Skólamjólkin leggur grunn að sterkum beinum

Beinþynning er sjúkdómur sem einkennist af því að beinin tapa kalki en við það minnkar styrkur þeirra og þau verða brothætt. Ástæður þess að fólk fær beinþynningu geta verið margar. Því miður er útilokað fyrir okkur að hafa stjórn á sumum helstu áhættuþáttum; eins og aldri (en beinþynning eykst með aldrinum), kynferði (algengara meðal kvenna en karla) og erfðum. Hins vegar getum við haft áhrif á ýmsa aðra áhættuþætti. Þannig reynist vera jákvætt samband milli reglubundinnar þjálfunar og beinþéttni auk mataræðis sem skiptir miklu máli þegar kemur að byggingu og viðhaldi beina. Mikilvægt er að temja sér hreyfi- og neysluvenjur sem teljast heppilegastar til forvarnar gegn beinþynningu, venjur sem fyrst og fremst felast í reglubundinni hreyfingu, fjölbreyttu mataræði en hófsemi, þar sem manneldisráðleggingar eru hafðar til hliðsjónar.

Ákveðin aldursskeið virðast sérstaklega mikilvæg með tilliti til vaxtar og þroska beina. Frá fæðingu til tveggja ára aldurs á mikill vöxtur sér stað. Einnig taka beinin mikinn vaxtarkipp á unglingsárum, um 11 til 14 ára aldurinn hjá stúlkum og 13 til 17 ára hjá drengjum. Á þessum árum er mikilvægt að huga vel að þeim þáttum sem hafa jákvæð áhrif á beinin svo sem að góðri næringu.

Því miður verður að segjast eins og er að matarvenjur margra unglinga eru æði bágbornar þegar beinheilsa er höfð að leiðarljósi. Þannig er ljóst að sumir unglingar neyta of lítils kalks og þá frekar stúlkur en drengir. Mjólk og mjólkurvörur eru þær fæðutegundir sem gefa hvað mest kalk og er það mörgum áhyggjuefni að mjólkurdrykkja virðist fara minnkandi hjá unglingum en í staðinn eykst gosdrykkjaneysla ár frá ári. Samkvæmt rannsóknum virðast vera sterk tengsl milli gosdrykkjaneyslu og kalkneyslu, en stúlkur sem til að mynda drekka reglubundið gos neyta að meðaltali um einum-fimmta minna magn kalks en stúlkur sem drekka það ekki. Ráðlagður dagskammtur af kalki á dag er 1000 mg fyrir unglinga og 800 mg fyrir fullorðna. Eins og áður hefur komið fram er mjólkurmatur ein auðugasta uppspretta kalks. Sem dæmi má nefna að í hálfum lítra af mjólk eru hátt í 600 mg af kalki. Við fáum 220mg af kalki í 200g af skyri; 250mg í 200g af jógúrt; 160mg í 25g af osti; 105mg í 50g af hörfræi; 85mg í 50g af hafrahringjum; 130mg í 100g af spínati og 100mg í 100g af spergilkáli.

Auðvitað skipta önnur næringarefni en kalk máli þegar beinin eru annars vegar. D-vítamín stuðlar til dæmis að upptöku kalks í bein. Ef verið er úti við í dagsljósi nær líkami okkar, með aðstoð sólarljóssins, að framleiða dagsþörf á D-vítamíni á innan við hálftíma. Þar sem D-vítamín er ekki að finna í miklu magni í hefðbundnum mat er mikilvægt að neyta D-vítamíns í fæðubótarformi, ef reglubundin útivera er ekki til staðar. Lýsi er dæmi um D-vítamínríka afurð en í einni teskeið af þorskalýsi eru 12,5 míkrógrömm af D-vítamíni. Ráðlagður dagskammtur af D-vítamíni er 10 míkrógrömm á dag.

Lengi býr að fyrstu gerð og þar sem vel nærður líkami elur af sér sterk bein felst besta forvörnin í því að temja sér góðar neysluvenjur frá fyrstu tíð og mjólk í skólanestið hefur sitt að segja fyrir beinin.

Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur

Höfundur greinar