Sjúkraþjálfun við þvagleka

Þvagleki er mjög algengt vandamál, sérstaklega meðal kvenna (3 konur á móti 1 karli) (1). Þvagleki hefur mjög víðtæk áhrif á einstaklinginn, líkamleg, félagsleg og sálfræðileg. Líkamlegu áhrifin koma fram í tíðum sýkingum og slímhúðarvandamálum í þvag- og kynfærum. Vandamálið getur verið heftandi og leitt til minnimáttarkenndar og félagslegrar einangrunar (2).

Þrátt fyrir að þvagleki hafi mikil og neikvæð áhrif á lífsgæði þeirra sem af honum þjást virðist vera aðeins lítill hluti sem leitar sér hjálpar hjá fagaðilum. Ástand þetta er mikið feimnismál og virðast jafnvel margir halda að þetta sé að einhverju marki „eðlilegt“(3).

Talað er um 3 tegundir þvagleka; áreynsluþvagleka, bráðaleka og blandleka. Áreynsluþvagleki (stress urinary incontinence, SUI ) er skilgreindur sem ósjálfráð þvaglát við líkamlega áreynslu, hósta og hnerra“(4). Algengustu orsakir áreynsluþvagleka eru slappir grindarbotnsvöðvar. Stundum er orsökin innan þvagrásarinnar t.d. í sléttum vöðvum hennar.

Bráðaleki er ósjálfráður þvagleki í tengslum við skyndilega og mikla þvaglátsþörf. Þessu fylgja einnig mjög tíð þvaglát (5). Algengasta orsök bráðaleka er ofvirk blaðra (6).

Blandleki er síðan blanda af áreynsluleka og bráðaleka.

Grindarbotninn

Grindarbotnsvöðvarnir eru mjög bandvefsríkir og eftirgefanlegir vöðvar. Þeir mynda tvöfalt vöðvalag. Annað vöðvalagið eru hringvöðvar sem ná utan um útgansopin þ.e. endaþarm, þvagrás og leggöng. Hitt er vöðvaplata sem nær frá rófubeini að lífbeini og lokar grindinni að neðan. Þegar þrýstingur eykst í kviðar- og grindarholi dregst grindarbotninn saman. Þá færast útgangsopin fram á við í átt að lífbeininu. Við það kemur beygja á endaþarm, leggöng og þvagrás. Beygjan lokar opunum og kemur í veg fyrir að blaðran/endaþarmurinn tæmi sig. Á sama hátt er hægt að bæla þvaglátsþörf (7). Grindarbotnsvöðvar þurfa bæði að vera sterkir og úthaldsgóðir. Ýmis önnur vandamál geta hlotist af ef vöðvarnir eru slakir. Má þarf nefna loftleka og hægðaleka, blöðrusig, legsig og endaþarmssig. Síðast en ekki síst er hætta á ánægjuminna kynlífi fyrir báða aðila. Styrkur í grindarbotni minnkar eftir meðgöngu og fæðingu, með hækkandi aldri, eftir aðgerðir í grindarholi og við hægðatregðu.

Meðferð við þvagleka

Grindarbotnsþjálfun ætti að vera 1. kostur við val á meðferð við áreynsluþvagleka. Hún hefur þá kosti framyfir skurðaðgerðir að vera án inngrips í líkamann og án óþæginda og aukaverkana. Markmið slíkrar þjálfunar er að ná aftur eðlilegri starfsemi grindarbotnsvöðvanna. Rannsóknir hafa sýnt að árangur grindarbotnsþjálfunar á áreynsluþvagleka sé á bilinu 60-70% (8)

Við bráðaþvagleka er lyfjameðferð yfirleitt sú meðferð sem byrjað er á. Grindarbotnsæfingar, blöðruþjálfun og raförvun eru aðrir kostir sem hafa skilað árangri einir sér eða með lyfjameðferð. Í blöðruþjálfun felst að reynt er að lengja tímann á milli þvagláta. Þannig stækkar blaðran smám saman og þolir meira þvagmagn og því fækkar þvaglátum. Einnig er talið að grindarbotnsæfingar geti haft áhrif á viðbragðsvirkni í sléttum vöðva blöðrunnar þannig að þeir slaki á og þvaglátsþörf minnki (6). Grindarbotnsæfingar eru því einnig mikilvægur þáttur í bráðaþvagleka.

Raförvun

Við raförvun er rafskautum komið fyrir í leggöngum eða endaþarmi. Notaður er vægur, lágtíðni straumur til að raförva taugar til grindarbotns og/eða þvagblöðru.

Markmið raförvunar er að endurvirkja viðbragðsvirkni í grindarbotnsvöðvunum sem og í þverrákóttum vöðvaþráðum þvagrásar með örvun á taugum grindarbotnsins. Ef taugin er heil, veldur raförvunin samdrætti í vöðvum grindarbotns. Raförvun er því heppilegur kostur fyrir þá sem hafa litla tilfinningu fyrir samdrætti í grindarbotni en hafa óskaddaða ítaugun. Annað markmið raförvunar við áreynsluþvagleka er því einnig að kenna réttan samdrátt í vöðvum grindarbotns (9). Raförvunin hjálpar þannig til við að auka tilfinningu einstaklingsins fyrir vöðvunum þannig að hann dragi þá rétt saman. Raförvunin getur því verið fyrsta skrefið í grindarbotnsþjálfun (10).

Raförvun er einnig notuð við bráðaþvagleka. Þá hefur raförvunin bein áhrif á slétta vöðva blöðrunnar þannig að hann slakar á og tæmingarviðbragð kemst í eðlilegt horf. Boðum frá blöðru um að hún þurfi að tæma sig fækkar og tíðni þvagláta minnkar. Smám saman stækkar blaðran og meira þvagmagn kemur í hvert sinn. Bestur árangur fæst er raförvun fer fram daglega í 15-30 mín. í einu, 1-2svar á dag. Til eru lítil raförvunartæki sem hægt er nota heima.

Hvernig á að spenna?

Auðvelt er að finna samdrátt í kringum endaþarminn því þar fer mesta hreyfingin í grindarbotninum fram. Við grindarbotnsþjálfun á ekki að reyna að soga eða toga grindarholið upp. Tilhneigingin er þá oft sú að draga inn magann og halda niðri í sér andanum. Þá eykst þrýstingur í kviðar- og grindarholi og grindarholslíffæri þrýstast niður á við í staðinn fyrir að lyftast upp. Betra er að einbeita sér að spenna í kringum endaþarminn, þá lokast hin opin líka. Æskilegt er að spenna grindarbotninn áður en þrýstingur í kviðar- og grindarholi eykst, t.d. fyrir hósta, hnerra, þungar lyftur, hopp og hlaup. Ef grindarbotnsæfingar eru gerðar reglulega getur tekið 3-4 mánuði áður en þetta gerist að sjálfu sér. Hversu oft og hve lengi í einu á að spenna er einstaklingsbundið. Þegar grindarbotninn er slappur og jafnvel þvagleki til staðar þarf að spenna í baklegu. Spennunni á að halda í nokkrar sekúndur og slaka á í a.m.k. jafnlangan tíma á eftir. Þegar vöðvarnir fara að styrkjast má spenna lengur í einu og skipta um stöðu. Erfiðast er að gera æfingar í standandi stöðu. Mikilvægt er að gera æfingar fyrir bæði styrk (fastar, hægar spennur) og úthald (hraðar spennur).

Ef spurningar vakna varðandi grindarbotnsþjálfun er rétt að leita ráða hjá lækni eða sjúkraþjálfara með sérþekkingu á efninu.

Spenntu, það virkar!

Heimildir:

1. Eiríkur Orri Guðmundsson, Guðmundur Geirsson, Guðmundur Vikar Einarsson, Gíslason o. Þvagleki meðal íslenskra kvenna – Kostnaður af völdum þvagleka. Læknablaðið 2002;4(88).

2. Wyman J, Harkins S, Fantl J. Psychosocialimpact of urinary incontinence in the community-dwelling population. J. AM Geriatr. Soc. 1990;38(3):282-288.

3. Ortiz C. Stress urinary incontinence in the gynecological practice. I. Int. J. Gynecol. Obstet. 2004;86(suppl 1):S6-16.

4. Abrams P, Cardozo L, Fall M, Griffiths D, Rosier P, Ulmsten U. Standardisation of terminology of lower urinary tract function. 2002.

5. Abrams. P, Cardozo. L, Fall. M, Griffiths. D, Rosier P, Ulmsten. U. Standardisation of terminology of lower urinary tract function. 2002.

6. Berghmans L, Hendriks H, De Bie R, van Waalwijk vDE, Bö K, Van Kerrerbroeck PEV. Conservative treatment of urge urinary incontinence in women: a systematic review of randomized clinical trials. BJU 2000;85:254-263.

7. Bonde B. Bækkenbunden. Danske Fysioterapeuter 2004.

8. Wilson P, Samarrai T, Deakin M, Kolbe E, Brown A. An objective assessment of physiotherapy for female genuine stress incontinence. Br J Obstet Gynaecol 1987;94.

9. Eriksen B. Electrostimulation of the pelvic floor in female urinary incontinence. Thesis 1989.

10. Berghmans L, Hendriks H, Bö K, Hay-Smith E, De Bie R, Van Waalwijk vDE. Conservative treatment of stress urinry incontinence: A systematic review of randomized clinical trials. Br J Urol 1998;82:181-191.

Höfundur greinar