Sjónlag – hæfni augans til að sjá skýrt

Orðið „sjónlag” er notað yfir hæfni augans til að sjá skýrt. Sjónin getur breyst með árunum. Sumir sjúkdómar, svo sem sykursýki geta einnig haft áhrif á sjón. Ýmsir augnsjúkdómar hafa auðvitað bein áhrif á sjón, svo sem ský í augasteini (katarakt), gláka og aldursbundin sjónhimnuhrörnun/rýrnun (stundum kölluð „kölkun” í augnbotnum). Lögun augans hefur áhrif á sjón. Breytingar á lögun augans sem valda því að viðkomandi þarf að nota gleraugu til að sjá skýrt eru kallaðar sjónlagsbreytingar eða sjónlagsgallar. Auk þessa hefur hörðnun augasteins mikil áhrif á aðlögunarhæfni augans.

Efnisyfirlit

Nærsýni (myopia)

Nærsýnt fólk sér vel nærri sér en síður það sem fjær er. Nærsýni er oftast vegna þess að augað er of langt (líkt og egg á hlið) en getur stundum verið vegna þess að hornhimnan er of kúpt.

Fjarsýni (hyperopia)

Fjarsýnum einstaklingum þykir fjarlægir hlutir skýrari en hlutir sem nær eru. Fjarsýni orsakast jafnan af því að augað er of stutt en getur í einstaka tilfellum verið vegna þess að hornhimnan er tiltölulega flöt.

Sjónskekkja (astigmatism)

Sjónskekkja er oft fylgifiskur nærsýni eða fjarsýni og orsakast af því að lögun hornhimnunnar er ójöfn. Ef tekið er dæmi úr boltaíþróttum, þá er hornhimna þess sem er með sjónskekkju að lögun eins og rugbybolti eða amerískur fótbolti, þ.e. miskúpt eftir því hvar er horft á hana. Eðlileg hornhimna er eins og fótbolti eða körfubolti að lögun. Sjónskekkja veldur því að augað sér óskýrt og sér jafnvel tvær myndir í stað einnar, þ.e. tvísýni.

„Ellifjarsýni” (presbyopia)

Þetta er villandi hugtak, þar sem varla er hægt að tala um elli hjá fertugum, en líkt og áður var drepið á, minnkar hæfileiki augasteinsins til að breyta um lögun (eins og myndavél með sjálfvirkan „fókus”) með tímanum (verður líkt og myndavél með fastan „fókus”). Þessi hörðnun á sér stað hjá öllum með aldrinum, nærsýnir fara að nota tvískipt gleraugu og þeir sem ekki þurftu á gleraugum að halda áður fyrr þurfa nú að nota lesgleraugu. Þetta þarf að hafa ofarlega í huga þegar stefnt er að sjónlagsaðgerð.

Skiptisjón (monovision)

Sumir snertilinsunotendur kannast við að nota snertilinsu aðeins öðru megin en lesa án linsunnar hinumegin. Þeir nota því annað augað við að horfa á hluti fjarri sér en hitt til að lesa o.þ.h. nærri sér. Iðulega er ríkjandi auga (það auga sem við notum meira, s.s. við að skjóta í mark) leiðrétt fyrir fjarlægð en hitt augað fyrir nálægð. Þetta er kallað skiptisjón og hentar mörgum einstaklingum en ekki öllum. Sumum finnst óþægilegt að skipta yfir á þennan hátt og sjá óskýrt fjarri sér með víkjandi auganu. Afbrigði af þessu er kallað hlutaskiptisjón (partial monovision), en þá er ríkjandi augað leiðrétt að fullu, en hitt augað að hluta til. Í þessu tilviki sér viðkomandi örlítið óskýrt í fjarlægð með víkjandi auganu en getur lesið stærra letur nærri sér. Þetta fyrirkomulag getur tafið fyrir því að nota lesgleraugu um nokkur ár og er oft góð málamiðlun.

Sjónmæling

Sjón er jafnan mæld með því að viðkomandi les bókstafi á spjaldi í 6 metra fjarlægð. Henni er oftast lýst með tveimur tölum í broti. Eðlilegri sjón er lýst sem 6/6 sjón. Hver lína á spjaldinu endar í tölu, sem táknar þá fjarlægð sem einstaklingur með eðlilega sjón sér þá línu.

Talan fyrir ofan línu merkir þá fjarlægðina milli þess sem les og spjaldsins. Talan fyrir neðan línu táknar smæstu línu sem viðkomandi gat lesið. Dæmi: 6/9 táknar að lesin var í 6 metra fjarlægð lína sem einstaklingur með eðlilega sjón ætti að lesa í 9 metra fjarlægð.

Gleraugnavottorð

Mælieiningar þær sem lýsa sjónlagsgöllum eru kallaðar díoptríur. Þær lýsa þeim styrkleika sem sjóngler þurfa að hafa til að leiðrétta sjónlagsgallann. Því fjarri sem díoptríutalan er frá núlli, þeim mun nærsýnni (- tala eða neikvæð tala) eða fjarsýnni (+ tala eða jákvæð tala) er viðkomandi. Vottorðið frá augnlækninum er forskrift fyrir gleraugu eða snertilinsur til optíkers, þar sem sjónlagið er skráð, með mínus tölu ef viðkomandi er nærsýn/n, með plústölu ef fjarsýn/n. Aftan við þessa tölu er sjónskekkja skráð, en hún er líka mæld í díoptríum.

tekið upphaflega af: Vefur Sjónlags, www.lasik.is

Höfundur greinar