að forvarna- og leitarstarfi vegna krabbameins í meltingarvegi fyrir þá sem teljast vera í áhættuhópi og undirbúa framkvæmd starfsins. Jafnframt verði hafinn undirbúningur að því að beita sömu aðferðum, eftir því sem fært er, í baráttunni við aðrar algengustu tegundir krabbameina hér á landi.“

Það er athyglisverð tilviljun að 23. mars síðastliðinn staðfesti Páll páfi II stuðning sinn við alþjóða baráttu gegn krabbameini í meltingarvegi, sem undirbúin er af heimssamtökum meltingarlækna (OMGE og OMED) og Evrópusamtökum meltingarlækna (UEGF).

Á hverju ári greinast um 3 milljónir nýrra tilvika krabbameins í meltingarvegi í heiminum og 2,2 milljónir manna deyja af völdum þessara krabbameina á ári hverju. Í Vatíkaninu var því lýst yfir að fyrsta takmarkið væri að árið 2010 yrði fækkað um helming þeim 500.000 einstaklingum sem deyja árlega um heim allan vegna krabbameins í ristli og endaþarmi. Það á að bjóða öllum, körlum og konum, 50 ára og eldri, skimun eða kembileit fyrir ristilkrabbameini og forstigum þess, sem nefnist kirtilæxli eða ristilsepi. Baráttan mun því í fyrstu beinast gegn krabbameini í ristli og endaþarmi, en þess má geta að páfinn sjálfur, sem er verndari átaksins, greindist með sjúkdóminn á byrjunarstigi fyrir mörgum árum.

Hér á landi er þegar hafinn undirbúningur að átaki gegn krabbameinum í meltingarvegi. Á síðasta ári var fræðsluátak fyrir almenning (Vitundarvakning) um vélindabakflæði. Samkvæmt Krabbameinsskrá Íslands er tíðni kirtilmyndandi krabbameins í vélinda verulega vaxandi hér á landi og er það talið m.a. tengjast langvarandi bólgum vegna vélindabakflæðis.

Undirbúningur að aukinni fræðslu og skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi hefur farið fram um nokkurt skeið. Þetta krabbamein er 3ja algengasta krabbameinið meðal Íslendinga og önnur algengasta dánarorsökin af völdum krabbameina. Það greinast um 112 einstaklingar á hverju ári með krabbamein í ristli og endaþarmi og um 40-50 deyja úr þessum sjúkdómi árlega. Um 90% þeirra sem fá þennan sjúkdóm eru 50 ára og eldri.

Til þess að hafa áhrif á geigvænlegar afleiðingar sjúkdómsins er nauðsynlegt að leita markvisst að honum og forstigum hans hjá einstaklingum 50 ára og eldri. Auk þess er mikilvægt að greina áhættustig (t.d ættarsögu um krabbamein í ristli) og aðra ristilsjúkdóma, sem kunna að auka hættuna á myndun krabbameins. Æskilegt er að fylgjast reglulega með þeim einstaklingum sem hafa greinst með illkynja mein eða forstig þeirra (ristilsepa, kirtilæxli) í ristli.

Hinn alþjóðlegi átakshópur (OMGE, OMED, UEGF) hefur boðið fram aðstoð við að skipuleggja baráttuna gegn þessum krabbameinum í hinum ýmsu þjóðlöndum. Hér á landi höfum við fylgst vel með gangi mála erlendis þar sem undirbúningur er hafinn og lýst möguleikum okkar og áhuga á að hefja baráttuna gegn framangreindum meinum.

Samþykkt Alþingis um auknar forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi og tilmæli þess til heilbrigðisráðherra og landlæknis um að gera tillögur að því starfi og undirbúa framkvæmd þess, er mikið fagnaðarefni. Þetta er í góðu samræmi við þá vakningu og þróun sem á sér stað víða erlendis. Hún sýnir reisn Alþingis og er hvatning til þeirra sem berjast hér á landi fyrir þessum aðgerðum, sem verða öllum til heilla og munu auka lífgæði hér á Íslandi.

Höfundur: Ásgeir Theodórs