Reyndu að skilja og hvetja aðra í kringum þig

Fæstir hafa gaman af því að fá fólk upp á móti sér og flestir vilja hafa ánægjuleg samskipti við fólkið í kringum sig. Að vera góður í mannlegum samskiptum er góður kostur. Líklega eigum við misauðvelt með samskipti við annað fólk en það er öruggt að allir geta bætt samskipti sín við aðra.

 

Ágreiningur milli manna verður oft þegar fólk gleymir að setja sig í spor annarra og einblínir á málin frá eigin sjónarhóli. Lykillinn að bættum samskiptum er að að reyna að skilja aðra betur í stað þess að vilja fyrst og fremst að fólk skilji mann sjálfan. Það er kjarni málsins. Mikilvægt er að hlusta vel á aðra þegar þeir eru að tala og leyfa þeim að ljúka máli sínu áður en við byrjum sjálf. Með öðrum orðum: Hættum að grípa fram í. Góður hlustandi hlustar á alla hugsun viðmælandans í stað þess að bíða í óþreyju eftir tækifæri til að svara. Við tölum oft við aðra eins og við séum að taka þátt í keppni þar sem mestu máli skiptir að byrja að tala eins fljótt og hægt er eftir að viðmælandi okkar hefur sleppt orðinu. Veitið þessu athygli næst þegar þið sitjið á kaffihúsi eða annars staðar þar sem fólk situr á spjalli.

 

 

 

Hrós og hvatning Til að bæta samskipti okkar enn frekar er mikilvægt að kunna að hrósa öðrum og hvetja þá áfram. Hrós og hvatning eru mjög uppbyggjandi fyrir samskipti og með því drögum við úr afbrýðisemi og öfund sem brjóta niður og eyðileggja. Við þekkjum það öll hversu mikilvægt það er að fá hrós og hvatningu frá þeim sem við tökum mark á. Yfirmenn á vinnustöðum ættu að vera ósparir á að hrósa starfsmönnum sínum því það skilar sér í ánægðari starfsmanni sem er reiðubúinn að leggja enn meira á sig en áður. Foreldrar ættu einnig að vera duglegir að hrósa börnum sínum og hvetja þau áfram því þannig styrkja þau sjálfsmynd þeirra. Vinir geta einnig gefið hvor öðrum mikið með hrósi.

 

Það er engin ástæða til þess að spara hrósin og hvatninguna. Innantómt hrós sem ekki á við rök að styðjast er að sjálfsögðu gagnlaust en það tapar enginn á því að hrósa þeim sem á það skilið. Til þess að fólki líði vel í návist okkar ættum við að reyna eins og við getum að skilja og hvetja aðra í kringum okkur og þá verða samskipti okkar við aðra ánægjulegri.

 

 

 

 

 

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir

 

verkefnisstjóri Geðræktar

 

 

 

Frá Landlæknisembættinu