Útferð úr brjóstum

Spurning:

Ég er 23 ára kona og ég var að skoða á mér brjóstin, kreisti þau og úr hægra brjóstinu kom gulhvítleitur vökvi, ekki klístraður og lyktarlaus. Ég hef ekki haft neina verki í brjóstinu eða neitt þvíumlíkt og ég er á pillunni, en, hef ekki tekið þungunarpróf. Hvað getur þetta verið?

Með fyrirfram þökk.
Áhyggjufull

Svar:

Algengast er að þegar lyktarlaus gulhvítur vökvi lekur úr brjóstum sé það vegna röskunar á hormónajafnvægi í líkamanum. Það er vel þekkt að konur sem taka getnaðarvarnartöflur fái útferð úr brjóstum, ekki valda þó allar getnaðarvarnartöflur þessu og því hefði verið gott að fá að vita hvaða tegund þú ert að taka. Þetta getur einnig sést eftir að töku getanaðar- varnataflna er hætt. Ýmis önnur lyf eru einnig þekkt að því að geta valdið útferð úr brjóstum. Æxli í brjóstum geta valdið útferð, en það er þó afskaplega ólíklegt að sú sé ástæðan hjá 23 ára gamalli konu, en samt er mikilvægt að brjóstin séu skoðuð vandlega til að útiloka að svo sé. Önnur þekkt ástæða fyrir útferð úr brjóstum eru svokölluð Prólaktínframleiðandi æxli í heila, þetta eru góðkynja æxli sem framleiða hormónið prólaktín sem annars er framleitt þegar kona er banshafandi og með barn á brjósti og hvetur mjólkurframleiðslu. Til að útiloka að svo sé þarf að taka blóðprufu og rannsaka hormónamagnið. Þegar prólaktín er hækkað hætta konur hinsvegar yfirleitt að hafa blæðingar, en þú minnist ekki á að svo sé. Það er þó alltaf mikilvægt þegar kona verður vör við útferð úr brjósti eða brjóstum að leita læknis. Ég ráðlegg þér að gera þungunarpróf til að útiloka að þú sért barnshafandi og ef svo er ekki að hafa þá samband við heimilislækninn þinn með frekari skoðun í huga.

Gangi þér vel.

Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir.