Reykingaþörf

Allir sem hætta að reykja eiga á einn eða annan hátt eftir að finna til reykingaþarfar. Það getur gerst fyrstu dagana eftir að reykingunum er hætt en líka síðar. Besta ráðið til að vera viðbúinn þessu er að fara nákvæmlega yfir það í huganum hvernig maður ætlar að bregðast við þegar reykingaþörfin brýst fram. Það hjálpar líka að vita að reykingaþörfin stendur sjaldan lengur en í 2-4 mínútur og að stórlega dregur úr þessum köstum strax fyrstu 2 vikurnar eftir að reykleysið hófst. Engu að síður verður fólk að vera við því búið að reykingaþörfin skjóti upp kollinum annað slagið fyrst um sinn, oft einmitt á stöðum og stundum þegar alltaf var reykt áður.

Hættuaðstæður

Það er líka snjallt að hugleiða hvaða aðstæður séu líklega varasamastar. Skrifið upp áætlun um hvað þið ætlið að gera í staðinn fyrir að reykja.

  1. Staðir og tækifæri þegar ég mun hafa sérlega mikla löngun til að fá mér að reykja.
  2. Þetta geri ég í staðinn fyrir að reykja.

 

Skyndihjálp við reykingalöngun

  • Beindu athyglinni frá reykingaþörfinni þar til hún gengur yfir.
  • Rifjaðu upp allar þær góðu ástæður sem þú hefur til að vera reyklaus.
  • Farðu í svolitla gönguferð. Líkamshreyfing er afbragðsráð þegar menn hætta að reykja.
  • Tyggðu tannstöngul eða burstaðu tennurnar.
  • Bragð af sítrusávöxtum, piparmintu, mentóli og saltlakkrísi getur slegið á reykingalöngunina.
  • Fáðu þér ávöxt, grænmeti eða sykurlausar sælgætistöflur að borða.
  • Fáðu þér vatnsglas að drekka, gjarna með sítrónusneið út í.
  • Vertu fyrri til en reykingaþörfin. Ef þú finnur að hún er byrjuð að láta á sér kræla skaltu bregðast hart við. Reyndu að taka á móti af krafti. Ekki láta undan neikvæðum hugsunum.
  • Láttu reykingaþörfina minna þig á að nú sért þú loks við stjórnvölinn á nýjan leik, að nú ráðir þú eigin lífi.
  • Hringdu í vin eða Reyksímann 800 6030.

 

Mundu að reykingalöngunarköstin verða ekki bara fátíðari heldur vægari líka þegar fjær dregur. Og í hvert sinn, sem þú stenst löngunina, eflirðu vald þitt yfir reyknum.

Langar þig í bara einn smók?

Mjög fáir ákveða beinlínis að fara að reykja aftur, það gerist bara. Eiginlega er það bara ein sígaretta sem þú þarft að varast: sú næsta. Ef þú ákveður að stýra fram hjá henni heldurðu tvímælalaust áfram að lifa reyklausu lífi.

Ákveddu að það sért þú sem hefur völdin!

Útvegaðu þér stuðningsmann

Þegar þú hættir að reykja þarftu að útvega þér stuðningsmann, einn eða fleiri. Það eykur líkurnar á að allt takist. Auk þess að fara að ráðunum, sem þú getur fengið frá reyklaus.is, er mælt með  að nota spjallsíðuna og gestabókina af miklum móð. Hjá reyksímanum 800 6030 færðu persónulegar leiðbeiningar og upplýsingar ókeypis. Notfærðu þér tækifærið. Þú getur líka sent tölvupóst með því að senda á reyklaus@reyklaus.is.

Grein þessi er fengin af síðu reyklaus.is og birt með góðfúslegu leyfi þeirra

Höfundur greinar