Slysa- og bráðadeild – almennar upplýsingar

Starfsemin
Slysa – og bráðadeild í Fossvogi er opin allan sólarhringinn. Þar er starfrækt móttaka fyrir slasaða og bráðveika, neyðarmóttaka vegna kynferðisofbeldis, eitrunarmiðstöð og miðstöð áfallahjálpar.

Einnig er þar gæsludeild, sem er sólarhringsdeild. Til slysa- og bráðadeildar leita að jafnaði um 140-150 einstaklingar á sólarhring með margvísleg vandamál. Skjólstæðingar deildarinnar koma ýmist á eigin vegum, með sjúkrabíl, sjúkraflugi, þyrlu eða lögreglu.


Starfsfólk
Á slysa- og bráðadeild starfa hjúkrunarfræðingar, læknar, sjúkraliðar, ritarar, og aðstoðarfólk. Starfsfólk deildarinnar er sérstaklega þjálfað í móttöku og meðferð á bráðveiku og slösuðu fólki. Samráð er haft við starfsfólk á öðrum sérsviðum eftir því sem þörf er á. Læknar deildarinnar starfa jafnframt á neyðarbíl og á þyrlum Landhelgisgæslunnar.

Landspítali – háskólasjúkrahús er kennslustofnun og eru margir nemar í starfsþjálfun á deildinni auk þess sem starfsfólkið tekur þátt í kennslu utan deildarinnar. Í tengslum við slysa- og bráðadeild eru stundaðar margþættar rannsóknir sem miða að því að auka þekkingu og bæta þá þjónustu sem veitt er. Öflugt fræðslu- og forvarnarstarf er jafnframt þáttur í starfseminni og er ítarleg skráning upplýsinga hluti af því.

Koma á deildina
Við komu á slysa- og bráðadeild er hver og einn beðinn um persónu- og heilsufarsupplýsingar sem skráðar eru í tölvukerfi deildarinnar. Jafnframt eru skráðar nákvæmar upplýsingar um atvikið.

Hjúkrunarfræðingur í móttöku forgangsraðar sjúklingum eftir því hversu slasaðir eða veikir þeir eru.


Bráðveikir og mikið slasaðir eru meðhöndlaðir fyrst!
Við leitumst alltaf við að veita bestu mögulega hjúkrunar- og læknisþjónustu. Ástæður þess að fólk þarf stundum að bíða á deildinni geta verið margvíslegar. Oft þarf að bíða eftir læknisskoðun, sérfræðiáliti, hjúkrunarmeðferð, röntgenrannsókn eða rannsóknarniðurstöðum. Einnig getur orðið bið þar sem sjúklingum er forgangsraðað eftir því hversu alvarlegt slysið eða sjúkdómurinn er.

Samvinna, skilningur og þolinmæði er mikils virði og starfsfólk veitir upplýsingar um biðtíma eftir því sem kostur er.

Til að tryggja trúnað og minnka álag á deildina er æskilegt, ef það er hægt, að aðeins einn aðstandandi sé tengiliður við starfsfólkið og miðli upplýsingum um sjúklinginn til annarra aðstandenda.


Útskrift
Þegar sjúklingurinn útskrifast fær hann upplýsingar og leiðbeiningar um áframhaldandi meðferð. Mikilvægt er að spyrja ef eitthvað er óljóst en það er líka alltaf velkomið að hringja á deildina. Síminn er 543 2000.

Sú meðferð sem veitt er á slysa-og bráðadeild er í flestum tilvikum aðeins einn hluti meðferðarinnar. Hver og einn ber ábyrgð á því sjálfur, þegar heim er komið, að fylgja þeim leiðbeiningum og fyrirmælum sem starfsfólk deildarinnar gefur.

Gangi meðferð ekki eftir eins og áætlað var, ef einkenni versna eða eitthvað óvænt gerist er nauðsynlegt að hafa samband við starfsfólk deildarinnar.

Ef frekara eftirlit er nauðsynlegt er fólki ýmist gefinn tími á endurkomudeild sjúkrahússins eða því er vísað annað. Læknabréf er sent heimilislækni innan fárra daga.


Kostnaður
Samkvæmt gjaldskrá sem gefin er út af Tryggingastofnun ríkisins greiða sjúklingar fast komugjald þar sem innifalin er læknis- og hjúkrunarmeðferð og efniskostnaður. Greitt er við útskrift. Ef þörf er á röntgenrannsókn, þjónustu rannsóknarstofu eða vottorði fyrir vinnuveitenda þarf að greiða fyrir það sérstaklega. Örorku- og ellilífeyrisþegar og þeir sem eru með afsláttarkort greiða lægra gjald. Hægt er að láta senda sér gíróseðil heim, en þá bætist við innheimtukostnaður.

Móttökuritarar veita fúslega frekari upplýsingar um kostnað og innheimtu.

Þessi grein er unnin upp úr bæklingi sem Slysa og bráðasvið Landspítala Háskólasjúkrahúss gaf út í júní 2003

Mikilvæg símanúmer:
Slysa og bráðadeild Landspítala Fossvogi   Sími: 543-2000
Endurkomudeild Landspítala Fossvogi   Sími: 543-2040