Uppskrift að gleðilegum jólum.

Hver er eiginlega leyndardómurinn á bak við gleðileg jól? Við því er auðvitað ekkert eitt rétt svar, eins og hver og einn veit sem hefur lagt sig fram um að halda jólin hátíðleg. Maður skyldi reyndar ætla að það væri fullt af sérfræðingum um þetta málefni úti í samfélaginu, því að undanförnu hefur pósturinn varla haft undan að bera í okkur „upplýsingar“ um það frá hinum og þessum aðilum úti í bæ, hvernig við eigum að ná gleðinni í hús um jólin. Yfirleitt er sú gleði talin felast í því að kaupa eitthvað dót hvort sem við höfum nú efni á því eða ekki. Sumum text reyndar að halda gleðileg jól án þess að láta sig ráð auglýsenda og sölumanna nokkru skifta. Aðrir eiga í erfiðleikum með jólin og jólagleðina.

Hvað sem því líður þá langar mig til þess að benda ykkur á allt aðra leið. Hún felst í því sem ég kalla „uppskrift að góðri jólahátíð“. Ég hef búið hana til upp úr hinum og þessum samtölum sem ég hef átt við fólk út um borg og bý á undanförnum árum. En þó margir hafi komið með ábendingar að því hvað flest í jólagleðinni, þá eru samt flestir ótrúlega mikið á sama máli um þessa uppskrift, bæði hvað þarf í hana og hvernig eigi að matreiða hana til þess að úr verði gómsætur og vellukkaður réttur. Ef ykkur líst vel á hana mæli ég með því að þið skellið ykkur í baksturinn. Forsendan fyrir því að uppskriftin heppnist vel er reyndar sú að allir sem ætla að halda jól saman komi með hráefnið í kökuna. Það verða auðvitað líka allir að taki þátt í því að baka hana, leggja sitt að mörkum. En hér kemur þá uppskriftin;

 • 2 bollar af ást (fyrir alla).
 • 2 bollar af trausti (milli ástvina).
 • 4 bollar af tíma, næði og ró.
 • 4 bolli umhyggja (fyrir þeim okkar sem eru einmana, sorgmædd og sjúk).
 • 4 dl. húmor (til að brosa að óréttlæti og spillingu samfélagsins okkar )
 • 175 g mjúk vinátta (tölum saman um það sem skiftir máli)
 • 1 1/2 dl. fyrirgefning, gefin og þegin (byrjum á okkur sjálfum)
 • 3 stórar matskeiðar af virðingu (fyrir okkur sjálfum og öðrum).
 • 2 tsk. gagnkvæmur skilningur (á því hvernig öðrum líður í ástvinahópnum)
 • 2 tsk jákveðni
 • Stór slatti af hrósi (sérstaklega ef við höfum ekki hrósað hvort öðru
 • lengi)

AÐFERÐ:

Hrærið öllu varlega saman í góðri skál. Skálin er það umhverfi sem þið hafið búið ykkur og það rúm sem þið gefið hvort öðru í lífinu. Ætlið ykkur góðan tíma því annars er hætta á að eitthvað af þurrefnunum gleymist eða hlaupi í kekki. Farið varlega með að bæta áfengi í uppskriftina. Best er að sleppa því alveg. Hellið í fat eða ílát sem ykkur þykir öllum vænt um. Bakist í vinalegu umhverfi og eins lengi og þurfa þykir. Hægt er að krydda og skreyta kökuna allt eftir smekk . Það breytir ekki sjálfri kökunni, en útkoman verður skemmtilegri og persónulegri. Ekki skaðar krem með tilbreytingu að eigin vali. Munið að tala saman um baksturinn, því annars brennur allt við í ofninum.

Berist fram í tíma og ótíma við ljós Jesú Krists, og með bros á vör.

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU- OG GLEÐILEG JÓL.

Sr.Þórhallur Heimisson