Tannlækningar barna


Er kominn tími til að fara með barnið til tannlæknis?

Í raun koma börn aldrei of snemma til tannlæknis. Strax á öðru ári eru þau komin með margar tennur sem þá þegar geta tekið að skemmast

Um tannhirðu og hlutverk barnatanna

Byrjið að bursta tennur barnsins með ögn af flúortannkremi um leið og fyrsta tönnin lætur kræla á sér. Þannig venst barnið því að tannburstun sé eðlilegur og sjálfsagður hlutur og auðveldara verður að bursta tennurnar í framtíðinni. Barnatennurnar eiga að vera heilar svo barnið geti tuggið eðlilega og nærst á venjulegu fæði. Einnig gegna barnatennur því hlutverki að varðveita pláss fyrir fullorðinstennurnar sem koma síðar. Síðustu barnatennurnar tapast oft ekki fyrr en um 11 ára aldur og jafnvel síðar.

Mataræði

Mataræði skiptir miklu máli fyrir tennurnar. Æskilegt er að hætta næturgjöfum ef mögulegt er þegar barnið er orðið 6 – 8 mánaða gamalt. Það á einnig við um brjóstamjólk því hún er sæt og getur skemmt tennur. Forðist að setja sykur eða hunang á snuð og passið einnig upp á það sem fer í pelann. Ávaxtasafar eða aðrir sætir drykkir geta á skömmum tíma farið mjög illa með tennurnar. Það er ekki nauðsynlegt að sykra mat hjá börnum. Við mikla sykurneyslu minnkar matarlystin og tennur skemmast. Það gagnast barninu allt lífið að venjast því að borða góðan og hollan mat frá fyrstu tíð.

Fyrsta tannlæknaheimsóknin

Það er engin ástæða til að kvíða fyrstu heim-sókn til tannlæknis. Oftast hefur barnið gaman af því að koma og prófa eitthvað nýtt. Í fyrstu heimsókninni eru tennurnar skoðaðar og taldar og leitast er við að kynna fyrir barninu það framandi umhverfi sem tannlæknastofan er. Best er að undirbúa barnið sem minnst en svara þó alltaf spurningum þess hreinskilnislega. Það er ekki gott að lofa barninu einhverju, til dæmis sælgæti eða leikföngum, fyrir að fara til tannlæknis. Það er fljótt að átta sig á að þá sé verið að lokka það til að gera eitthvað miður skemmtilegt. Öll börn fá hins vegar hrós fyrir góða frammistöðu hjá tannlækni.

Nokkrir punktar fyrir foreldra

Það er ekki mikið mál að láta barnið halda sínu fallega og heilbrigða brosi. Hér eru nokkur ráð til að viðhalda góðri tannheilsu barnsins:

  • Leitaðu ráðlegginga hjá tannlækni varðandi tannheilsu barnsins, allt frá því það er sex mánaða gamalt.
  • Forðastu að setja annað en vatn í pela barnsins fyrir svefninn.
  • Byrjaðu að bursta tennur barnsins um leið og fyrsta tönnin birtist.
  • Gakktu úr skugga um að barnið fái nægilegt flúor til að verjast tannskemmdum.
  • Burstaðu tennur barnsins þíns og hreinsaðu þær með tannþræði daglega þangað til það lærir að gera það sjálft. Hvettu það þá til að bursta og nota tannþráð.

Með eigin umhirðu, reglulegu tannlækniseftirliti og aðstoð foreldra og hvatningu er meiri möguleiki á að börnin vaxi úr grasi án tannskemmda og haldi tönnum sínum alla ævi

Birt með góðfúslegu leyfi Tannlæknafélags Íslands af vef þeirra tannsi.is