Sálræn skyndihjálp

Hvað er áfall?

Áfall er viðbrögð einstaklings við atburði sem veldur honum svo miklu álagi að venjuleg bjargráð hans duga ekki til og hann verður að leita sér aðstoðar. Meðal erfiðustu áfalla eru þau sem eru óvænt, tilviljanakennd og án nokkurs skiljanlegs tilgangs.

Hvað getur valdið áfalli?

Viðbrögð fólks eru einstaklingsbundin og því bregðast ekki allir eins við sama atburði.
Meðal atburða sem geta valdið áfalli eru:

 • missir einhvers nákomins
 • bílslys
 • kynferðisleg árás
 • rán
 • alvarlega meiðsl
 • alvarlegur sjúkdómur
 • gjaldþrot
 • missir á fyrri getu, t.d. líkamlegir
 • að verða valdur að alvarlegu slysi eða tjóni
 • að verða vitni að ógnvekjandi eða voveiflegum atburði.

Hvað er sálræn skyndihjálp?

Sálræn skyndihjálp er líkamleg og andleg aðhlynning við einstaklinginn til fyrra jafnvægis og sjálfstæðis.

Sálræn skyndihjálp er milliliða- og tafarlaus.

Rauði krossinn og mannlegur stuðningur

Rauði krossinn hefur beitt sér fyrir því að þekking á sálrænni skyndihjálp verði útbreidd á Íslandi.

Rauði krossinn leitast við að koma öllum til hjálpar sem á þurfa að halda og fer ekki í manngreinarálit.

Rauði krossinn heldur námskeið í sálrænni skyndihjálp

Flestir hafa einhverja reynslu af því að veita öðrum stuðning. Þó hafa ekki allir sömu þarfir þegar um vanlíðan er að ræða og þess vegna getur verið gagnlegt að fara á námskeið í sálrænni skyndihjálp til glöggvunar á því sem skiptir máli í þessu samhengi. Þar gefst líka tækifæri til að hlusta á sjónarmið annarra og læra af reynslu þeirra.

Markmiðin með námskeiðinu eru:

Að þáttakandi:

 • Geri sér betur grein fyrir eðlilegum viðbrögðum fólks sem lendir í sársaukafullum aðstæðum
 • Læri hvernig hann getur veitt stuðning og umhyggju þegar erfiðleikar steðja að.
 • Öðlist innsýn í mikilvægi mannlegs stuðnings þegar lífið leikur mann grátt
 • Þekki hvaða úrræði samfélagið hefur upp á að bjóða í tengslum við sálræna skyndihjálp og mannlegan stuðning.

Sérhæfðir leiðbeinendur í sálrænni skyndihjálp á vegum Rauða krossins halda námskeiðin. Lengd námskeiðis er 8 klukkustundir. Boðið er upp á styttri eða lengri námskeið ef stærri hópar óska eftir.

Á námskeiðum í sálrænni skyndihjálp er farið yfir:

Munurinn á stóráfalli og áfalli, áhrif áfalls á einstaklinginn, eðlilega viðbrögð einstaklinga við óeðlilegum aðstæðum, áhrif streitu á einstaklinginn, ýmsar tegundir af áföllum, hvernig við getum best veitt mannlegan stuðning, áhrif áfalla á börn, hvernig við getum best veitt börnum stuðning í kjölfar áfalls, sorgarferlið og sorg barna.

Námskeiðið er byggt upp á fyrirlestrum, umræðum og hópvinnu.

Deildir Rauða krossins eru alls 51 um allt land. Margar af þesum deildum halda reglulega námskeið í sálrænni skyndihjálp og því er rétt að hafa samband við deild á búsetusvæði ef áhugi er fyrir slíku námskeiði.

Ef um er að ræða stóran hóp og ekki er fyrirhugað námskeið hjá viðkomandi deild er hægt að leita til aðalskrifstofu Rauða kross íslands í síma 570-4000, sem útvegar sérhæfða leiðbeinendur til að koma t.d. á vinnustað eða í skóla.

Rauðakrosshúsið

Tjarnargötu 35, sími 800 5151.
Neyðarathvarf fyirr börn og unglinga.
Trúnaðarsími og ráðgjöf.

Vinalína Rauðakross Íslands.
Sími 800 6464 er opinn öll kvöld kl. 20:00-23:00 fyrir 20 ára og eldri sem þurfa á vini að halda.
Sjálfboðaliðar Rauða krossins svara.

Áfallateymi Rauða kross Íslands fyrir börn og unglinga.

Í teyminu eru sálfræðingar, prestar, hjúkrunarfræðingar og fleiri sérfræðingar. Þeir eru kallaðir út af Rauða krossinum þegar beiðni um áfallahjálp hefur borist og þörf er á sérfræðiaðstoð.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands, redcross.is