Slökum hvergi á gagnvart fíkniefnum

 Heilsan í brennidepli

Nokkur umræða hefur átt sér stað nýlega um lögleiðingu kannabis hér á landi, en áður voru þessi mál nokkuð til umföllunar í júlí í fyrra. Meðal annars hefur komið fram að breska ríkisstjórnin hafi haft til athugunar að ekki verði lengur talið saknæmt að hafa í fórum sínum kannabis í litlu magni til eigin neyslu. Lögregla þar í landi muni ekki handtaka fólk né sekta fyrir þær sakir einar. Bresk yfirvöld gerðu sér vonir um að með þessum ráðstöfunum gæti lögregla beint kröftum sínum að öðrum alvarlegri fíkniefnum á borð við kókaín og heróín.

Forsvarsmenn einhvers konar lögleiðingar kannabisefna hér á landi hafa því spurt hvort kominn sé tími til að fara að dæmi Breta í þessu efni.

Landlæknisembættið telur hins vegar mjög ótímabært fyrir okkur að íhuga þessi mál, „náttúruleg“ tilraun í samfélagi á borð við Ísland gæti haft afleiðingar sem útilokað væri að sjá fyrir endann á.

Sífellt fleiri rannsóknir koma fram um skaðlegar afleiðingar kannabisneyslu. Langtímaneysla getur valdið skaða sem er mun meiri en áður var talið, kemur áþreifanlega niður á heilastarfsemi svo sem skynjun, hugsun og minni. Skaðinn er þeim mun meiri sem neyslan hefur verið meiri og staðið lengur. Mikil fásinna væri að horfa framhjá slíkum staðreyndum enda er erfitt að sjá að þörfin fyrir lögleiðingu kannabis sé brýn. Mörg önnur þarfari verkefni bíða okkar en það.

Fíkniefnaneysla hér á landi hefur vaxið hröðum skrefum að undanförnu. Segja má að hún líkist faraldri, þ.e. hún breiðist út rétt eins og um smitsjúkdóm væri að ræða. Í slíku umhverfi er bæði óráðlegt og varasamt að leyfa efni sem getur opnað unglingum dyrnar að öðrum fíkniefnum og er einnig sjálft skaðlegt. Því skiptir máli að slaka hvergi á í baráttu gegn fíkniefnum. Íslendingar ættu að hafa forsendur til þess að ná árangri í slíkri baráttu, samfélagið er lítið, vel menntað og við búum á eyju. Því er ástæða til að styðja við bakið á samtökunum Vímulausri æsku sem stendur fyrir undirskriftasöfnun til að vekja athygli á þessum málstað þessa dagana.

Mars 2003
Sigurður Guðmundsson
landlæknir