Yfirlitsmyndir – miðtaugakerfið

Mynd 1

Yfirlitsmynd yfir miðtaugakerfið

Sneitt er gegnum höfuðkúpuna miðja fram og aftur og niður höfuð og háls eftir miðlínu. – Sjá enn fremur texta.

Mynd 2

Helstu drættir í gerð taugungs

EN, L og M eru staðir í frymi í bol taugungs, er hafa enzým að geyma, sem lúta að framleiðslu og umbrotum ýmissa efna m.a. boðefna. Vinstra megin á myndinni ofanvert eru sýnd skaft-bol taugungamót. Sjá enn fremur texta.

Mynd 3 Taugungamót (riss) í miðtaugkerfi

Myndin sýnir taugungamót (riss) í miðtaugkerfi. Stóru taugungamótin á miðri mynd eru milli skaftenda taugungs nærmegin (að ofan) og bols taugungs fjærmegin (að neðan). Vinstra megin á myndinni eru önnur taugungamót milli skaftenda tveggja taugunga. Á milli má sjá taugungamótaglufur.

N: Frumukjarni í bol taugungs fjærmegin. 1: Göng er liggja eftir skafti taugungs nærmegin frá bol og til skaftenda (endahnapps). Um þau flytjast næringarefni, forstig boðefna eða boðefni o.fl. til skaftenda.

2: Frumuhimna í skaftenda taugungs nærmegin. 3: Staðir í frymi í skaftenda taugungs nærmegin taugungamóta er hafa enzým að geyma er lúta að framleiðslu eða umbrotum boðefnis og blöðrur (auðir hringir) er geyma boðefnið. Úr blöðrum þessum losnar boðefni inn í taugungamótaglufuna þegar svörun hefur flust allt skaft taugungs á enda og fruman leitt. Í taugungamótaglufum verkar boðefnið ýmist örvandi eða hamlandi á viðtæki fjærmegin, 5. Boðefnið getur þó einnig verkað á viðtæki nærmegin, 4, og haft áhrif (oft til hömlunar) á síðari losun sjálfs sín. 6: Frumuhimna í bol taugungs fjærmegin taugungamóta þar sem ýmist „opnast fyrir leiðslu eða lokast“ eftir því hvort boðefnið, sem í taugungamótaglufun losnar, er örvandi eða hamlandi. 7: Skaft taugungs fjærmegin taugungamóta er liggur í átt að öðrum taugung (og myndar þar taugungamót). 8: Skaftendi millitaugungs er myndar skaft – skaft taugungamót nærmegin við skaft-bol taugungamótin sem sýnd eru á miðri mynd (sbr. einnig mynd 7). – Sjá enn fremur texta.

Mynd 4

Myndin sýnir helstu dópamínvirkar taugabrautir (brautir sem hafa dópamín að boðefni) í miðtaugakerfinu. Þær eiga flestar upphaf sitt í miðheila (bolir frumnanna eru þar) í miðheilaloki (tegmentum) eða svartsviði (substantia nigra).

Brautir frá bolum taugafrumna í svartsviði liggja til djúphnoða (veigamesti hluti þeirra nefnist corpus striatum) og víðar svo og sennilega til stúku. Brautir frá miðheilaloki liggja til ennisgeira, hringbarkar (sést ekki á myndinni) og Nucleus accumbens (íslenskt heiti vantar), sem er eiginlega neðsti hluti af corpus striatum. Nucleus accumbens liggur rétt yfir lyktarhnoðinu en þangað liggja einnig dópamínvirkar brautir. Í undirstúku eru einnig dópamínvirkar brautir sem stýra að hluta seytrun hormóna frá heiladingli.

Bilun í dópamínvirkum brautum frá svartsviði er frumorsök Parkinsonssjúkdóms og ofvirkni í sumum dópamínvirkum brautum frá miðheilaloki kann að tengjast uppkomu geðklofa. Truflun í þessum brautum til Nucleus accumbens virðist vera ein helsta forsenda ávana og fíknar (sjá texta).

Mynd 5

Talið er að allt að því 90% fullorðinna karla á Íslandi á aldrinum 20-69 ára og 75% kvenna á sama aldri neyti áfengis. Um það bil 80-90% þeirra sem neyta áfengra drykkja nota áfengi félagslega (efri hluti myndarinnar) en allt að því 20% á ávanastigi eða fíknistigi (neðri hluti myndarinnar). Þeir síðasttöldu nefnasta alkóhólistar og eru haldnir alkóhólisma. Meðal þeirra eru konur þó enn í greinilegum minnihluta. Venjan er sú (með mörgum frávikum þó) að alkóhólismi þróast frá félagslegri notkun á löngu árbili. Sama gildir og um þróun frá ávanastigi á fíknistig.

Félagsleg notkun kann að vera óráðgerð eða tilviljanakennd (efsti ferningur) en er oft meira eða minna ráðgerð (þrír ferningar í annarri röð). Notkun samkvæmt venju eða vegna streitu o.fl. er stundum erfitt að greina frá notkun á ávanastigi.

Notkun á ávanastigi (ferningur í þriðju röð) einkennist af röð vandamála eða vandkvæða, félagslegra og líkamlegra. Á ávanastigi hefur hlutaðeigandi þó nokkra stjórn á drykkjunni. Á fíknistigi, sem er hástig ávanans, er áfengisneysla úr böndum og að miklu leyti án sjálfsstjórnar til langframa eða tímabundið (tveir neðstu ferningarnir). Á fíknistigi er neysla áfengis þannig orðin þungamiðjan í tilveru viðkomandi einstaklings.

Hugtakið misnotkun getur spannað allt notkunarmynstur áfengis.

Mynd 6

Áfengisflæði og líffæraskemmdir

Á myndinni er sýnd áfengisflaska. Úr henni flæðir áfengi sem eftir atvikum getur verið bjór, borðvín, heitvín, sterkt áfengi eða ólöglega framleitt áfengi (brugg eða landi). Þegar áfengi hefur verið drukkið frásogast etanól sem í því er og berst eða flæðir eftir blóðbraut til líffæra. Alkóhólistar, en einnig að nokkru þeir sem nota áfengi félagslega, eiga á hættu að hljóta margháttaðar líffæraskemmdir af neyslunni án tillits til áfengistegundar.

Mynd 7

Vinstra megin á myndinni er sýndur þverskurður af hálfri mænu að miðju. Í afturhorni (bakhorni) mænu eru bolir taugafrumna, 3, er mynda taugungamót við sköft innlægra sársaukaflytjandi taugafrumna, 1. Frá bolum fyrrnefndra taugafrumna í afturhorni liggja því næst sköft er flytja sársaukaboðin áfram upp mænu og heilastofn. Í afturhorni mænu eru einnig litlir taugungar, millitaugungar, 2, sem talið er að myndi skaft – skaft taugungamót við sköft innlægra sársaukaflytjandi taugafrumna, 1. Hægra megin er að ofan sýndur bolur og sköft innlægrar sársaukaflytjandi taugafrumu og að neðan er sýnt riss af því hvernig menn hugsa sér tengslin milli skafta taugafrumna 1 og 2 og milli skafts taugafrumu 1 og bols taugafrumu 3. Í framhorni mænu eru bolir taugunga er senda sköft út úr miðtaugakerfinu og mynda hreyfitaugar til þverrákóttra vöðva.

Við leiðslu í skafti taugungs 1 er talið að fram komi við enda skaftsins örvandi boðefni (súbstans P) er verkar á viðtæki fjærmegin í taugungamótum við bol taugafrumu 3 þannig að sá taugungur svarar og leiðir og sendir boðin áfram upp mænu og heilastofn (sbr. á undan). Flest bendir til að morfínpeptíð er losna við enda skafts millitaugungs 2, í taugungamót við skaft taugungs 1, hamli losun á súbstans P og deyfi þannig sársauka. Talið er að verkjadeyfandi verkun morfíns og morfínlíkra lyfja sé til þess að rekja að þau verki á sömu viðtæki og fyrrnefnd peptíð, ásamt þeim eða í stað þeirra.