Unglingabólur

Efnisyfirlit

Hvað eru unglingabólur (acne vulgaris)?

Bólur (acne) eru mjög algengur húðkvilli, sem nær allir unglingar eru móttækilegir fyrir. Orsökin er bólga í fitukirtlunum sem umlykja hársekki líkamshára í andliti og á efri hluta líkamans. Bólur eru algengastar og ná hámarki sínu um 17-19 ára aldurinn, eftir þann aldur minnka þær jafnt og þétt hjá flestum og hverfa yfirleitt um 25 ára aldurinn. Þó geta viðkvæmir einstaklingar glímt við vandann fram til fertugs.

Auk þess fá konur oft bólur fyrir tíðir og á meðgöngu. Bólumyndun getur einnig átt sér stað við mikinn kulda, hita eða mengun.

Hvernig verða bólur til?

Á gelgjuskeiðinu eykst framleiðsla líkamans, hjá báðum kynjum, á karlhormónum (andrógen). Þetta leiðir til aukinnar framleiðslu á húðfitu í fitukirtlum. Hjá sumum einstaklingum eru fitukirtlarnir mjög næmir fyrir karlhormónum og því verður fitumyndunin meiri. Þessir einstaklingar sem í flestum tilvikum eru karlkyns, verða oft mjög bólugrafnir og nauðsynlegt er að leita læknishjálpar.

Við aukna framleiðslu á húðfitu þrengjast op fitukirtlanna svo að erfiðara er fyrir húðfituna að komast út, samt sem áður verður ekkert lát á framleiðslunni og því bólgna fitukirtlarnir.

Það sem veldur bólunum er húðbaktería (propionebacterium acnes) sem nærist á húðfitu. Við niðurbrot húðbakteríanna á húðfitunni myndast úrgangsefni og fitusýrur sem erta fitukirtlana og bólga myndast. Í fyrstu myndast viðkvæmir rauðir nabbar, sem verða síðan að bólum  sem innihalda niðurbrotna húðfitu. Bólgan stendur yfir í nokkra daga allt að nokkrum vikum eftir stærð hennar.

Margar og stórar bólur geta skilið eftir sig ör sem einstaklingurinn ber alla ævi. Bólur geta haft mikla andlega vanlíðan í för með sér auk félagslegra vandamála. Því er mikilvægt að bregðast skjótt við og leita meðhöndlunar ef vandinn er mikill.

Hvað eykur á vandann?

  • Raki, fita, olía og önnur efni í vinnuumhverfi.
  • Streita, þ.e. vanlíðan og sjálfsóánægja.
  • Ef bólurnar eru kreistar og fiktað er mikið í þeim.
  • Tíðablæðingar
  • Sum lyf og önnur efni.

Hvað er til ráða?

  • Ekki nudda húðina, eða skrúbba hana, það eykur hættuna á að húðin versni.
  • Þvo hárið reglulega með sjampói og varast að það sé mikið í snertingu við andlitið.
  • Skiptið oft um koddaver.
  • Vara sig á að meðhöndla bólurnar of mikið og alls ekki kreista þær. Það skilur eftir sig ör.
  • Vara sig á miklum kulda, hita og sólarbirtu. Sólarbirta getur haft góð áhrif á bólurnar tímabundið en heldur þeim ekki alveg niðri. Þar að auki valda of miklir sólargeislar húðskaða og jafnvel krabbameini.
  • Nota rakakrem, sólarvörn og snyrtivörur sem innihalda ekki mikla fitu og stífla þar með ekki svitaholur húðarinnar.
  • Engar vísindalegar sannanir eru fyrir því að ákveðnar fæðutegundir valdi bólum. Ef viss fæðutegund veldur bólumyndun hvað eftir annað, t.d. tómatar, rækjur, súkkulaði eða ostur er best að láta hana eiga sig.
  • Borða hollt og fjölbreytt fæði, drekka mikið vatn og hreyfa þig reglulega. Almenn vellíðan eykur vellíðan í húðinni
  • Hægt er að leita leiðbeininga varðandi umhirðu húðarinnar hjá snyrtisérfræðingi, s.s. á snyrtistofum.
  • Hreinsivörur sem keyptar eru án lyfseðils bera yfirleitt ekki árangur fyrr en eftir 6-8 vikna notkun.

Hvenær á að leita til læknis?

  • Ef hreinsivörurnar bera ekki tilætlaðan árangur eftir 6-8 vikur.
  • Ef bólurnar valda hugarangri.
  • Ef bólurnar eru stórar og aumar.
  • Ef bólurnar skilja eftir sig ör.
  • Ef húðin dökknar og bólurnar skilja eftir sig dökka bletti.

Hver er meðferðin?

Það fer eftir eðli kvillans hvort heimilislæknir meðhöndlar hann eða vísar á húðsjúkdómalækni. Meðferðin getur falist í áburði eða töflum. Meðferðin beinist að orsökinni, þ.e. aukinni framleiðslu á húðfitu, þrengingu á opi fitukirtlanna og bakteríunni sjálfri. Samfara meðferðinni er gott að fylgja framangreindum ráðum um daglega umhirðu húðarinnar. Þó þarf að hafa í huga að meðferðin tekur tíma. Áhrifa meðferðar gætir yfirleitt ekki fyrr en eftir 6-8 vikur.

Oft nægir  að nota lyf sem koma í veg fyrir að op fitukirtlanna þrengist og þau halda bakteríunni niðri.

Ef vandamálið er stórvægilegt getur læknir notað sýklalyf með ofangreindum lyfjum, eða notað það eitt og sér.  Með langvarandi notkun sýklalyfja  er hætta á að bakterían verði ónæm fyrir því.

Ef kvillinn veldur fullvaxta konum óþægindum getur hjálpað að taka inn getnaðarvarnarpillu með efnum sem virka á móti karlhormónum. Konur með bráðan nýrnasjúkdóm mega ekki nota þessa tegund af getnaðarvarnarpillu.

Ef um er að ræða alvarlegt vandamál er hægt að gangast undir langtímameðferð. Þá eru notuð öflugri lyf  samfara ofangreindri lyfjameðferð. Slík meðferð er oftast í umsjá húðsjúkdómalæknis.

Er hægt að fjarlægja ör eftir bólur?

Ef bólur skilja eftir sig ör er hugsanlega hægt að draga úr þeim,en það er gert sérstökum áburði eða leysigeislameðferð. Læknar og hjúkrunarfræðingar veita þessa háttar meðferð. Snyrtifræðingar geta einnig að einhverju leyti dregið úr örum.

Greinin  var uppfærð 27.apríl 2020 af Guðrúnu Gyðu Hauksdóttur, hjúkrunarfræðingi

Höfundur greinar