Sykursýki og kransæðasjúkdómar

Hóprannsókn Hjartaverndar hefur gefið gott tækifæri til að kanna algengi fullorðins sykursýki á Íslandi síðan 1967 og tengsl hennar við kransæðasjúkdóma.
Eins og vel þekkt er orðið nær hóprannsókn Hjartaverndar til slembiúrtaks karla og kvenna sem fædd voru á árunum 1907-1934. Hópurinn kom til rannsóknarinnar í fimm stigum (I-V) á árabilinu 1967-1991, alls 9128 karlar og 9759 konur á aldrinum 34-79 ára. Þetta er því nær þriðjungur þessa aldurshóps á Íslandi á þessu tímabili. Af þessum tæplega 19.000 mættu seinna á rannsóknartímabilinu (stig II-V) um 15.000 sem gerði það jafnframt mögulegt að kanna hversu margir hefðu fengið sykursýki í millitíðinni (nýgengi sjúkdómsins).

Greining fullorðins sykursýki byggist í þessari rannsókn á fastandi blóðsykri og blóðsykurmælingum í sykurþolsprófi (skv. ákveðnum skilmerkjum) sem þátttakendur fóru í. Jafnframt svöruðu þeir spurningum um hvort þeir hefðu nú þegar sykursýki, hvers konar meðferð þeir væru á og hvort sykursýki væri í ætt. Þeir fáu sem voru með insúlínháða sykursýki (sem oftast byrjar fyrir tvítugt) voru ekki teknir með í þessa rannsókn sem fjallar því eingöngu um fullorðins gerð (typa II) af sykursýki.


Niðurstöður og umræða

Mynd 1 sýnir hversu algengi sykursýki vex með aldri í báðum kynjum, er tiltölulega fátíð fyrir fimmtugt en tíðnin tvöfaldast fyrir hvern aldursáratug eftir það. Um sjötugt eru um 6% kvenna og 8% karla komnir með fullorðins gerð af sykursýki. Tíðni sykursýkinnar var ívið meiri meðal karla en kvenna og fyrir allan aldurshópinn 34-79 ára var algengi sykursýkinnar 2,9% meðal karla en 2,1% meðal kvennanna. Tæplega helmingur (40%) þessa hóps vissi ekki að þeir hefðu sykursýki þegar þeir komu í rannsóknina í fyrsta sinn í Hjartavernd. Út frá þessum algengistölum og aldursdreifingu íslensku þjóðarinnar má ætla að um 2.300 karlar og 1.900 konur á Íslandi hafi fullorðins gerð af sykursýki. Þeir þættir sem reyndust auka líkurnar á því að sykursýki kæmi fram meðal þátttakenda á rannsóknartímabilinu voru einkanlega offita og ættarsaga um sykursýki.

Mynd 1

Tafla 1 sýnir samanburð á algengi fullorðins sykursýki á Íslandi við nokkur önnur lönd þar sem sambærilegar niðurstöður liggja fyrir. Þessi gerð af sykursýki virðist því nokkru fátíðari hérlendis en víðast annars staðar. Í þessu sambandi er einnig fróðlegt að insúlínháð sykursýki (typa I) er einnig fátíðari á Íslandi en í mörgum öðrum löndum enda þótt undirliggjandi orsakir fyrir þeirri gerð séu væntanlega talsvert aðrar en fyrir fullorðins gerð af sykursýki. Á tímabilinu 1967-1991 var ekki unnt að sýna fram á að aukning hefði orðið á tíðni fullorðins sykursýki á Íslandi sem virðist hafa gerst víða erlendis, þó einkum meðal svokallaðra þróunarlanda.

Tafla 1

Sykursýki sem áhættuþáttur fyrir kransæðasjúkdóm Þátttökuhópnum hefur verið fylgt eftir að meðaltali um 17 ára skeið og með aðstoð Hagstofu Íslands hefur fjöldi látinna verið skráður svo og dánarorsakir. Tölfræðilegir útreikningar þar sem teknir voru með aðrir þekktir áhættuþættir fyrir kransæðasjúkdómi (fjölþáttagreining) kom sykursýki út sem sjálfstæður áhættuþáttur fyrir kransæðasjúkdómi. Þannig reyndist sykursýkin ein sér a.m.k. tvöfalda áhættuna á kransæðasjúkdómi í báðum kynjum samanborið við hópinn sem ekki hafði þessa sjúkdómsgreiningu (tafla 2).

Hjartaverndarrannsóknin er ein sú fyrsta sem sýnir fram á aukna áhættu á kransæðasjúkdómi bundna við sykursýkina sjálfa en ekki eingöngu við aðra þætti sem tengjast sykursýkinni, svo sem háþrýsting eða blóðfitur. Háþrýstingur var vissulega nær tvöfalt algengari meðal hinna sykursjúku og jafnframt höfðu þeir oftar aðra áhættuþætti samtímis sem juku áhættuna enn meira. Þannig höfðu 8% sykursjúkra karla og 10% sykursjúkra kvenna svokallað heilkenni-X, þ.e. höfðu offitu, háan blóðþrýsting og hækkaða þríglyseríða en samsvarandi hlutfallstölur fyrir aðra voru 1-1,5%.

Skýringin á aukinni æðakölkun samfara sykursýki er væntanlega margþætt en hluti skýringarinnar kann að vera að blóðsykurhækkunin umbreyti fituprótínum (LDL), sem aftur veldur aukinni kólesterólsöfnun í æðaveggnum. Afleiðing þess að sykursjúkir hafa tvöfalt hærri tíðni kransæðasjúkdóms samanborið við aðra hefur vissulega leitt til styttra æviskeiðs þeirra sem nemur u.þ.b. fimm árum ef sjúkdómurinn hefur komið fram um 55 ára aldurinn. Þetta sést á mynd 2 sem sýnir lífslíkur karla, eftir 20 ár eru 58,3% karla með sykursýki á lífi, samanborið við 77,5% í samsvarandi aldurshópi karlahópsins. Samsvarandi tölur fyrir konur voru 75,9% sykursjúkra og 84,9% hins hluta kvennahópsins. Þessi munur á lífslíkum stafaði aðallega af meiri tíðni kransæðatilfella í hópi þeirra sem greinst höfðu með sykursýki.

Tafla 2

Góðar fréttir að utan
Mjög nýlega hafa stórar hóprannsóknir bent til þess að draga megi verulega úr þessari auknu áhættu sykursýkinnar á kransæðasjúkdómum og öðrum fylgikvillum sykursýkinnar. Hin vel þekkta skandinavíska rannsókn (4S) sem Ísland tók þátt í sýndi að blóðfitulækkandi lyfjameðferð er sérstaklega árangursrík meðal sykursjúkra sem oft hafa röskun á blóðfitu.

Stjórnun blóðþrýstings og blóðsykurs mikilvæg
Nýleg rannsókn frá Bretlandi sýndi að góð blóðþrýstings- og blóðsykurstjórnun hefur veruleg áhrif til að hindra hjarta- og æðasjúkdóma meðal sykursjúkra.

Niðurlag
Hóprannsókn Hjartaverndar hefur gefið góða heildarsýn yfir algengi fullorðins sykursýki á Íslandi og áhættu henni tengdri. Tvöföld áhætta á kransæðasjúkdómum meðal sykursjúkra gefur vissulega mikla ástæðu til að veita þessum sjúklingahópi sem best eftirlit, ekki aðeins m.t.t. blóðsykurstjórnunar heldur einnig stjórnun blóðþrýstings og blóðfitu. Flest bendir til að góð meðferð á þessum þáttum megi minnka áhættu sykursjúkra á æðakölkun og öðrum fylgikvillum verulega.

Helstu heimildir: Vilbergsson S,
Sigurdsson G,
Sigvaldason H,
Hreidarsson ÁB,
Sigfusson N.
Prevalence and incidence of NIDDM in Iceland: Evidence for stable incidence among males and females 1967-1991 – The Reykjavik Study. Diabetic Medicine 1997; 14: 491-8. Vilbergsson S,
Sigurdsson G,
Sigvaldason H,
Sigfusson N.
Coronary heart disease mortality amongst non-insulin-dependent diabetic subjects in Iceland: the independent effect of diabetes. The Reykjavik Study 17 year follow up. J Int Med 1998; 244: 309-16. Áður birt í HJARTAVERND, 35.árg.1.tbl.1998 Tímaritið fæst gefins á skrifstofu Hjartaverndar, Lágmúla 9, 108 Reykjavík.