Þú ert frábær!

„ÞÚ ERT FRÁBÆR“!

Eitt af því sem einkennir samfélagið okkar í dag er hvað margt er orðið ópersónulegt. Við erum einhver kennitala, aldurshópur, kyn og svo framvegis, númer í hinum íslenska genabanka. Oft vill það gleymast að við erum hvert og eitt svo miklu meira en það sem talan, númerið og stimpillinn gefur til kynna. Við erum nefnilega á vissan hátt eins og ferðataska á leið frá einum áfangastað yfir á þann næsta. Þér finnst kannski skrítið að ég skuli líkja okkur við ferðatöskur. En sjáðu nú til! Þá má segja að lífið sé eins og ferðalagið sem taskan er á. Þar með er líkingin milli okkar og ferðatösku orðin nokkuð góð. Ekki frekar en ferðataska á ferð vitum við hvert ferðinni er heitið. Ferðataskan fær síðan númer í hvert sinn sem hún fer úr einni flugvél í aðra á milli áfangastaða. Og á leiðinni á milli áfangastaða safnast meir og meir í ferðatöskuna. Þið vitið sjálf hvernig það er þegar maður er á ferðalagi, maður kaupir eitt hér og annað þar, minjagripi, föt, ódýra og dýra hluti og allt fer í töskuna. Sumt tökum við fljótt upp aftur og notum jafnvel á ferðalaginu, sumt lendir í geymslu þegar við komum heim og gleymist þar í mörg ár. Sumt fer upp á vegg til skrauts. Sumu hendum við bara. Við berum með okkur, eins og taskan, í gegnum lífið, allt það jákvæða og neikvæða sem fyrir okkur hefur komið, allar góðu stundirnar og hinar slæmu, allt það sem við skreytum okkur með og líka það sem við þurfum að fela að því er okkur finnst. Og við eigum okkur öll bæði góðar og slæmar minningar. Sumt tekst okkur vel með og annað miður eins og gengur. En allt fer það í töskuna okkar góðu.

Nú eru sumir þannig að þeir muna einhvern veginn bara eftir slæmu hlutunum sem liggja á töskubotninum. Kannist þið ekki öll við það þegar við vöknum á morgnana, lítum í spegil og hugsum með okkur „hörmung er að sjá mig í dag“. „Mikið er ég að fitna, ég sem er alltaf í megrun. Það gengur bara ekki neitt. Ég get ekki látið sjá mig! Það er munur en hún Gunna eða hann Jón“. Svo höldum við út í daginn, þegar við erum búin að brjóta okkur sjálf vel og rækilega niður. Og þegar við erum búin að tala neikvætt um okkur sjálf í nægilega mörg ár, þá endar það með því að við förum að trúa því sem við segjum um okkur sjálf. Tala nú ekki um þegar allir aðrir eru jafn neikvæðir. Því við erum ekki sérlega dugleg að hrósa hvort öðru!

En það er til annarskonar tal. Það er til dæmis að segja við sjálfan sig „heyrðu, ég er nú bara með fullt af góðum hlutum í töskunni minni“, svo við höldum okkur nú við líkinguna af lífinu sem tösku. „Það er bara heilmikið sem ég get tekið upp og sýnt öðrum“. „Ég er búin að gera fullt af góðum hlutum“, eða við getum líka sagt „já, ég lít nú bara ekki svo illa út í dag“, „ég get alveg látið vaða einhverja góða sögu í vinnunni eins og hinir“. Alveg eins og við getum talað okkur niður í kjallara, þá getum við gefið okkur sjálfum klapp á öxlina og gert lífið miklu betra fyrir okkur sjálf og umhverfið.

Nú haldið þið kannski að ég sé að segja að við eigum að blekkja okkur sjálf til að halda að við séum betri en við erum í raun og veru. Ef þú hugsar þannig, þá ert þú einn af þeim sem eru fullir af neikvæðni í eigin garð. Við ættum í þessu tilfelli að stinga neikvæðninni undir stólinn, horfa í spegilinn á veggnum heima og segja við spegilmyndina: „Þú ert frábær“. Það skiptir nefnilega svo miklu máli hvað það er sem við veljum að hugsa um okkur sjálf. Við erum ekki bara kennitölur, neytendur, kjósendur eða genasafn í íslenska genabankanum. Eins og ég sagði hérna áðan þá erum við full bæði af jákvæðum og neikvæðum upplifunum, full af reynslu og höfum öll miklu að miðla. En við getum sjálf valið hvort við viljum leggja áherslu á þetta neikvæða eða þetta jákvæða. Ef við ákveðum að draga svarta rúllugardínu fyrir tilveruna, þá er sálin alltaf í myrkri, jafnvel þó sólin skíni úti. Og af því að við erum neikvæð út í okkur sjálf verðum við full af neikvæðni út í alla aðra. Hvernig væri nú, með hækkandi sól, að rífa rúllugardínu neikvæðninnar frá sálartetrinu og leyfa sólinni að skína bæði á okkur sjálf, fjölskyldu okkar og vinnufélaga? Því við erum frábær. Og hana nú!