Stífkrampi

Stífkrampi (Tetanus):

Stífkrampi stafar af bakteríu sem er til staðar víða í náttúrunni, svo sem í jarðvegi og húsdýraskít og  kemst inn í blóðrás í gegnum sár, til dæmis af völdum dýrabita eða eftir vinnu í jarðvegi. Því dýpra og óhreinna sem sárið er því meiri hætta er á að sýkjast, smásár, til dæmis stunga af þyrnirunna, getur hleypt nægilega mörgum bakteríum inn til að valda sjúkdómnum. Þegar bakterían er kominn inn í líkamann losar hún frá sér eiturefni (toxin) sem hafa  áhrif á vöðva þannig að þeir herpast og stífna (þess vegna heitir það stífkrampi). Meðgöngutíminn getur verið allt að 21 dögum. Stífkrampi hefur áhrif á taugakerfið og getur valdið dauða. Stífkrampi er í dag sjaldgæfur sjúkdómur í hinum vestræna heimi vegna góðs árangurs við bólusetningar. Til er mótefni (tetanus antitoxin) sem virkar ef nægilega fljótt er gripið til þess, en eina örugga vörnin er bólusetning. Bóluefnið aðstoðar líkamann við að mynda mótefni við eiturefnunum sem bakterían gefur frá sér og þau varna okkur frá því að veikjast ef við komumst í tæri við bakteríuna.

Einkenni:

Stundum eru fyrstu og einu einkennin krampar í vöðvunum kringum sýkta sárið. Hinsvegar koma önnur einkenni fram þegar  eiturefnið kemst inn í blóðrásina. Það eru venjulega einkenni í andliti og þá er algengast að fram komi krampar eða spasmar í kjálkavöðvana sem gerir það að verkum að erfitt er að opna munninn. Krampar  geta svo komið framm í hálsvöðvunum svo erfitt getur reynst að kyngja og í kjölfarið geta svo komið krampar í andlitsvöðvum sem gera það að verkum að viðkomandi lítur út fyrir að vera skælbrosandi.

Kramparnir geta svo dreifst til annarra vöðva:

● Háls, þannig að höfuðið halli.

● Brjóstkassi svo það verður erfitt að anda.

● Meltingarfæri.

● Útlimir.

Ef kramparnir ná til bakvöðvannna getur hryggurinn bognað þannig að viðkomandi verður verulega fattur. Þetta getur frekar gerst hjá börnum sem sýkjast.

Önnur einkenni fela í sér:

●Ýkt snertiskyn.

●Hár hiti.

●Hálsbólga.

●Hraður hjartsláttur.

●Erfiðleikar við öndun.

●Höfuðverkur.

●Blæðingar í ristli.

●Niðurgangur.

Dánarorsakir geta verið vegna:

●Blóðeitrunar.

●Köfnunar vegna krampa.

●Hjartastopp.

●Nýrnabilunar.

●Ofþreytu.

Ef engin meðferð er gefin er dánartíðnin um 60 %

Greining:

Einkenni Stífkrampa  eru  nokkuð afgerandi. Aðrir sjúkdómar valda yfirleitt ekki sársaukafullum vöðvakrömpum í  líkingu við þá sem verða þegar um stífkrampa er að ræða. Hægt er að staðfesta sjúkdómsgreininguna með blóðprufu.

Ef grunur leikur á að þú sért með stífkrampa:

Leitaðu strax eftir læknisaðstoð.

Sértu erlendis þarftu aðstoð áður en þú heldur heim. Stífkrampa þarf að meðhöndla sem bráðatilvik.

Fáðu ráðgjöf hjá lækni varðandi frekari ferðalög.

Meðferð:

·         Þvoið sárið gaumgæfilega með hreinu vatni til að ná öllum óhreinindunum úr því. Ef minnsti grunur leikur á að um smitun geti verið að ræða skal farið á næsta sjúkrahús eða heilsugæslu til að fá frekari meðhöndlun. ·         Sértu ekki fullbólusettur fyrir Stífkrampa gætir þú þurft hleðsluskammt af bóluefni. Þótt þú sért með fullnægjandi bólusetningu  gæti læknir ákveðið að gefa þér mótefni ( tetanus antitoxin) við Stífkrampa ef um er að ræða djúpt og óhreint sár og hætta á að það sýkist.

·         Venjulega  (ef um er að ræða stórt sár) er reynt að fjarlægja eins mikið og hægt er af skemmdum og sýktum vöðva og hægt er með skurðaðgerð (debridement). Með því er hægt að takmarka framleiðslu og dreifingu eitursins (tetanospasmin toxin) sem veldur sjúkdómnum.

·         Í þeim löndum þar sem Stífkrampi er landlægur er mótefni (tetanus antitoxins) notað til að vinna á móti eiturefnunum. Einnig er ráðlagt að gefa  stóra skammtar af sýklalyfjum ( til dæmis metronidazole)  leiki grunur á stífkrampasmiti.

·         Vöðvaslakandi lyf sem gefið er í æð  (diazepam) getur slegið á vöðvakrampann. Í verulega erfiðum tilfellum getur verið nauðsynlegt að setja viðkomandi á öndunarvél.

·         Tryggja þarf fullnægjandi öndun og næringu ef viðkomandi á að lifa af Stífkrampasmit.  Gefa þarf 3500-4000 hitaeiningar með að lágmarki 100gr af próteini á sólarhring annað hvort með næringu í æð eða magaslöngu (sondu).

·         Flestir lifa af en svo áköf meðferð getur tekið sinn toll. Fylgikvillar sjúkdómsins geta verið öndunarstopp, lungnabólga og brot á hrygg eða löngum beinum sem afleiðing af vöðvakrömpunum.

·         Að meðaltali þurfa þeir sem sýkjast að dvelja 30-40 daga á gjörgæslu áður en fullum bata er náð

Fyrirbygging:

Eina leiðin til að koma í veg fyrir Stífkrampa er með bólusetningu. Full bólusetning eru 5 skammtar sem venjulega eru gefnir samtímis öðrum bólusetningum barna á Íslandi. Bóluefnið aðstoðar líkamann við að mynda mótefni gegn stífkrampaeitrinu og ver viðkomandi þannig gegn sjúkdómnum ef hann skyldi smitast af bakteríunni. Öllum börnum á íslandi býðst bólusetning. Hún er framkvæmd við 3ja mánaða, 5 og 12 mánaða aldur og svo við 5 og 14 ára.

Ef vafi leikur á  hvort viðkomandi hafi fengið fullnægjandi bólusetningu ( hafi ekki fengið alla 5 skammtana)  er mælt með að tala við lækni og fá frekari ráðleggingar.

Sumir fá bólgu og roða við stungustað sem hverfur venjulega á nokkrum dögum. Aðrar aukaverkanir geta verið:

·   almenn vanlíðan,

·   vægur höfuðverkur,

·   beinverkir

·   smá hiti.

Þessi einkenni ættu að hverfa eftir 1-2 daga. Alvarlegar aukaverkanir eru afar sjaldgæfar. Ef aukaverkanir eru meiri en hér er lýst skal ráðfæra sig við lækni.

Fáir þú alvarlegt eða mjög skítugt sár ertu í aukinni hættu á smiti og þá er ráðlegt að hafa samband  við sjúkrahús eða heilsugæslu. Hafið þú ekki fengið fullnægjandi bólusetningu er venjan að gefa bóluefnisskammt.

Hvort sem viðkomandi er með fullnægjandi bólusetningu eða ekki þarf heilbrigðisstarfsmaður að  skoða sárið og meta hvort ástæða sé til að gefa aukaskammt af stífkramapamótefni. Stífkrampamótefni  inniheldur mótefni sem getur veitt aukavörn gegn stífkrampabakteríunni en er ekki bóluefni.  Þetta mótefni er notað sem aukavörn þegar um er að ræða sérlega óhrein sár, til dæmis þeir sem komast í tæri við úrgang frá húsdýrum eða ef líkur á að mikið magn baktería hafi komist í sárið.

Ef um er að ræða sár af völdum skurðar, bruna eða bitsár þarf að ganga úr skugga um hvort viðkomandi hefur verið bólusettur að fullu.  Ef svo er ekki getur verið hætta á smiti og mælt er með að ráðfæra sig við heilsugæslu og fá bólusetningu, helst innan tveggja daga frá því að sárið kemur.

Ef viðkomandi er bólusettur að fullu og sárið er ekki alvarlegt eða óhreint ætti ekki að vera hætta á stífkrampasmiti og því ekki þörf á aukaskammti af bóluefni.

Heimild: nhs.uk