Umferðaröryggi um verslunarmannahelgi

Verslunarmannahelgi er sú helgi ársins sem einna flestir leggja land undir fót og ferðast um þjóðvegi landsins. Allir leggja sig fram um að gera umferðina eins örugga og kostur er um þessa helgi, eins og reyndar alla daga ársins. Nokkur atriði skipta mestu máli til að koma í veg fyrir slys sem ástæða er til að minnast á.

Þegar alvarleg slys í umferðinni eru rannsökuð kemur í ljós, að það eru nokkur atriði sem skera sig úr og valda flestum slysum. Eitt er of mikill hraði miðað við aðstæður. Hámarkshraði á vegum landsins er 90 km/klst á vegum með buundnu slitlagi, en 80 á malarvegum. Sá hraði á hins vegar aðeins við þegar aðstæður eru eins og bestu verður á kostið. Sé vegur til dæmis mjög blautur eftir langvarandi rigningar er mikil hætta á að bíllinn taki að fljóta, sem getur leitt til þess að ökumaður missi algjörlega stjórn á honum með viðeigandi afleiðingum.

Annað þurfa ökumenn að hafa í huga, en það er að sýna fulla varúð við framúrakstur. Hann má aldrei eiga sér stað á blindhæð eða þar sem er heil óbrotin lína á vegi. Slík lína er aðeins þar sem ekki er hægt að sjá bíla sem koma á móti.

Slysarannsóknir hafa leitt í ljós að notkun öryggisbúnaðar af ýmsu tagi getur skipt öllu máli til að koma í veg fyrir að fólk slasist alvarlega ef umferðaróhapp á sér stað. Því miður vantar töluvert á að notkun bílbelta sé fullnægjandi, en það er eitt af þeim atriðum sem mestu máli skipta til að koma í veg fyrir að fólk slasist mjög alvarlega eða láti lífið í umferðarslysum. Þau eru fjölmörg tilvikin þar sem fólk í bílbeltum hefur slopiið nánast án meiðsla en þeir sem ekki hafa verið með þau spennt hafa látið lífið. Enginn vafi leikur á að bílbeltin geta bjargað mannslífum og þess vegna hafa flestar þjóðir krafist þess að notkun þeirra sé skylda, eins og raunin er hér á landi. Þá má heldur ekki gleyma því að börn mega ekki vera laus í bílum og að þau yngstu þurfa að njóta verndar barnabílstóla sem hæfa stærð þeirra og þroska. Börn mega aldrei sitja í framsæti bíls með öryggispúða, það er lífshættulegt. Og svo er einnig rétt að árétta að öryggispúðinn gerir ekki fullt gagn nema við séum líka með bílbeltin spennt.

Ferðalögum og skemmtunum um verslunarmannahelgi fylgir oft neysla áfengis, en allir þekkja þá grundvallarreglu að aldrei má aka bifreið eftir að hafa neytt áfengis. Enginn þarf að velkjast í vafa í þeim efnum, Eftir einn – ei aki neinn. Þeirri reglu eiga allir að fylgja. Sá sem lendir í óhappi eða slysi undir áhrifum áfengis er með því að fyrirgera rétti til bóta frá tryggingafélagi og tryggingafélagi ber skylda til að endurkrefja hann um það fjárhagslega tjón sem hann veldur og geta það verið umtalsverðar fjárhæðir. Einnig er ástæða til að geta þess að margir eru teknir að morgni daginn eftir drykkju og missa ökuréttindin af því að þeir átta sig ekki á hversu langan tíma tekur að losa sig við áfengið úr blóðinu.

Aðalatriði í umferðinni er að við veltum fyrir okkur ábyrgð okkar sem ökumenn. Við berum bæði ábyrgð á því sem við gerum sem bitnar á okkur, en ekki síður á því sem aðrir þurfa að líða vegna okkar aksturslags.

Vonandi verður verslunarmannahelgina farsæl í umferðinni. Vonandi komast allir heilir og glaðir heim.

Heimasíða Umferðarráðs