Verður höfuðið á barninu þínu öruggt í sumar?

Reiðhjólahjálmar hafa verið notaðir hér á landi í mörg ár og hafa löngu sannað gildi sitt. Allar rannsóknir sýna fram á að þeir verja höfuð vel, jafnvel í alvarlegum umferðarslysum.

Opinberir aðilar og félagasamtök beittu sér fyrir lagasetningu um notkun hjálma við hjólreiðar fyrir nokkrum árum. Skömmu síðar tóku gildi lög sem kveða þau á um að öll börn undir 15 ára skuli nota hjálma. Hjálmurinn er reyndar svo sjálfsagður öryggisbúnaður að allir ættu að nota hann, börn og fullorðnir.

Nú eru börnin okkar komin út í vorið á hjólunum sínum en því miður er áberandi hversu fá börn nota hjálma þrátt fyrir þrotlausan áróður. Í seinni tíð er líka algeng sjón að sjá börn þjóta um á línuskautum, hlaupahjólum og hjólabrettum. Á þessum farartækjum er ekki síður nauðsynlegt þau noti hjálma. Að auki er mikilvægt að þau noti olnbogahlífar, hnéhlífar og úlnliðshlífar við þessa leiki. Margir gera sér ekki grein fyrir því að flest börn sem slasast á þessum fartækjum detta illa og sum þeirra hljóta alvarlega áverka. Það eru ekki bara að börn, sem verða fyrir bíl, sem slasa sig alvarlega. Börnin mega því ekkert frekar vera hjálmlaus þótt þau séu fjarri umferðargötum.

Ábyrgð foreldra

Þótt börn noti hjálm er samt sem áður ekki óhætt fyrir þau að hjóla úti í umferðinni fyrr en þau hafa náð 12 ára aldri. Einnig er mikilvægt að foreldrar hafi kennt börnunum umferðareglurnar og gæti þess að þau fari alltaf eftir þeim. Mörg alvarleg slys verða líka vegna þess að hjól eru biluð og illa við haldið. Nauðsynlegt er að fara yfir allan búnað reglulega.

Til að reiðhjólahjálmur verji höfuðið þarf hann að vera rétt stillur. Hann þarf að verja enni og hnakka og sitja þétt að höfðinu. Ekki má nota húfu undir hjálmi, því ef barn dettir af hjóli getur hjálmurinn færst til þegar það lendir í götunni og veitir hann þá síðri eða enga vörn. Best er að nota þunna lambhúshettu eða eyrnaskjól sem fest eru á bönd hjálmsins.

Það er margt annað sem huga þarf að varðandi reiðhjólahjálma og öryggisbúnað. Á heimasíðu Árvekni, (www.arvekni.is ) er að finna upplýsingar um þetta efni og slysavarnir barna almennt.

Landlæknisembættið og Árvekni hvetja alla foreldra til að beita sér fyrir því að börn noti alltaf hjálm þegar þau hjóla

.

 

Höfundur greinar