Sjálfsmynd, ungur fræðir ungan

Það kom í ljós seinasta sumar þegar Jafningjafræðslan var með fræðslu fyrir 14 og 15 ára krakka að mikil þörf er á aukinni fræðslu um hvernig styrkja megi sjálfsmyndina. Mikið var spurt um þær leiðir sem fara mætti og greinilegt að þessi umræða hafði ekki verið í hávegum höfð á heimilum þeirra eða skóla. Virtust þau gera sér grein fyrir mikilvægi þess að hafa góða sjálfsmynd.

Í þeim fræðslum sem hafa verið í sumar hefur aðaláherslan verið lögð á umræður um sjálfsmynd. Til þess að byrja með er rætt almennt um hugtakið sjálfsmynd og hvað það þýðir. Hópurinn er oft ekki alveg með það á tæru hvað sjálfsmynd er í upphafi dags, en þegar búið er að virkja hópinn og krakkarnir farnir að taka meiri þátt kemur allt efnið í raun og veru frá þeim sjálfum. Rætt um afleiðingar slæmrar og góðrar sjálfmyndar. Í þessum umræðum er sú spurning sett fram hvort að góð sjálfsmynd sé mikilvæg og þá af hverju. Það virðast allir vera með það á hreinu að slæm sjálfsmynd getur haft margvíslegar afleiðingar eins og t.d áfengis- og vímuefnaneyslu, óábyrga kynlífshegðun, ofbeldi, einelti, áhrifagirni, óhamingju og fleira í þessum dúr. Einstaklingar með slæma sjáfsmynd eiga oft erfitt með að standa með sjálfum sér og standast þrýsting frá jafnöldrum sínum með því að segja nei. Vegna eigin vanlíðunnar níðast þeir gjarnan á öðrum til þess að upphefja sjálfa sig.

Eins getur góð sjálfsmynd hjálpað einstaklingum til þess að taka sjálfstæðar ákvarðanir og ná markmiðum sínum. Einstaklingar með góða sjálfsmynd virðast vera sáttari við sjálfa sig og lífið. Þeir búa yfir meiri vellíðan og lífsgleði og fá meiri virðingu frá öðrum.

Í fræðslum eru allir beðnir að nefna 3 kosti við sjálfa sig. Þarna hafa margir lent í vandræðum, segjast ekki hafa neina kosti og til að bjarga sér út aðstæðum nefna ýmsa hlutlæga kosti líkt og “góður námsaður”, “góður á hjólabretti” og “í flottri peysu” og óska eftir því að fá að nefna galla sína frekar. Þetta sýnir að umræða um sjálfsmynd í dag er á byrjunarstigi og greinilegt að vanþörf er á frekari aðgerðum. Hefja þarf ákveðið forvarnar- eða fræðslustarf þar sem fólk af öllum aldri er hvatt til að vera jákvætt gagnvart sjálfum sér og að samfélagið samþykki að fólk sé stolt af sínum kostum og hiki ekki við að sýna þá og ræða. Menning unglinga snýst mikið um að einblína á það neikvæða í sínu fari og á aðra í kringum sig. Að rífa sig niður er mun auðveldara en að byggja sig upp og sú leið er meira samfélagslega samþykkt. Fólk sem er með góða sjálfsmynd og er ánægt með sjálft sig fær neikvæða umfjöllun og er talið með of stórt “egó”, sem þykir neikvætt.

Einnig er farið í hugmyndavinnu með unglingunum um hvað hægt sé að gera til að bæta sjálfsmynd þeirra. Upp frá þessu kvikna áhugaverðar og heitar umræður um hugtakið. Þarna hafa margar sniðugar hugmyndir komið fram frá hópnum t.d að reyna frekar að sjá kosti hjá öðrum og hrósa þeim fyrir þá, að vera jákvæður gagnvart göllum sínum og geta hlegið að mistökunum. Það að geta hlegið að mistökum sínum er einmitt merki um sterka jákvæða sjálfsmynd. Flestir eru sammála um að þeir mættu vera duglegri að muna eftir eigin kostum og túlka bæði hrós og annað á jákvæðari hátt. Eins þykir þeim afskaplega mikilvægt að vera sjálfum sér samkvæmur. Það getur verið erfitt fyrir einstakling með slæma sjálfsmynd að vinna einn að því að bæta hana. Þess vegna er mikilvægt fyrir alla að hlúa vel að þeim sem eru í kring um sig eru. Þar er hrós sem á rétt á sér mikilvægara en margt annað.
Þó að sjálfsmyndin sé góð þarf alltaf að vera að hlúa að henni. Óábyrg hegðun getur auðveldlega brotið niður góða sjálfsmynd.

Jafningjafræðslan hér á landi hefur verið starfandi frá árinu 1996 og hefur þróast og gengið í gegnum margvíslegar breytingar í gegnum árin. Jafningjafræðslan hefur undanfarin ár staðið fyrir fræðslustarfi sem ætlað er ungu fólki. Fræðslan byggist á opnum umræðum með hópnum sem er verið að fræða. Sú hugmyndafræði sem Jafningjafræðslan vinnur eftir er ungur fræðir ungan. Allt fræðslustarf Jafningjafræðslunnar er skipulagt og framkvæmt af ungu fólki á aldrinum 17 –25 ára. Hópur þessi er margbreytilegur.
Helstu markmið Jafningjafræðslunnar eru að styrkja einstaklinginn sem persónu og hvetja hann til þess að takast á við erfiðar aðstæður á jákvæðan hátt, án þess að nota áfengi eða önnur vímuefni sem lausn. Allir þeir sem koma í fræðslu eru hvattir til að taka afstöðu til áfengis og vímuefnaneyslu og hugsa um að það sem gert er í dag mun hafa áhrif á líf þeirra í framtíðinni. Ábyrgðin er í þeirra höndum óháð þeim aðstæðum sem hver og einn lifir við.

Þann 29. júlí verður síðan lagt upp 5 daga hringferð um landið þar sem helstu sveitarfélög landsins munu þiggja fræðslu fyrir unglinga sína.

Við hjá Jafningjarfræðslunni hvetjum alla til að kynna sér hugtakið sjálfsmynd og gera sér grein fyrir afleiðingum þess að slæm sjálfsmynd ræður ríkjum hjá einstakling er voðin vís.

Vefur Jafningjafræðslunnar er www.jafningjafrædslan.is