Styrktarþjálfun barna og unglinga

Umdeilanlegt hefur verið á hvaða aldri börn ættu að hefja styrktarþjálfun. Í dag eru flestir sammála um að með hæfilegu álagi og réttum æfingum geti börn haft umtalsverðan ávinning af styrktarþjálfun.

Nýleg rannsókn sem gerð var af fyrirtækinu Nautilus á 10 ára strákum og stelpum sýndi fram á allt að 74% styrktaraukningu eftir aðeins 2ja mánaða þjálfun. Þeir sem ekkert þjálfuðu sýndu 13% styrktaraukningu í gegnum venjulegan líkamsþroska. Krakkarnir stunduðu eftirfarandi æfingar í styrktartækjum: fótaréttu, fótabeygju, bekkpressu, axlapressu og armbeygju. Æfingarnar voru stundaðar tvisvar í viku undir leiðsögn þjálfara. Engin meiðsli eða eymsli í vöðvafestum eða vaxtarlínum beina fundust á meðan á þjálfun stóð. Notast var við 55-65% álag af hámarki. Segja má að þessi rannsókn stingi nokkuð í stúf við það sem áður hefur verið haldið fram varðandi styrktarþjálfun barna.

Samkvæmt þessu má ætla að börnum sé óhætt að stunda styktarþjálfun, undir eftirliti, allt frá 10 ára aldri.

Hvernig?
Stunda skal styrktarþjálfun 2-3 í viku u.þ.b. 20-30 mínútur í senn. Álag skal vera í lágmarki (litlar þyngdir) þar til barnið hefur náð þeirri tækni til að gera æfinguna á réttan og öruggan hátt. Lyftufjöldi skal miðaður við 15-20 lyftur. Varlega skal farið þegar álag er aukið.

Börn fá fljótt leið á því sem þau eru að gera og það á jafnt við þjálfunina sem annað. Nauðsynlegt er því að skipta ört um æfingar. Hrós er nauðsynlegur þáttur ef árangur á að nást í styrktarþjálfun með börn.

Munið að láta börnin taka þátt í því að fylgjast með árangri sínum í styrktarþjálfuninni með því að skrá hjá sér framvinduna.