Umhirða brjóstanna

 • Sýking í brjósti – brjóstabólga

Á fyrstu vikunum eftir fæðingu fá um 10 til 20 prósent kvenna stíflu eða sýkingu í brjóstin. Með því að grípa strax inn í með viðeigandi meðferð má oft koma í veg fyrir slæma brjóstabólgu. Hér eru nokkur ráð sem hugsanlega hjálpa þér að fyrirbyggja þetta vandamál og þekkja einkenni þess og meðhöndla það rétt.

 • Orsakir

Þeir þættir sem helst valda brjóstabólgu eru:

 • áverkar á geirvörtu (sprungur og fleiður). Sár á geirvörtum koma vegna þess að barnið tekur brjóstið ekki nægilega vel
 • of mikil mjólkurmyndun á fyrstu vikunum á meðan mjólkurmagnið aðlagast þörfum barnsins
 • skyndilegar breytingar sem verða á fæðumynstri barnsins- brjóstin ná að yfirfyllast
 • þreyta, streita, kuldi og almenn vanlíðan sem orsakast af því að þú gleymir að hugsa nægilega vel um sjálfa þig.

 

 • Fyrirbygging

 

Geirvörtur – rétt álagning

Geirvartan á að vera eðlilega löguð þegar hún kemur út úr barninu eftir gjafir. Eðlileg byrjunareymsli eiga að líða hjá. Ef geirvörturnar virðast fara versnandi skaltu leita aðstoðar ljósmóður, læknis eða brjóstagjafarráðgjafa. Vandaðu hreinlætið og þvoðu ætíð hendur eftir bleiuskipti og áður en þú handleikur brjóstin.

Tæming brjóstanna

Eftir u.þ.b. 2 – 3 vikur má búast við að mjólkurmyndunin sé orðin jöfn þörfum barnsins og það drekki oftar en áður úr báðum brjóstum í sömu gjöfinni. Það er samt mikilvægt að gefa ekki seinna brjóstið fyrr en þú finnur að barnið sýgur hægar og kyngir sjaldnar. Skyndileg breyting á fæðumynstri barnsins (breyting á tímalengd við brjóstið) getur valdið því að mjólk sitji eftir í mjólkurgöngunum og það getur síðan leitt til brjóstabólgu.

Klæðnaður

Á Íslandi er nauðsynlegt að vera í skjólgóðum fatnaði, gæta þess að hann þrengi hvergi að brjóstunum (ekki nota spangarbrjóstahaldara) og að hvergi geti blásið upp með baki eða öxlum. Best er að vera í bómullar- eða ullarbol næst sér. Vertu alltaf í hlýjum sokkum og notaðu hanska og trefil þegar þú ferð út ef kalt er í veðri.

Fylgstu með brjóstunum

Strjúktu mjúklega yfir brjóstin eftir gjafir, sérstaklega eftir kvöldgjafir og ef barnið sleppir úr gjöf. Leitaðu eftir hvort nokkurs staðar séu aumir blettir eða þétt svæði á brjóstinu þar sem mjólk gæti setið eftir og skapað vandamál. Ef þú grípur tímanlega í taumana getur þú oftast komið í veg fyrir að smástífla verði að alvarlegri brjóstasýkingu.

Einkenni

Oft lýsir brjóstabólga sér með almennri vanlíðan, flensueinkennum og hitavellu en þú getur líka skyndilega orðið fárveik með háan hita. Oft verður brjóstið, eða hluti þess, rautt og heitt.

 

 • Meðferð veika brjóstsins

 

Hiti

Settu heitan bakstur (blautan þvottapoka eða bleiu) á veika brjóstið í 10 til 15 mínútur eða farðu í heita sturtu áður en þú gefur.

Nudd

Strjúktu brjóstið mjúklega í átt að geirvörtunni meðan þú gefur. Settu nokkra dropa af matarolíu á fingurna til að þú fáir ekki núningssár á húðina.

Tæmdu brjóstið

Vektu barnið til að drekka eða handmjólkaðu um leið og þú verður vör við eymsli í brjósti.

Gefðu brjóstið þannig að haka barnsins vísi að auma svæðinu ef hægt er.

Gefðu veika brjóstið fyrst í gjöfinni og a.m.k. næstu tvær gjafir á eftir og reyndu að fá barnið til að sjúga það brjóst sem lengst. Handmjólkaðu úr hinu brjóstinu ef þér finnst mikil mjólk í því.

Þetta er ekki rétti tíminn til að venja barnið af brjósti. Þú verður að halda brjóstagjöfinni áfram til að vandamálið leysist fyrr.

Hvíld

Þú ert með sýkingu svo þú verður að gefa líkamanum tækifæri til að berjast gegn henni með því að:

 • hvílast
 • þiggja alla hjálp sem þér býðst
 • drekka mikið
 • borða hollan mat
 • draga úr reykingum, ef þú reykir.

Fylgstu með brjóstinu eftir gjöf

Skoðaðu brjóstin vandlega og ef enginn bati hefur orðið á sólarhring hafðu þá samband við ljósmóður, lækni eða brjóstagjafarráðgjafa á næsta sjúkrahúsi eða heilsugæslustöð.

Sýklalyf.

Ef einkennin vara lengur en sólarhring getur reynst nauðsynlegt að taka sýklalyf. Það lyf sem virkar yfirleitt best er Cloxacillin (Staklox) og er það gefið í 7 til 10 daga. Hafir þú Penisillínofnæmi er lyfið Erythromycin gefið. Mikilvægt er að taka lyfið rétt og klára allan skammtinn til að hindra að sýkingin taki sig upp. Þessi lyf skaða ekki barnið.

Mundu að þetta er ekki rétti tíminn til að venja af brjósti

Ef þú ert byrjuð að venja barnið af brjósti er mikilvægt að fresta því á meðan sýkingin gengur yfir. Farðu þá hægt í að draga úr fjölda gjafa og gættu þess að brjóstin verði aldrei óþægilega full.

Ef meðferðin gengur illa eða sýkingin er viðvarandi getur þurft að þurrka brjóstin upp, en það er mjög sjaldgæft.

Unnið í desember 1995 af Dagnýju Zoega, hjúkrunarfræðingi og brjóstagjafarráðgjafa á Kvennadeild Landspítalans upp úr einblöðungi sem The Royal Hospital for Women, Paddington, New South Wales í Ástralíu dreifir til kvenna við útskrift af sjúkrahúsinu.

Heimildir:

The Royal Hospital for Women, Paddington NSW. Caring for your breasts during breastfeeding and preventing mastitis.

Evans M, Heads J 1995, Mastitis: incidence, prevalence and cost. Breastfeeding Review 3(2): 65-71.

Foxman B, Schwartz K, Looman SJ 1994, Breastfeeding practices and lactation mastitis. Soc Sci Med 38(5): 755-761.