Spelkun

Ef langt er í aðstoð má skorða brot eins og komið var að því með spelku. Öll brot og liðhlaup ætti að skorða áður en hinn slasaði er hreyfður.

Tilgangur spelkunnar á áverkasvæði er að draga úr sársauka, fyrirbyggja skemmdir á vöðvum, taugum og æðum og fyrirbyggja það að lokað brot opnist. Spelkun getur einnig dregið úr blæðingu og bólgu.

Spelkur verða að vera stífar. Bæði er hægt að búa þær til t.d. úr samanbrotnu dagblaði, bólstraðri fjöl eða pappaspjaldi eða nota verksmiðjuframleiddar spelkur s.s. SAM-spelkur.

Spelka verður að vera svo löng að hún nái bæði vel upp fyrir og niður fyrir brotið. Yfirleitt er hægt að nota líkama hins slasaða fyrir spelku. Þá er skaddaði líkamshlutann bundinn við annan óskaddaðan t.d. fingur eða fætur festir saman eða skaddaður handleggur við brjóstkassann.

Hvað gerirðu?
• Leggðu umbúðir yfir opið sár á útliminum.
• Kannaðu blóðrás, tilfinningu og hreyfigetu útlimsins. Finnist enginn púls og útlimur fölnar upp má reyna að rétta varlega úr brotinu eða liðnum til að opna blóðrásina ef langt er í sérhæfða aðstoð.
• Reyndu að ákveða hvar á að spelka út frá „þriðjungareglunni“. Hugsa má sér að sérhvert langt bein skiptist í þrjá hluta. Ef áverkinn er á efri eða neðri þriðjungi beinsins skal gera ráð fyrir að næsti liður sé líka skaddaður. Því þarf spelkan að skorða beinin fyrir ofan og neðan liðinn. Sé brotið til dæmis á efsta þriðjungi sköflungsins verður spelkan því að ná upp á lærið vegna þess að hnéð gæti verið skaddað. Sé miðþriðjungur beinsins brotinn skal skorða liðamótin fyrir ofan og neðan brotið (t.d. úlnlið og olnboga vegna brotins framhandleggs, öxl og olnboga vegna brotins upphandleggs og hné og ökkla vegna brotins sköflungs eða sperrileggs). Auk þess að spelka brotinn upphandlegg skal setja hann í fatla.
• Ef þú ert með aðstoðamann er best að annar styðji við áverkastaðinn þar til spelkun er lokið til að halda hreyfingu í lágmarki.
• Ef mögulegt er leggðu spelkur báðum megin við áverkastaðinn, sérstaklega ef um tvö bein er að ræða (t.d. báðar framhandleggspípurnar eða sköflung og sperrilegg). Samhverf spelka kemur í veg fyrir að skaddaður útlimur snúist og að beinin tvö snertist. Þegar notaðar eru stífar spelkur þarf að leggja umbúðir í allar dældir og í kringum aflaganir.
• Láttu spelkurnar liggja þétt en þó ekki þannig að þær hindri blóðrásina. Kannaðu blóðrás, tilfinningu og hreyfigetu annað slagið eftir að spelkan er komin á. Ef púlsinn hverfur þarftu að losa spelkuna þar til púls finnst á ný.

Varúð: Ekki
Spelkan má ekki
• Gefa eftir
• Meiða
• Vera of fyrirferðarmikil
• Leiða kulda
• Valda þrýstingi

Beinbrot á útlimum krefjast sjaldnast tafarlauss flutnings á sjúkrahús. Undantekningin er ef ekki finnst púls í handlegg eða fæti sem þýðir að ekki berist nægilegt blóð til hans. Útlimurinn verður fölur, kaldur og dofinn. Þá er þörf á tafarlausri læknishjálp.

Athugið þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands