Tilbrigði við heilbrigði

Ég er með hausverk. Ég er með hausverk af þeim flaum af áreitum sem fylgja nútíma markaðssamfélagi. Samfélagi þar sem tilveran er uppfull af skilaboðum frá fyrirtækjum og aðilum sem vilja þjónusta okkur og hagnast á þörfum okkar og löngunum. Skyndilega eru grunnþarfir mannsins orðnar fjölmargar. Okkur eru á borð bornar grímuklæddar langanir sem orðnar eru að þörfum. Við “þurfum” urmul af alls kyns dauðum hlutum til þess að koma okkur í gegnum daginn. Markaðurinn telur okkur trú um að við komust ekki af án allskyns „óþarfa”. En hverjar eru grunnþarfirnar?

Það er ekki svo margt sem maðurinn þarf. Aðlögunarhæfni okkar er hreint með ólíkindum. Maðurinn þarf að borða, sofa, eiga þak yfir höfuðið og búa við heilbrigt tilfinninga- og félagslegt samneyti við annað fólk. Stundum er eins og við gleymum grunnþörfunum og glötum í framhaldinu jafnvæginu sem er undirstaða sköpunar okkar og framleiðni. Mannauðurinn sem býr í hverjum manni á í kjölfarið erfitt með að brjótast undan klafa þeirrar gegndarlausu einstaklingshyggju sem markaðsþjóðfélagið hefur alið á. Nú fýkur ágirndaél dauðasyndanna yfir dyggðirnar, og birtingarformið, jú ásókn í ímynduð gæði, ímyndaða hamingju.

En ekki er svo að skilja að heimurinn eins og við þekkjum hann sé alslæmur. Nei alls ekki, en það er þörf á nýjum viðmiðum og í kjölfarið nýjum gildum til að lifa útfrá. Hafna stöðugri gróða- og markaðshyggju. Trúa því að hamingjan sé viðhorf. Setja manngildi og „social kapital” hverrar þjóðar í öndvegi. Vinna markvisst að hagsmunum okkar sem manneskja, ekki að einblína á efnisheiminn, heldur okkar eigin anda(geð) og hvernig hann er best ræktaður. Láta af dýrkun dauðra hluta, nálgast og sinna grunnþörfum. Hverfa frá firringu tilbúinna þarfa og leita inná við. Okkar fjöl-skyldur skulu vera þær fyrstar að rækta lifandi hluti, án þeirra væru engir dauðir hlutir til, sem um þessar mundir virðast veita oss svo mikla fró.

Helgina 7-9 febrúar sl. létust þrír Íslendingar fyrir eigin hendi, einn var lífgaður við á síðustu stundu og samkvæmt mínum heimildum var fjöldi sjálvígstilrauna óvenju hár þessa helgi. Þegar ég heyrði þessar tölur brá mér. Þetta jafnast á við það að 3.000 manns tækju líf sitt á þremur dögum í Bandaríkjunum, eða svipað mannfall og í árásunum á WTC þann 11. september sl. Hvað er að þegar ekkert er að en samt er ekki allt í lagi? Hvar bresta tilvistarþræðir okkar svo að þrjú okkar skulu kveðja heiminn á þremur dögum og önnur vera alltof nálægt því. Það er sárt að vera til, það þekkja flestir en líka oft svo ljúft. Friedrich Nietzsche sagði að þjáning, eymd, andstreymi og sjúkdómar væru af hinu góða í lífinu því án þessara þátta þroskuðumst við lítt. Galdurinn væri sá að nýta sér andstreymið, synda á móti því og umfram allt læra af því og túlka það á jákvæðan hátt.

En af hverju brestur okkur kjark til að lifa, ekki að lifa af, heldur að lifa? Ekki ætla ég að leitast við að svara því, en það er alveg ljóst að enn um sinn verður að brýna umræðu um andlega líðan þessarar þjóðar og ydda, nú ákafar en nokkru sinni, niður á dyggðir hennar. Ástæðan er sú að of mörg okkar ráðum ekki við þær kröfur og væntingar sem nútímasamfélag gerir. Mörg okkar eru næm, búa yfir eiginleikum eins og þunglyndi og andlegu ójafnvægi, búa við slælegan fjárhag, eru ginkeypt fyrir tilbúnum þörfum, fá útrás hvata og streitu á annarlegan og óhollan hátt. Við getum ekki hlaupið lengur, við getum ekki lifað af lengur, bara lifað. Enda er það málið, að lifa, ekki að festast í því helsi að lifa af. Því skulum við í einfaldleik lofa lífið, njóta dauðu hlutana en rækta andann og máttinn í núinu.

Ég skora á stjórnvöld að marka sér skýrari stefnu í forvörnum gegn sjálfsvígum og eflingu (geð)heilbrigðis, og hrinda henni í framkvæmd. Þar spila margir þættir inn í, sem þarf alla að skoða í heilbriðisáætlun, heilbrigðisáætlun þjóðarinnar, ekki bara ríkisstjórnarinnar. Áætlun um heila brá þjóðar, heila ásjónu.

Ég vil votta öllum aðstandendum og ástvinum þeirra sem tekið hafa líf sitt samúð mína.