Þegar börnin flytja að heiman

Elskað barn fær mörg viðurnefni. Svo er einnig með kreppuna, t.d. parstíminn eða foreldralokatíminn eða ef til vill einfaldlega silfurbrúðkaupsangistin.

Ég hitti hjón, sem höfðu verið gift í 25 ár og 3 vikur og þau vildu skilja. Við höfðum ekki brjóst í okkur að hafa veisluna af fjölskyldunni, þau voru búin að hlakka svo til.

Ég flokka hjón, sem hafa verið gift í 25 ár þannig: Þriðjungur þeirra nýtur lífsins og hvors annars og líður virkilega vel saman. Þau leiðast hönd í hönd um grasi grónar grundir, og hafa það líka þægilegt fjárhagslega, þar eð börnin eru flutt að heiman og íþyngja þeim ekki lengur. Ef þau kæra sig um geta þau hægt á lífsgæðakapphlaupinu og minnkað veraldlegar kröfur. Þau hafa líka ráð á að styðja börnin fjárhagslega ef á þarf að halda.

Þau hafa nógan tíma til að ræða saman og hlusta og njóta kynlífsins ótrufluð.

Þau eru hugsanlega mikið til hætt að stunda kynlíf núna, þegar þau eru farin að reskjast, en þau njóta blíðu og félagsskapar frá hvort öðru. Hvorugt hefur lengur áhuga á kynlífi og það er léttir að þau eru sammála um það.

Annar þriðjungur hjóna á þessum aldri sveiflast upp og niður. Þau fara gegnum tímabil sem þau eru hrifin hvort af öðru og þess á milli rífast þau og gagnrýna hvort annað.

Þegar þau fá heimsókn er allt slétt og fellt á yfirborðinu og maturinn er gómsætur, en undir niðri marar ólgan og eftir nokkra klukkutíma brestur stíflan og gesturinn óskar sér að hann væri kominn heim. Þau þurfa að taka hjónabandið til endurskoðunar og breyta til. Tilfinngarnar eru ennþá til staðar milli þeirra, en þau hafa sópað of mörgum óleystum málum undir teppið, segja má, að í hjónabandið sé tillitsemisveiki.

Loks er það þriðjungur sem lifir við óbærilegar aðstæður. Þau gagnrýna stöðugt hvort annað, segja aldrei notalegt orð hvort við annað, né faðmast. Þau búa í víti. Þau geta verið útsmogin í kvikindisskap sínum og sent hvort öðru tóninn þegar annað fólk er viðstatt, m.a. um viljaleysi og lélega burði undir sæng.

Hvers vegna í ósköpunum lafa þau saman?

Oftast er það konan sem hefur frumkvæði að skilnaði. Henni leiðist með karlinum, er pirruð á sinnuleysi hans, þreytu og driftarleysi. Henni finnst, að það lendi alltaf á henni að drösla honum af stað ef á að fara eitthvað út fyrir dyr.

Hann er þreyttur á að vera alltaf vísað frá þegar hann reynir að brydda upp á líkamlegu samneyti. Honum finnst líka að hún bregðist við á særandi hátt ef hann reynir að sýna tilfinningar.

Bæði eru í brýnni þörf fyrir blíðu. Hann dregur sig í hlé bak við Moggann Eins gott að leyfa henni að blaðra.

Hún hækkar róminn til að fá viðbrögð. Ef hann segir ekkert hrópar hún hærra og líður eins og skassi.

Hann les að einhleypir fráskildir karlmenn milli 55 ára og eftirlaunaaldurs séu í mikilli sjálfsmorðshættu og hafi mikla tilhneygingu til ofdrykkju. Karlmenn eiga mjög erfitt með að mynda trúnaðarsamband við aðra karlmenn og þurfa oft að grípa til flöskunnar til að liðka málbeinið og tjá tilfinningar. Ef erfitt er að ræða við ókunnuga á barnum, er freistandi að einn grár verði að fleirum.

Hann getur líka farið að finna fyrir magaverk, fengið illt í öxlina, eða átt erfitt með að kyngja. Einn vinur minn sem er læknir segir mér: Já honum líður illa, en hann er, með verk í tilfinningunum og ég get lítið gert við því! Það er ekki auðvelt fyrir mann, sem á lokakafla starfsævi sinnar er undir stöðugu álagi vegna þess hraða og tæknilegu færni sem er krafist. Hann er á glóðum að reyna að komast af, vel vitandi að einhver yngri er til taks að leysa hann af hólmi ef hann stendur eig ekki.

Ef honum finnst líka heimilislífið á brauðfótum að konan sé óhress og stefni í skilnað er stutt í tilgangsleysið. Honum finnst hann gagnslaus og ráðalaus. Þegar svo er komið er mikilvægt að eiginkonan sé á varðbergi og reyni að brjótast gegnum varnarbrynju hans og stolt, en hún er yfirleitt best til þess fallin að brjóta ísinn og koma umræðum af stað.

Mörgum sem rannsakað hafa hjónabönd virðist sem meira sé um óánægju en ánægju meðal hjóna sem eiga uppkomin börn. Miðaldra hjónabönd sem virðast vera traust og rótgróin eru ekki endilega alveg eins hamingjurík og þau líta út fyrir.

Samkvæmt rannsóknum þessum má deila hjónabandsaðstæðum niður í fimm flokka.

1. Kalda stríðið.

Bæði hjónin vita að þau eiga ekkert sérstaklega vel saman, og alltaf er hætta á átökum. Þau búa við eins konar vopnahlé og reynt er að hafa hemil á spennunni, en tekst ekki alltaf.

2. Lífvana hjónabandið.

Í þess háttar hjónabandi er engin alvarleg togstreita, en það er vegna þess að hjónin skipta hvort annað ekki máli. Samband þeirra einkennist af skeytingarleysi. Á sumum sviðum geta samskiptin verið viðunandi, t.d. í sambandi við fullorðin börn þeirra eða barnabörn. Hjónabandinu er haldið gangandi á vana og framtaksleysi eða vegna fjárhagslegs og félagslegs öryggis. Það er tekið fram yfir óvissuna sem fylgir skilnaði. Fyrir kemur að annað eða bæði eiga í kynferðislegum samböndum utan hjónabandsins og það er látið átölulaust – og þeim finnst það alveg ágætt.

3. Hlutlaust-jafnvægi.

Bæði hjónin eru sátt við sambandið, en ekkert umfram það. Ekki er mikið um árekstra, en heldur ekki mörg sameiginleg áhugamál, né að þau geri margt saman. Hjónin eru hlutlaus hvort gagnvart öðru, ekkert sérlega vonsvikin, en það gneistar ekki beinlínis af lífi milli þeirra. Það er lítið sem bendir til þess að þau geti ekki án hvor annars verið eða þyki mjög vænt hvoru um annað. Þeim líður frekar vel hvoru í sínu horni og láta að mestu leyti hvort annað afskiptalaust.

4. Sprelllifandi samband.

Þarna er um að ræða hjón, sem taka sameiginlega þátt viðburðum lífsins af krafti og áhuga. Hvort sem um er að ræða kynlíf, atvinnu, skapandi starfsemi eða tómstundaáhugamál. Hjónin eru tilfinningalega náin og samband þeirra er innihaldsríkt fjöregg beggja.

5. Hið fullkomnaða fyrirmyndarhjónaband.

Það líkist sprelllifandi hjónabandinu, en er fjölþættara. Slík hjónabönd eru sjaldgæf, en eru samt til. Þar eru á ferðinni pör sem deila öllum þáttum lífsins með gagnkvæmum lífsþorsta. Þau virða sérkenni hvors annars og njóta sambandsins til fulls og örva hvort annað til að blómstra og dafna.

Bandaríkjamennirnir Cuber og Harroff hafa með rannsóknum sínum á hjónaböndum, komist að því að mikill meirihluti hjóna telst vera í 3 fyrstu flokkunum. Þau hafa sætt sig við átök, sambandið hefur lognast útaf, eða þau eru í hlutlausu jafnvægi.

Niðurstöður þessara rannsókna koma heim og saman við það sem hefur komið út úr sambærilegum rannsóknum. Sumir kalla þessi hjónabönd fjöldaframleiðslu eða ég hef sætt mig við mín örlög hjónabönd.

Bjartsýnum og rómantískum sálum getur runnið kalt vatn milli skinns og hörunds við að fregna að meirihluti traustra, þroskaðra hjónabanda um borg og bý séu sneydd lífskrafti, tilhlökkun og hlýju. Að tilfinningasamband hafi dagað uppi, en verið leyst af hólmi með hlutlausum vinskap.

Almennt virðist einnig tíðni kynlífs og áhugi á líkamlegu samneyti við makann geispa golunni löngu áður en það verður líffræðilega ómögulegt. En hjón sem þannig hafa verið gift árum saman líta ekki svo á að þetta sé vandamál sem taki því að tala um.

Þau hjónabönd sem hér um ræðir hafa staðið í minnsta kosti 20 ár. Þetta eru því hjónabönd sem eru álitin traust. Gæði þeirra vekja þó enga yfirgengilega hrifningu ef skyggnst er undir yfirborðið.

Rannsókn ættartengsla leiddi í ljós, að slík hjón voru burðarásinn í neti náinna ættartengsla, samstöðu og stuðnings.

Ætla mætti að náin tengsl við fullorðin börn, barnabörn og eldri kynslóðina eigi að fylla upp í tómið í tilfinningalegri eyðimörk hjónabandsins.

Að sjálfsögðu eru ekki öll þroskuð hjónabönd svona slæm. Sennilega er algengast að góð og slæm tímabil skiptist á og að óánægjan sé ekki stöðug. En stór hluti gróinna hjónabanda stenst varla samanburðinn við ímyndaða goðsögn um ævilanga sælu og samhljóm. En hvaða rök eru fyrir að handa áfram í svona hjónabandi ef manni finnst það í raun og veru svona slæmt?

Það er ekki lengur ástæða til að vera saman út af börnunum; þeim geta hjónin hvort fyrir sig. Þjóðfélagið krefst þess ekki heldur nú til dags.

Þar sem svo margir þrátt fyrir allt kjósa að halda samt saman hlýtur það að skýrast af því að þörfin fyrir öryggi sé mikilvægari en annað. Karlmönnum á þessum aldri er oft ljóst, að þeim myndi reynast erfitt að búa einir svo að þeir kjósa heldur þá fórn sem fylgir því að vera í slæmu hjónabandi.

Það er freistandi að spyrja: Til hvers eru eiginlega svona hjónabönd þegar börnin eru vaxin úr grasi ef þau eru tóm og lítt gefandi eins og sum þessara gömlu hjónabanda eru greinilega?

Ég reikna ekki með að margir svari af fullri hreinskilni. Ef fólk horfist í augu við raunveruleikann getur það verið knúið til að taka afleiðingunum af því. Margir hafa ríka þörf fyrir að einhver hafi þörf fyrir þá, þar gæti verið ein ástæða.

Oft gerist það eftir dauðsfall að ekkjan eða ekkillinn hreint og beint blómstrar og breytist frá því að vera geðvondur og fúll í að vera glaður og jákvæður. Það getur verið mikið álag að búa með maka sem er veikur og bókstaflega verður að bera hann á höndum sér.

Við getum öll þolað nöldur og veikindi í vissan tíma, en ekki alltaf. Ef við missum þolinmæðina við sjúkling, finnst okkur við vera vondar manneskjur. En það er ekki þannig, við erum bara manneskjur. Okkur eru takmörk sett.

Það eru mannréttindi að nöldra, en það er ekki uppbyggilegur lífsstíll.

Þetta hljómar vafalaust harkalega. Ég veit vel að það er óbærilegt að þjást alla daga en það er hlutskipti sumra.