Rúmlega er raun fyrir bakverki

Fyrir tveimur árum gaf Landlæknisembættið út breskan bækling um bakverki í þýðingu Magnúsar Ólasonar yfirlæknis á Reykjalundi. Nú að loknum sumarleyfum er ástæða til að fjalla aftur um bakverki og minna á bæklinginn, sem finna má á vefsíðu Landlæknisembættisins, http://www.landlaeknir.is, en grein sem unnin var upp úr bæklingnum má finna hér

 

Í bæklingnum koma fram mikilvægar upplýsingar um bakverki, sem er eitt af algengustu heilsufarsvandamálum á Vesturlöndum. Máli skiptir að menn átti sig á því að bakverkir orsakast yfirleitt aldrei af alvarlegum sjúkdómi og lagast oftast nær á nokkrum dögum eða vikum. Um það bil helmingur þeirra sem bakverki fá, fá þá aftur innan tveggja ára, en það þarf þó ekki að þýða að vandamálið sé alvarlegt. Mjög fáir sem bakvandamál hafa eru með brjósklos eða klemmda taug. Röntgenrannsóknir og segulómun er hægt að nota til að greina alvarlega sjúkdóma í hrygg og baki en hjálpa mjög sjaldan við venjulega bakverki, sem bundnir eru við mjóbakið og leiða ekki niður fætur. Enn telja margir að besta lækningin við bráðum bakverk sé rúmlega. Ítrekaðar rannsóknir undanfarinna ára og áratuga sýna að svo sé ekki, rúmlega er raun fyrir bakið. Besta meðferðin er að hreyfa sig, enda ráða langflestir við bakverkjaköst sín sjálfir. Yfirleitt nægir að taka inn einföld verkjalyf, eins og paracetamol, til að lina sáraukann, skipuleggja athafnir eftir getu og það sem ef til vill mestu máli skiptir, eins og að ofan segir, að fólk haldi sér gangandi og lifi venjubundnu lífi eftir bestu getu.

 

 

Mjög margir leita til lækna, sjúkraþjálfara, hnykkja, sjúkranuddara, nuddara eða annarra til meðferðar og er síst verið að mæla því í mót. Í nýlegri breskri rannsókn voru tæplega 1400 sjúklingar skoðaðir, sem allir höfðu haft mjóbaksverki í a.m.k. fjórar vikur. Einn hópur sjúklinganna fékk venjubundna meðferð, eins og lýst er að ofan, með verkjalyfjum og venjubundinni hreyfingu eftir getu, aðrir hópar fengu slíka meðferð auk viðbótarmeðferðar, sem var annað hvort skipulagðar æfingar (allt að 8 tímar á 4-8 vikum), hnykkmeðferð hjá hnykkjum eða sjúkraþjálfurum (allt að 8 skipti á 12 vikum) eða hvoru tveggja. Árangur þessarar viðbótarmeðferðar var tiltölulega lítill. Skipulagðar æfingar og hnykkmeðferð hnykkis eða sjúkraþjálfara var lítillega betri heldur en handarmeðferðin ein, sem var svo aftur aðeins betri heldur en æfingarnar einar. Óvíst er þó um raunverulegan klínískan mun þarna á milli.

 

 

Niðurstaðan er því sú að enn skiptir mestu máli sú meðferð sem fólk getur sjálft sinnt og ber þar hæst að því fyrr sem fólk með mjóbaksverk byrjar að hreyfa sig þeim mun fyrr lagast hann. Viðbótarupplýsingar má finna í Bókinni um bakið á vef Landlæknisembættisins.

 

 

Ráðleggingar til fólks með bakverk

  • Ganga
  • Hjóla á þrekhjóli
  • Synda
  • Dansa
  • Fara í jóga eða heilsuræktina
  • Stunda almennar athafnir og tómstundir

Frá Landlæknisembættinu