Stuðningur við baráttuna gegn brjóstakrabbameini

Krabbameinsfélaginu og Samhjálp kvenna hefur verið afhentur ágóði af sölu á treflum í tengslum við átak í október gegn brjóstakrabbameini, alls rúmlega 1100 þúsund krónur. Í mörgum löndum hefur októbermánuður ár hvert verið helgaður árvekni um brjóstakrabbamein. Íslendingar tóku nú í þriðja sinn þátt í þessu átaki á þann hátt að Artica, umboðsaðili Estée Lauder, Clinique og Origins, og þrjátíu útsölustaðir fyrirtækisins seldu vandaða ullartrefla merkta tákni átaksins, bleikri slaufu. Salan gekk mjög vel og hlutfallslega mun betur en í nálægum löndum. Öllum ágóða af sölunni verður varið til að gera fræðslumyndband um gildi brjóstaskoðunar og brjóstakrabbameinsleitar.

Árveknisátakið fólst einnig í því að vekja athygli á þessum sjúkdómi, sem tíunda hver kona á Íslandi greinist með einhvern tíma á lífsleiðinni, fræða um hann og hvetja konur til að nýta sér boð leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins um röntgenmyndatöku.

Í tengslum við átakið hér var Perlan á Öskjuhlíð lýst upp í bleikum lit fyrstu helgina í október, í boði Orkuveitu Reykjavíkur. Jafnframt var bleiku ljósi varpað á Hafnarfjarðarkirkju og gamla sjúkrahúsið á Ísafirði. Með sama hætti voru lýst upp tvö hundruð mannvirki í fjörutíu löndum.

Ágóði af árveknisátakinu á síðasta ári var notaður til að framleiða svonefnd sturtuspjöld með leiðbeiningum til kvenna um sjálfskoðun brjósta.

Í frétt frá Krabbameinsfélaginu segir að félagið meti mikils þennan stuðning við baráttuna gegn brjóstakrabbameini og vilji þakka öllum sem lögðu lið við októberátakið. Stefnt er að því að efna til hliðstæðs átaks í október á næsta ári.

FRÉTT FRÁ KRABBAMEINSFÉLAGINU, 4. DESEMBER 2002.