Spangarskurður við fæðingu

Hvað er spangarskurður?

Spangarskurður er skurður sem gerður er í fæðingunni frá opi legganganna, aftur til hægri í gegn um húð og ystu grindarbotnsvöðva til að stækka fæðingarveginn og flýta fæðingu barnsins. Oftast er talað um spangarskurð sem klippingu, enda notuð skæri við þessa aðgerð.

Hvers vegna er klippt?

Þegar barnið fæðist, verður mikil tognun á spönginni sem er svæðið á milli leggangaopsins og endaþarmsopsins. Tognunin gerist hægt, meðan verið er að rembast svo vefurinn geti látið undan og barnið komist út. Samt getur verið nauðsynlegt að flýta fyrir og víkka fæðingarveginn í skyndi, t.d. ef hjartsláttur barnsins verður of hægur.

Í örfáum tilfellum er op legganganna svo þröngt að nauðsynlegt er að víkka það með spangarskurði.

Hvernig er skorið?

Skurðurinn er frá opi legganganna, oftast niður til hægri, en stundum beint á milli legganga og í átt að endaþarmi. Spangarskurður er ekki gerður fyrr en ætla má að barnið komi út eftir eina til tvær hríðar.

Þegar svo er komið er togið á spönginni í hámarki og konan nær tilfinningalaus þar. Sprautað er staðdeyfilyfi í spöngina áður en hún er klippt.

Hversu oft er gripið til spangarskurðar?

Á seinni árum er æ sjaldnar gripið til spangarskurðar því að nýjar rannsóknir benda til þess að ekki sé nema ein ástæða til að grípa til spangarskurðar, þ.e. ef barnið er talið í hættu svo flýta þurfi fæðingu.

Það er nokkur munur milli spítala hve oft er gripið til spangarskurðar, frá 2,6% til 26%. Því er rétt að spyrjast fyrir um þetta á þeim spítala þar sem ætlunin er að ala barnið.

Af hverju hefur spangarskurðum farið fækkandi?

Áður fyrr töldu menn að spangarskurður kæmi í veg fyrir að vöðvarnir kringum endaþarminn löskuðust og að skurðurinn greri saman á snyrtilegri hátt en rifur. Annað hefur þó komið í ljós í rannsóknum seinni ára. Það hefur sýnt sig að rifur sem koma af sjálfu sér í fæðingunni gróa fyrr og betur og valda minni óþægindum og minni örum en spangarskurðirnir.