Tannvernd – flúorskolun í grunnskólum

Áhrifamáttur flúors til varnar tannátu er óumdeildur og rannsóknir staðfesta að flúorskolun hálfsmánaðarlega með 0,1% flúorlausn og skolun hvern dag með veikari flúorlausn hafa sambærileg varnandi áhrif. Rannsóknir sýna að lágur en stöðugur flúorstyrkur í munnholi er nauðsynlegur til viðhalds heilbrigði tanna. Flúor tekur þátt því viðgerðarferli sem stöðugt er í gangi við tannyfirborð auk þess að hafa truflandi áhrif á starfsemi þeirra baktería sem valda tannátu. Verkun flúors er staðbundin á yfirborði tanna – og varnandi áhrif þau sömu hjá öllum aldurshópum.

Áherslubreyting hefur orðið varðandi notkun flúorauka, þ.e. flúorlökkun, flúorskolun, flúorsogtöflur og flúortyggjó, þannig að notkun er nú einungis talin nauðsynleg þar sem tannátutíðni er há eða þar sem aukin hætta er á tannátu. Skilgreining á einstaklingum og hópum sem hættara er við tannátu en öðrum er ekki auðveld, en tannáta í barnatönnum er oftast vísbending um að sérstakt eftirlit skuli haft með fullorðinstönnum viðkomandi. Fullorðinsjaxlar „á uppleið“ þarfnast flúorauka, en stærstu fullorðinsjaxlarnir eru að koma upp við 6 og 12 ára aldur. Ákveðna aldurshópa má einnig flokka sem áhættuhópa og á það m.a. við um unglinga þar sem slæmar neysluvenjur virðast því miður vera regla fremur en undantekning. Aðra áhættuhópa má einnig nefna t.d. þá sem eru í tannréttingameðferð.

Lengi býr að fyrstu gerð

 

Í upphafi þessa árs komu fram ný tilmæli frá Landlæknisembættinu um tannvernd og flúornotkun. Í kjölfarið hefur heilsugæslan hug á að bjóða sex, tólf og fimmtán ára börnum/unglingum upp á flúorskolun með 0,1% flúorlausn, hálfsmánaðarlega, yfir skólaárið auk þess sem aukin fræðsla verður í boði um mikilvægi tannverndar, hollar neysluvenjur, tannhirðu og gagnsemi flúors.

Mikilvægt er að í skólum landsins sé lagður grunnur að góðri heilsu, þ.m.t. tannheilsu. Áherslan á heilsuvænt og þar með tannvænt mataræði innan skólaveggja er mikilvæg og gott aðgengi að drykkjarvatni er nauðsynlegt. Eins er nauðsynlegt að skólastjórar, kennarar og skólaliðar komi að þessu verkefni með jákvæðu viðmóti, skilningi á mikilvægi framkvæmdar og þátttöku í sjálfri framkvæmdinni, í samvinnu við skólahjúkrunarfræðing viðkomandi skóla. Jákvætt viðhorf foreldra og barna hefur einnig mikið um það að segja hvernig framkvæmd flúorskolunar tekst.

Mars 2003
Hólmfríður Guðmundsdóttir tannlæknir
yfirmaður Miðstöðvar tannverndar

Frá Landlæknisembættinu