Um umskurð

Forhúðin er skinnið á limnum sem er aðeins of stórt fyrir hann linan og nær fram á eða alveg yfir reðurhúfuna þegar limur er í lágstöðu. Þekkt hlutverk forhúðarinnar eru þrjú, varnar-, skyn- og kynlífsupplifunar. Hjá ungbörnum ver hún viðkvæma reðurhúfuna fyrir þvagi hægðum og núningi og alla ævina á hún þátt í að halda húð reðurhúfunnar mjúkri og ver hana hnjaski. Sérhæfðir taugaendar sem eru staðsettir í forhúðinni auka á kynnautn og stjórn í kynlífi, haftið sem liggur frá forhúðinni og festist á reðurhúfuna í grennd við þvagrásaropið (kallað frenulum á fagmáli) er sérstaklega næmt fyrir örvun og ættu metnaðarfullar ástkonur að prófa sig áfram þar um slóðir. Þegar limur rís og stækkar getur nú oft orðið glatt á hjalla… ehm, afsakið það var ekki mergur málsins – reyni aftur: Þegar limur rís og stækkar sér forhúðin til þess að skinnið strekkist ekki um of. Svo nuddast hún við reðurhúfuna í samförum eða við sjálfsfróun og þá verður þessi líka fína gagnkvæma örvun svæðanna tveggja. Þess vegna er sannleikurinn sá að forhúðin spilar stórt hlutverk í kynsvörun hins forhúðaða karlmanns.

Umskurður

Umskurður kallast sú aðgerð þegar forhúðin er skorin af limnum með beittum hníf, venjulega á fyrstu dögunum eftir fæðingu sveinbarnsins sem auðvitað hefur engan ákvörðunarrétt í málinu. Litli kúturinn er tekinn og hreinlega skorinn, oftast án mikillar deyfingar, svo tekur það hann viku til tíu daga að jafna sig s.s. að losna við verkina sem eru síst minni en hjá fullorðnum sem lendir í álíka. Batinn getur þó tekið mun lengri tíma ef drengurinn fær blæðingu eða sýkingu í kjölfar aðgerðarinnar. Rannsóknir hafa sýnt að erfiðleikar við brjóstagjöf og tengslamyndun sem á sér stað milli móður og drengs fyrstu daga og vikur eftir fæðingu eru mun algengari þegar umskurður er framkvæmdur. Í Bandaríkjunum er ástæðulaus umskurður ennþá framkvæmdur á 60% sveinbarna þetta þýðir að á hverjum degi eru 3300 sveinbörn umskorin í þar vestra, eitt lítið tippi er saxað á 26 sekúndna fresti! Á Íslandi er fyrirbærið sjaldgæft nema þegar um raunverulegan heilsufarslegan ávinning af aðgerðinni er að ræða og í öðrum Evrópulöndum og Kanada er fyrirbærið á miklu undanhaldi.

Mýtan sem þarf að kála

Það heyrist oft sagt að umskornir menn séu betri elskhugar en aðrir menn. Þetta er eins og að segja að menn með yfirskegg séu betri elskhugar en vel rakaðir menn – sumsé, það kemur málinu bara ekkert við. Þegar forhúðin er fokin burt hefur reðurhúfan ekki lengur þessa prýðilegu vörn og verður með tímanum minna næm fyrir snertingu og örvun. Þetta getur leitt til þess að karlmaðurinn er lengur að fá það en ella og getur verið lengur að gera inn, út, inn, út, inn… Kannski meta einhverjar konur þetta sem elskhugagæði en í mínum huga snúast gæði meira um næmi mannsins á það hvað ástkonu (eða manni) hans finnst gott og hversu vel tekst til í samspili einstaklinganna sem njóta ásta. Mér er nákvæmlega sama um langtímahjakk ef tengingin er í lagi.

Vörn gegn vá?

Rök læknisfræðinnar fyrir umskurði snúast um varnir gegn sjúkdómum. Því hefur verið haldið fram að óumskorin sveinbörn fái frekar þvagfærasýkingar. Þetta hefur nú verið hrakið með rannsóknum, þau sveinbörn sem fá þvagfærasýkingar snemma eftir fæðingu þjást í öllum tilfellum af einhvers konar meðfæddum göllum á þvagfærum. Að auki er auðvelt að meðhöndla þvagfærasýkingar með nútíma sýklalyfjum og er það sannarlega mannúðlegri og hættuminni meðferð. Tippakrabbamein er algengara hjá óumskornum mönnum, u.þ.b. 37% þeirra sem fá slíkt krabbamein eru þó umskornir svo að spurningin er hvort það sé virkilega þess virði að skera 100.000 litla strákalinga til að koma í veg fyrir að einn þeirra fái tippakrabbamein þegar henn er orðinn níræður. Einnig hafa verið uppi kenningar um að umskornir séu hreinni í því neðra og fái því síður kynsjúkdóma og konur þeirra síður leghálskrabbamein, en þetta er umdeilt og ætti líka að vera auðleyst með því að kenna forhúðuðum á sápu og smokka.

Tilfinningar

Rök foreldra sem ákveða að láta skera son sinn snúast um trú, hefðir eða tilfinningar, og á vesturhveli eru það langoftast tilfinningarnar sem ráða ferðinni. Pabbinn vill að sonurinn hafi eins tippi og hann. Kannski hræðast foreldrar að drengurinn verði fyrir forhúðarstríðni ef hann er öðruvísi en félagarnir. Trúarbrögð eru algeng ástæða í aðeins fjarlægari löndum þar sem ríkja s.s gyðingdómur eða íslam. Á 18. öld var umskurður innleiddur í enskumælandi löndum í forvarnarskyni gegn sjálfsfróun, en þá vissu jú allir að hún ylli alls konar hræðilega hættulegum sjúkdómum… Ég held að við ættum nú að vera komin yfir það stig.

Tengslin

Rannsóknir hafa sýnt að umskurður nýbura hefur afdrifarík og marktæk áhrif á tengingu milli móður og barns t.d. með því að trufla verulega brjóstagjöf. Verkjalyf eru venjulega ekki gefin, nokkuð sem fullorðnum einstaklingi yrði aldrei boðið upp á, svo að fystu 7-10 dagana býr barnið við mikinn sársauka sem því er ómögulegt að tjá eða skilja. Það skiptir því ekki máli hversu mikið móðirin leggur sig fram, tengslamyndunin er alltaf í hættu.

Barátta

Þarfalaus skurður sveinbarna er yfir meðallagi ógeðslegur enda eru öflug baráttusamtök gegn fyrirbærinu starfandi t.d. í Bandaríkjunum þar sem hlutfallið er ennþá ótrúlega hátt. Fullorðnir menn leita líka í æ oftar til lýtalækna sem geta endurskapað forhúð á þá. Þó má ekki gleyma því að í vissum tilfellum getur verið nauðsynlegt að framkvæma umskurð t.d. ef forhúðin er of þröng eða í kjölfar alvarlegra sýkinga. Það er er annað mál en að fjarlægja fullkomlega eðlilegan vef sem hefur að auki mýmörg hlutverk í kynfæra- og kynlífsheilbrigði, og það af bjargarlausum börnum sem hafa ekkert um málið að segja.