Vort daglegt brauð

Mataræði veigamikill þáttur í vellíðan skólabarna

Skóladagurinn er að lengjast og mörg börn borða ekki heima hjá sér fyrr en kemur að kvöldmat. Góð næring hefur áhrif á líðan og getu barnanna í skólanum og því er mikilvægt að huga vel að nestisgerðinni.

Að undanförnu hefur vinnuhópur hjá Fræðsluráði Reykjavíkur unnið að úrbótum matarmála barna í skólum. Misjafnt er hvað skólar gefa börnum kost á að kaupa í matartímum. Í mörgum skólum þurfa börnin enn að koma með nesti fyrir allan daginn. Síðastliðinn vetur var boðið uppá heitar máltíðir í um 15% skóla á höfuðborgarsvæðinu.En hvað borða íslensk skólabörn yfir daginn? Kannanir sýna að yngstu börnin eru duglegust að koma með nesti í skólann en þegar þau eldist virðist heimatilbúnu nestispökkunum hins vegar fara fækkandi.

Hvað borðar íslensk æska?

Könnun á mataræði ungs skólafólks á aldrinum 9 til 14 ára, sem gerð var á árunum 1992-1993, sýndi að skortur á nauðsynlegum næringarefnum er ekki algengur hér á landi þó svo að margt mætti betur fara varðandi mataræði margra barna og unglinga.

Helsta einkenni á fæði barna og unglinga er mikil sykurneysla. Að meðaltali voru börnin að fá 96 g af sykri á dag þar sem rúmur helmingur kom úr gosdrykkjum og sykruðum svaladrykkjum, en meðalneysla slíkra drykkja er um hálfur lítri á dag. Börn og ungingar borða að jafnaði fituminna fæði en fullorðnir, þau smyrja brauðið sitt minna og nota gjarnan minni feiti með mat sem er jákvætt. Mjólkurneysla, og þar með kalkinntaka, er rífleg, en þó fær fimmta hver unglingsstúlka minna en ráðlagðan dagskammt af kalki enda minnkar mjólkurneysla þegar þær komast á unglingsár.

Unglingarnir mættu borða meira af brauði og skera niður neyslu á kexi og kökum sem er rífleg. Grænmeti og ávextir sjást varla á diskum þessa unga fólks. Mikilvægi morgunverðar kom í ljós í könnuninni; þeir sem borða morgunverð flesta eða alla daga fá 50% meira af flestum nauðsynlegum næringarefnum borið saman við hina sem sleppa oftast morgunverði.

 • Nestisbox Inga Kristjáns og Guðrúnar Höllu
Doktor.is ræddi við tvö skólabörn, þau Inga Kristján Sigurmarsson (9 ára) og Guðrúnu Höllu Guðnadóttur (9 ára), um morgunmatinn, nestisbitann og kvöldmatinn.Aðspurð hvort þau hlakki til að byrja aftur í skólanum jánka þau bæði en þó með votti af kærluleysislegum blæ enda sjóuð að setjast á skólabekk fjórða árið í röð.

Þrátt fyrir þriggja mánaða skólahlé þurfa þau ekki að hugsa sig lengi um og svona lítur „týpískur“ matseðill á skóladegi út hjá þeim.

Matseðlar Inga Kristjáns og Guðrúnar Höllu

Ingi Kristján, 9 ára

Hvað borðar þú venjulega í morgunmat?

 • Gróft morgunkorn með fjörmjólk

Morgunnesti

 • 1/4 lítri sólberjasafi (blandað þykkni)
 • Flatkaka með smjöri og osti
 • Jarðarber, epli eða rauð paprika til að narta í.

Hádegismatur

 • Abt-mjólk (jarðaberja) með múslí
 • Rófubiti (ég er brjálaður í rófur) EÐA Pakkapasta sem mamma eldar (ég er nefnilega líka brjálaður í pasta)
 • Eitt glas blandað djúsþykkni

Síðdegisnesti

 • Eitt glas af blönduðu djúsþykkni eða eplasafi
 • Heilhveitibrauðsneið með smjöri og osti
 • Eplabiti og gulrót

Svo er rosa gott að fá einn „klessusnúð“ eða sætt kex í eftirmat

Hvað myndir þú kjósa að fá í kvöldmat?

Spaghettí Bolognese (annað hvert kvöld og hitt kvöldið Spaghettí Pestó)

 • Drykkur með kvöldmat:

Vatn (búið að innleiða það heima sem reglu)

Guðrún Halla, 9 ára

Hvað borðar þú venjulega í morgunmat?

 • Gróft morgunkorn með nýmjólk

Morgunnesti

 • 1/4 lítri Trópí
 • Heilhveitibrauðsneið með skinku og osti
 • 1/2 kíví eða epli

Hádegismatur

 • Engjaþykkni (vanillu) með múslí
 • Fersk bláber (namm! en auðvitað gengur það ekki alltaf, þá fæ ég annan ávöxt eða ferskt grænmeti)
 • 1/4 lítri Trópí

Síðdegisnesti

 • Ostaslaufa
 • Mjólkurglas
 • Gulrót

Og stundum setur mamma kleinu eða kex með

Hvað myndir þú kjósa að fá í kvöldmat?

Mexíkóskan mat sem mamma eldar. Það er svona pönnukaka sem hún fyllir með grænmeti, nautahakki, osti, salsasósu og sýrðum rjóma.

 • Drykkur með kvöldmat:

Vatn

 

Matseðlar barnanna

 

Þetta eru ágætis matseðlar hjá báðum börnunum. Flest bætiefni eru í nægjanlegu magni. Það sem helst er hægt að setja út á er viðbættur sykur, sérstaklega þegar börn drekka sykraða safa. Börn á skólaaldri þurfa mikið kalk þannig að Léttmjólk eða Undanrenna er miklu betri kostur en sykraðir svaladrykkir. Hreinir safar eru hollari en sykraðir drykkir en þeir geta skemmt tennur engu síður en aðrir sætir drykkir. Vatn skemmir ekki tennur og er þar af leiðandi besti svaladrykkurinn – sérstaklega milli mála.

Verið getur að Ingi Kristján hafi aðeins vanmetið matarlystina því orkuþörf hans verður varla mætt með þessum matseðli – nema hann borði sérstaklega stóra skammta.

Það sem hins vegar vantar á báða matseðlan er lýsi. Lýsi gefur okkur mikið af D-vítamíni sem er eina vítamínið sem erfitt er að fá í nægu magni úr mat. D-vítamín er nauðsynlegt til að nýta kalk úr mjólkinni, en kalk er nauðsynlegt fyrir bein og tennur.

Snakk milli mála

Ef við verðum svöng milli mála þá er engin ástæða til að velja eitthvað óhollt bara út af því að það er ekki matartími. Fáum okkur ávöxt, grænmetisbita, mjólkurglas, brauðsneið eða hrökkbrauð með áleggi. Allt eru þetta góðir millibitar sem veita okkur um leið nauðsynleg næringarefni. Forðist að velja kex, kökur eða sælgæti – slíkt gefur einungis orku, inniheldur mikinn sykur sem skemmir tennur og veitir okkur ekki góða næringu.

Til foreldra

 • Vitið þið hvað börnin ykkar eru að borða yfir daginn?
 • Eru þau með gott nesti með sér í skólann?
 • Kaupir barnið þitt gos og snúð í hádeginu?

Það erum við foreldrarnir sem þurfum að hafa vit fyrir börnunum okkar. Hafið það í huga að eiga hollan og góðan mat í ískápnum þegar börnin koma heim úr skólanum. Venjið börnin á að fá sér brauð og ávexti seinni part dags í stað þess að opna kexpakka. Ef börnin eru ekki vön því að fá sér ávexti, prófið þá að skera ávexti niður í bita og raða fallega á disk og bjóða sem eftirmat – þá er ég viss um að þeir rjúki út!

Einnig er hægt að eiga í ískápnum rófubita eða gulrætur sem búið er að hreinsa. Við erum fyrirmyndirnar. Ef foreldrarnir borða óhollt fæði, gerir öll fjölskyldan það.

Tengdar greinar á Doktor.is