Ungbarnamatur – þarfir barnsins

Af matnum stækkum við

Öll börn þurfa ást, umönnun, hvíld og góða næringu til að þrífast og þeim líði vel. Engin tvö börn eru eins eða hafa nákvæmlega sömu þarfir. Öll börn eru einstök og þegar ný manneskja kemur í heiminn þurfum við að kynnast henni sem einstaklingi. Til að byrja með getur verið erfitt að túlka öll merki, sem þau gefa, en það kemur smám saman. Stundum geta það verið merki um hungur eða þorsta en barnið getur líka haft aðrar þarfir. Það er mikilvægt að vera meðvitaður um að fólk er ekki eftir uppskrift, börn ekki heldur.

Hvenær á barnið að fara að borða mat?

Fyrstu fjóra mánuðina þarf barnið ekki aðra fæðu en móðurmjólkina eða þurrmjólk. Önnur fæða er ekki aðeins óþörf heldur einnig beinlínis skaðleg fyrir börn á þeim aldri.

Ef þú ert með barnið á brjósti og hefur áhyggjur af að það fái ekki næga mjólk er lang best að leggja það oftar við brjóstið og gefa því úr báðum brjóstum við hvert mál til að örva mjólkurframleiðsluna. Ef þér finnst það ekki ganga eftir skaltu að hafa samband við hjúkrunarfræðinginn áður en þú ferð að gefa barninu annan mat. Barn getur hæglega grátið af öðru en hungri og þorsta.

Þegar barnið er orðið 4-6 mánaða er hægt að fara að gefa því svolitla fasta fæðu.

Hvað á barnið þitt að fá að borða þegar það er 4-6 mánaða?

Haltu áfram að gefa því brjóst eða mjólkuduft eins og áður en það má líka gefa því annan mat.

Þegar barnið er orðið 4-6 mánaða getur verið ágætt að byrja að kynna því vissar fæðutegundir til að venja það við bragðið af öðru en mjólk.

Þú getur gefið því hrísmjölsgraut, soðnar maukaðar gulrætur, kartöflumús, rifið epli, stappaðan banana, útþynnta sólberja- og eplasaft.

Þegar þú byrjar að gefa barninu nýjan mat skaltu byrja með pínulitla skammta. Ein teskeið nægir í fyrsta sinn. Síðan geturðu smátt og smátt aukið skammtinn upp í 3-4 matskeiðar. Ráðlegt er að gefa brjóst áður en þú reynir að gefa því nýjan mat því að ef það er of svangt getur verið að það sé ekki til í að prófa eitthvað nýtt. Láttu alltaf líða nokkra daga áður en þú gefur því nýjan mat aftur.

Grænmeti og kartöflur á að hreinsa vel eða flysja áður en það er soðið. Aðeins á að sjóða matinn nægilega til að hægt sé að mauka hann. Ágætt er að mýkja maukið með svolitlu af grænmetissoðinu og nokkrum dropum af matarolíu. Ef maturinn er of grófur má þrýsta honum gegnum sigti. Ekki er æskilegt að salta ungbarnamatinn þar eð aðeins þarf örlítið salt til að raska saltjafnvægi barnsins.

Epli má ýmist sjóða og mauka eða skafa fínt með teskeið. Banana má stappa með gaffli.

Hrísmjöl, sem er sérstaklega ætlað ungbörnum fæst í pökkum. Það hrísmjöl hentar sérlega vel, enda er það járnbætt og á að matreiða það samkvæmt uppskriftinni á pakkanum. Þú getur bragðbætt það með því að bæta út í það smá brjóstamjólk eða þurrmjólk. Ekki er mælt með venjulegri nýmjólk fyrr en eftir sex mánuði vegna ofnæmishættu.

Ekki láta hugfallast þótt barnið gretti sig og spýti matnum út úr sér þegar það bragðar á einhverju nýju. Það þarf ekki endilega að þýða að barninu mislíki maturinn, barnið er bara að tjá sig um að það hafi fengið framandi bragð í munninn.

Hvað á að gefa 6-8 mánaða barni að borða?

Ráðlegt er að halda áfram að hafa barn á brjósti á meðan verið er að venja það á nýjar fæðutegundir.

Grautur og mjólk er undirstöðumatur. það má gefa barninu graut 1-2 sinnum á dag. Ágætt er að byrja með graut úr byggi, höfrum, rúgi og hirsi og halda sig við járnbættar afurðir áfram.

Nú má barnið líka fá venjulega nýmjólk og er tímabært að kenna því að drekka úr bolla. Ekki má gefa nýmjólk ef ofnæmi er í fjölskyldunni, þá þarf að bíða þar til barnið er orðið ársgamalt.

Barnið má einnig fá hreina jógúrt og súrmjólk. Kartöflumús, gulrætur, spergilkál, blómkál, maís og grænar baunir henta vel. Maukuð epli, perur og bananar eru ásamt sólberjasaft og eplasafa einnig viðeigandi. Af feitmeti má nota matarolíu, smjör og smjörlíki.

Hvað á 8-12 mánaða barn að fá í matinn?

Barnið má nú fá flestan hollan mat svo framarlega sem hann er ekki of saltur. Barnið getur nú borðað flest það sama og aðrir í fjölskyldunni.

Maturinn þarf ekki lengur að vera maukaður. Það er nóg að stappa hann létt með gaffli eða skera hann í litla bita. Nú þarf barnið að venjast venjulegum mat. Það þarf að æfa sig í að tyggja og kyngja grófari mat en mauki.

Barnið má nú gjarnan fá kjöt, fisk og egg. Það má borða brauð og appelsínur.

Tilbúinn keyptur matur er ekki hentugur fyrir smábörn vegna þess að hann er saltur.

Barnið þitt á að halda áfram a ð drekka nýmjólk, ekki léttmjólk eða undanrennu, þar eð það þarf á fitu að halda til að þroskast eðlilega.

Sælgæti og sætmeti eyðileggur tennurnar og veldur leiðinda matarvenjum. Ef þú vilt bragðbæta grautinn geturðu bætt út í hann eplamauki eða sólberjasaft.

Mundu að barnið verður að fá tækifæri til að venjast margs konar mat og það þarf að venjast fjölbreyttum, hollum mat.