Viðbrögð við eitrun og ætingu

Eitrunarmiðstöð hefur verið starfrækt á Sjúkrahúsi Reykjavíkur síðan í desember 1994. Starfsemi hennar er margþætt, en eitt af aðalhlutverkum hennar er að veita upplýsingar um eiturefni, einnig ráðgjöf um viðbrögð og meðferð þegar einhver verður fyrir eitrun. Símaþjónusta opin öllum, þar sem fagfólk veitir ráðgjöf, er starfrækt allan sólarhringinn. Síminn er 525 1111.

Börn og eitrun

Á árinu 1999 bárust Eitrunarmiðstöðinni liðlega 500 fyrirspurnir vegna barna 6 ára og yngri sem höfðu orðið fyrir eitrun. Oftast verða börn fyrir eitrun á heimilum, en á venjulegu heimili er að finna ótal efni sem geta valdið eitrun. Má þar nefna ýmiss konar hreinsiefni t.d. þvottaefni fyrir uppþvottavélar sem eru mjög sterk og hættuleg, bleikiefni (klór), salmíakspíritus (ammóníak), ofnahreinsiefni,grillvökva, aseton, plöntur, lyf, ilmvötn, rakspíra, sótthreinsispritt, terpentínu, frostlög og þannig mætti lengi telja.

Þegar litið er á þau lyf sem valda oftast eitrun hjá börnum kemur í ljós að oft er um að ræða flúortöflur, verkjalyf, járn og vítamín sem fólk lítur gjarnan á sem hættulaus efni og geymir því oft á stöðum sem börn hafa greiðan aðgang að.

Forvarnir

Í langflestum tilvikum mætti koma í veg fyrir eitrun hjá börnum með einföldum forvörnum, svo sem að geyma hættuleg efni og lyf þar sem börn ná ekki til þeirra. Einfalt og gott ráð er að ganga um íbúðina sína og huga að því hvar hættuleg efni eru geymd. Er uppþvottaefnið undir eldhúsvaskinum? Er vítamínið uppi á eldhúsborði? Í framhaldi af því er öllum hættulegum efnum og lyfjum komið fyrir á öruggum stöðum, þar sem börn geta ekki náð í þau. Annað atriði sem má nefna er að aldrei má setja hættuleg efni í ílát sem notuð eru undir matvæli. Mörg alvarlegustu eitrunartilvikin verða með þeim hætti að hættuleg efni hafa verið sett í umbúðir utan af matvælum.

Eitrun: bregðast þarf skjótt við?

Ef einhver verður fyrir eitrun skiptir mestu að brugðist sé skjótt og rétt við til að koma megi í veg fyrir alvarlegar afleiðingar. Í mörgum tilfellum má leysa málið heima með leiðbeiningum frá starfsfólki Eitrunarmiðstöðvarinnar án þess að til frekari meðferðar þurfi að koma. Eitrunarmiðstöðin hefur í samvinnu við Delta hf. látið prenta límmiða með merki og símanúmeri stöðvarinnar til að setja á símtæki, þannig er símanúmerið ætíð tiltækt þegar á þarf að halda. Límmiðunum var á sínum tíma dreift á heimili leikskólabarna með sérriti frá Slysavarnarfélagi Íslands, Vörn fyrir börn, og er þar fjallað um eitrun. Límmiðana er einnig hægt að nálgast á heilsugæslustöðvum. Eitrun og æting – hvernig bregðast á við þeim

Í AUGU

Ef efni berst í augu er mikilvægt að skola það burt sem fyrst.

Augnskol: Nota skal vatn og fá einhvern til að hjálpa til ef hægt er, mikilvægt er að halda auganu opnu en tilhneiging er til að loka því þegar eitthvað hefur farið upp í það.

Nota skal þægilega volgt vatn, fyllið hreint ílát t.d. bolla, halda auganu opnu og halla höfðinu aftur og til hliðar og láta vatnið renna frá augnkrók þvert yfir augað.
Halda skal áfram í 15 mínútur.

INNTAKA

Þynning er ráðlögð ef um er að ræða ertandi efni fyrir slímhúð í munni og hálsi t.d. sápur, hreinsiefni og ýmis súr eða basísk efni.
Meta skal hvert tilfelli fyrir sig.

Ef alvarleg einkenni eins og slæmur verkur í vélinda eða maga eða öndunarerfiðleikar gera vart við sig á strax að leita læknishjálpar. Í slíkum tilfellum er hætta á að efnið hafi brennt gat í vélinda eða maga og getur þá verið hættulegt að drekka eða borða. Ef þessara einkenna verður ekki vart skal drekka 1-2 glös af vatni eða mjólk.

Gæta skal þess að þröngva aldrei vökva ofan í fólk.

ATH

Ef um er að ræða inntöku á lyfjum getur þynning orðið til hins verra. Rannsóknir hafa sýnt að þynning með vatni getur aukið styrk ýmissa lyfja í plasma og þannig aukið eituráhrif þeirra.

Að drekka eða borða eftir lyfjainntöku getur flýtt ferð lyfsins gegnum meltingarveginn þannig að erfiðara verður að framkvæma magatæmingu.

UPPKÖST

Uppköst eru aldrei ráðlögð í heimahúsi nema í sérstökum tilfellum (alltaf í samráði við eitrunarmiðstöð eða lækni). Ef uppköst eiga sér stað þarf að gæta að stöðu sjúklings s. s. að hann liggi alls ekki á bakinu.

INNÖNDUN

Koma skal sjúklingi í ferskt loft og losa um föt sem þrengja að.

Á HÚÐ

Skola með miklu vatni og mildri sápu, fjarlægja föt