Slitgigt og gerviliðir

Slitgigt er brjósklækkun og beinbreytingar í aðlægu beini. Orsök er óþekkt, en áhrif hafa:

 • Aldur: Við aukinn aldur fáum við öll slitbreytingar í liðina. Hjá sjötíu ára einstaklingum eru 85% komnir með slitbreytingar. Brjóskið endurnýjar sig ekki, en ekki má gleyma að brjósk er lifandi vefur sem nærist frá liðvökva sem aftur endurnýjar millifrumuefni sitt í gegnum lífið.
 • Kyn: Slitgigt er algengari hjá konum en körlum eftir tíðahvörf.
 • Erfðir: Slitgigt er mjög algeng hjá ákveðnum fjölskyldum. Tíðni slitgigtar er mun meiri á Íslandi en t.d. í Svíþjóð.
 • Atvinna: Bændur hafa aukna tíðni í slitsjúkdómum í hnjám og mjöðmum. Gamlir fótboltaspilarar fá slit í mjaðmir og hné.
 • Þyngd: allir sem þjást af offitu enda með slit í hnjám. Tengsl við slit í mjöðmum er ekki fullvís, en ef slit er til staðar í líkamanum gengur það hraðar vegna aukins álags.
 • Áverkar á liði: Komi skemmd í liðflöt er aukin hætta á að með tímanum brotni liðurinn niður vegna veiklunar. Sömu áhrif hafa óstöðugleiki og brottnám á liðþófum úr hnjám.
 • Sjúkdómar sem skemma brjóskið eða liðinn.

Brjóskslit

Brjósk er uppbyggt af þráðum úr bandvef „collageni“ og milli þeira er fyllingarefni úr próteinum og sykurefni. Þessu má líkja við járnabenta steinsteypu þar sem þræðirnir eru steypustyrktarjárn og millifrumefnið steypa. Fyllingarefnið endurnýjast, en þræðirnir ekki. Líkja má brjóski við svamp. Við ástig pressast vökvi úr svampinum, en í hvíld dregur hann til sín vökva. Í vökvanum eru næringar og úrgangsefnin. Hreyfing og álag eru því nauðsynleg öllum liðum.

Slitið getur átt sér stað á tvennan hátt. Millifrumuefnið myndast ekki. Frumurnar eldast og hafa ekki undan að endurnýjast. Næringin: vökvabúskapurinn og næringin truflast svo að brjóskið brotnar niður. Álagið yfir liðnum verður svo mikið, að þræðirnir rofna og skemmdir koma í brjóskið. Þegar styrkur brjósksins minnkar myndast rof í yfirborð sem verður óslétt og slípast niður. Of þungir einstaklingar eru blanda af ofannefndu.

Einkenni slitgigtar

 • Verkir: Þeim má skipta í þrjú stig. Í byrjun er um að ræða ónot eftir setur og stirðleika. Verkirnir hverfa eftir svolitla hreyfingu. „Liðirnir vilja ryðga fastir“. Sjúklingar kvarta yfir að smurningu vanti. Síðar fer að koma verkur við álag sem eykst eftir því sem miera er reynt á sig. Verkirnir hverfa við hvíld. Slitið eykst og sjúklingar þarfnast aukinnar hvíldar og nætusvefns.

 

 • Hreyfiskerðing: Í byrjun stirðleiki, síðan minnkandi hreyfifærni í liðnum sem er skemmdur. Maður hættir að geta krosslagt fætur og erfitt er að komast í sokka og skó.
 • Útlitsbreyting: Kreppur í hnjám og mjöðmum valda því að maður verður hokinn. Ganglimur getur styst. Snúningsskekkjur í mjöðm og hnjám valda helti. Hnjástaða breytist. Sjúklingar verða hjólbeinóttir eða kiðfættir. Hnjáliðir verða umfangsmiklir vegna beinmyndunar á liðbrúnum.
 • Liðbólgur: Aukin vökvamyndun í slitnum lið. Athugið að ekki er ástæða til að tappa af lið nema þrýstingur valdi verkjum.

 

Einkenni slitgigtar eru misslæm hjá sama einstkalingi, en gigtin versnar í köstum. Áhrifavaldar til hins verra eru kuldi, mataræði og streita.

Meðferð slitgigtar

Engin þekkt meðferð læknar slitgigtina. Öll meðferð miðar að því að draga úr einkennum og auka færni einstaklinga til sjálfsbjargar. Hér á eftir er vikið að nokkrum lyfjum og hjálapartækjum.

 • Bólgueyðandi lyf sem ekki eru sterar. Þessi lyf draga úr verkjum og minnka bólgu í og umhverfis lið. Hjálpa vel í byrjun sjúkdómsins, en þolast illa hjá þeim sem eru viðkvæmir í maga.
 • Barksterar eru mjög virk lyf. Bólgusvörun er útslegin. Liðbólgur og vökvamyndun hverfa. Svörun er mjög góð í byrjun, en við aukna notkun duga þeir skemur og skemur. Lyfið eykur sennilega á slithraða og ber að nota varlega. Talið er að það hafi varanlegri áhrif hjá körlum.
 • Liðbætandi efni: Hyaluronsýra er efni unnið úr hanakömbum í byrjun. Upphaflega notað í veðhlaupahesta. Því er sprautað í liðinn einu sinni í viku, fimm vikur í röð. Langtímaárangur er ósannaður, en stór hluti sjúklinga segist vera betri. Engin vísindaleg sönnun er á árangri. Chondrotinsulfid-efni er hægt að fá hérlendis. Sömuleiðis engin sönnun á árangri.
 • Lýsi: Efni er í lýsi sem dregur úr bólgusvörun.
 • Mataræði hefur hér trúlega mikið að segja. Næringarráðgjafi gæti gefið holl ráð. Einnig verður hver sjúklingur að finna hvað hentar best.
 • Sjúkraþjálfun getur hindrað kreppur og bætt hreyfifærni í slitnum lið. Hljóðbylgjur draga úr bólgum. Mest gagn er þó að þjálfuninni til að viðhalda styrk og úthaldi.
 • Sund: Sundlaugar landsmanna og heitir pottar halda tugum einstaklinga í gangi.
 • Hjálpartæki: Gleymið ekki stafnum. Taka má 40% af líkamsþunga á hækjustaf og auka að mun hreyfifærni sjúklings. Spelkur hafa notagildi við slit í hnjám. Notið mjúkbotna skó.
 • Skurðaðgerðir: Aðgerðir til að breyta álagi beina og liða. Hinsvegar eru liðskiptiaðgerðir. Athugið að liðspeglunaraðgerðir gera lítið gagn!

Hvenær á að framkvæma liðskiptaaðgerð?

Liðskiptaaðgerðir eru fyrst og fremst gerðar til þess að hindra verki. Í sumum tilvikum bæta þær hreyfigetu og rétta ganglimi. Aðgerðin er þó ekki gerð fyrr en liðbrjóskið er búið og liðurinn ónýtur. Verkir þurfa að vera það miklir að þeir hindri sjúkling í daglegu lífi og starfi.

Gerviliðir eru í flestum tilvikum úr málmi sem liðar við plastefni „polyethylene“. Málmarnir eru ryðfrítt stál, coboltblöndur og titaníum. Coboltblöndurnar eru sterkastar, titaníum er minnst ertandi fyrir líkamann, en ryðfría stálið er ódýrast. Acrylplexigler er notað sem sement.

Saga liðskiptaaðgerða

Hnjáliðir: Um síðustu aldamót var lýst aðgerð, þar sem gerviliður var tálgaður úr fílabeini. Aðgerðin tókst vel en allt losnaði. Árið 1908 var tekið hné úr líki og sett í lifandi mann. Árangur var sagður góður. Upp úr 1950 komu hjöruliðir (Waldius, Guepar). Fyrsti steypti gerviliðurinn kom 1969 (Freeman Swanson). Árið 1973 var fyrsti gerviliðurinn sem virkaði settur í hné (John Insall).

Mjaðmarliður: Fyrsta gerviliðaaðgerðin var framkvæmd árið 1940, þegar Campell setti vitalium stálkúlu milli lærleggs og augnkarls. Árið 1963 var gerð fyrsta sementeraða mjaðmaraðgerðin þar sem skipt var bæði um skál og liðkúlu (John Charnley).

Mjaðmaaðgerð

Innlögn á sjúkrahús: Sjúklingar sem fara í mjaðmaaðgerð gangast fyrst undir rannsóknir og fara í viðtöl við skurðlækni, svæfingarlækni og hjúkrunarfræðinga. Þeir fara á fætur daginn eftir aðgerð og fara heim 5-7 dögum síðar.

Árangur er mjög góður. Sjúklingar eru fljótt verkjalitlir. Við heimferð ganga þeir við tvær hækjur. Þeir þurfa hjálpartæki við að komast í sokka og skó, eiga að sitja á háum stól og fá salernishækkun fyrstu tvo mánuðina. Í flestum tilvikum lengist ganglimur örlítið eða um 0.5-1 cm. Aka má bíl eftir tvo mánuði og fara í sund á eigin vegum á sama tíma.

Helsta áhætta eftir aðgerð er liðhlaup og sýkingar. Sykingarhætta er 1%. Liðhlaupshætta er 1-3%.

Ending er háð aldri, þyngd og álagi. Um 95% gerviliða sitja enn eftir 10 ár, 60% eftir 15 ár. Sjúklingar mega ganga, synda, spila golf og lifa eðlilegu lífi. En þeim er bannað að hlaupa og stökkva. Vissar hreyfingar eru hættulegar vegna liðhlaupshættu. Vandamálið er los, en þá koma verkir. Ef verkir hverfa ekki á 2-3 vikum skal taka röntgenmynd til að sjá hvað hefur farið úrskeiðis. Hluti sjúklinga er með verk í nára og efst í læri.

Gerviliður í hné

Í aðgerðinni er leitast við að rétta öxulskekkjur í hnénu svo að álag dreifist sem best og stöðugleiki skapist í liðböndum. Sjúklingar liggja inni í átta daga eftir aðgerð. Allir þurfa sjúkraþjálfun. Á Landspítala er byrjað að deyfa sjúklinga með mænudeyfingu í gegnum legg fyrstu 3-4 dagana. Allir þurfa þjálfun eftir heimferð. Sjúklingar eru 3-6 mánuði að jafna sig.

Markmið: Beint og stöðugt hné sem hægt er að hreyfa í 0-110 gráður.

Árangur: 95% gervilið sitja óhreyfðir eftir 10 ár, yfir 90% eftir 15 ára. Árangur er því ekki síðri en við mjaðamaaðgerðir hvað varðar endingu.

Hreyfiskerðing: Sumir sjúklingar ná ekki fullri hreyfigetu. Osökin er oftast miklir verkir eftir aðgerð sem hindra æfingar við að rétta og beygja.

Húðvandamál: Blæðingar eftir aðgerð auka á spennu og orsaka hættu á drepi í skurðsári. Sýkingartíðni er 1-3%.

Verkir eru meira vandamál en eftir mjaðmaaðgerðir. Helstir eru sársauki eða ónot framan í hné við göngu í stiga eða brekku.

Sjúklingar eru lengi að jafna sig. Þeir mega aka bíl, þegar búið er að ná hreyfigetu 0-905 án sársauka. Þeir mega allt nema hoppa, stökkva og liggja mikið á hnjám. Munið að aukin þyngd eykur hættu á losi. Verkur þýðir oftast los sem má greina með röntgenmynd.

Birt með góðfúslegu leyfi tímaritsins: Listin að lifa, félagsrit eldri borgara.