Zikaveira

Efnisyfirlit

Inngangur

Til okkar berast fréttir utan úr heimi um alvarlegar afleiðingar Zikaveirusýkinga. Zikaveiran er talin sérstaklega hættuleg þunguðum konum en smit getur valdið alvarlegum fósturskaða og börn mæðra sem sýkst hafa af veirunni eru í hættu á að fæðast með lítið höfuð sem er afleiðing þess að heilinn er vanþroska og smár (microcephaly).

Veiran

Zikaveiran telst til svokallaðra flaviveira og berst hún í menn með stungum sýktra moskítóflugna af tegundinni Aedes aegypti. Veiran uppgötvaðist fyrst á fimmta áratug síðustu aldar en sýking af völdum veirunnar var þá talin sjaldgæf og bundin við Afríku og Asíu. Árið 2015 varð vart við mikla útbreiðslu Zikaveiru í Brasiliu. Fljótlega vöknuðu grunsemdir um sterkt samband á milli Zikaveirusýkinga og fjölgun tilfella nýfæddra barna á svæðinu með vanþroska á heila og dverghöfuð. Á sama tíma var greint frá tilfellum þar sem talið var að veiran hefði valdið heilkenni bráðrar fjöltaugabólgu (Gullain-Barré syndrome). Nú berast fréttir af því að nokkur tilfelli Zikaveiru sýkinga hafi greinst í Florida í Bandaríknunum en talið er að hinir smituðu hafi verið bitn­ir af moskítóflug­um sem áður höfðu bitið ein­stak­linga sem smit­ast höfðu af veirunni á ferðalög­um sín­um um Suður Ameríku. Þannig virðist veiran vera að stinga sér niður víðar í heiminum og þeir sem hafa hugsað sér að ferðast til landa þar sem veiran er landlæg eða hefur greinst ættu að kynna sér málið vel og þær ráðleggingar sem heilbrigðisyfirvöld gefa vegna veirunnar.

Einkenni

Talið er að um 80% þeirra sem smitast af Zikaveiru fái engin einkenni en hjá þeim 20% sem veikjast þá eru algengustu einkennin hiti, útbrot, liðverkir og hvarmabólga. Einkennin vara frá nokkrum dögum upp í viku og eru yfirleitt frekar væg og ganga yfir án frekar meðferðar. Ekki er vitað fyrir víst hvað langur tími líður frá smiti þar til einkenni koma fram en talið er að það séu nokkrir dagar.

Smitleiðir

  • Helsta smitleið Zika veirunnar er með biti moskítóflugna sem sýktar eru af veirunni.
  • Sýking getur borist frá móður til fósturs.
  • Hugsanlegt er að sýking geti borist með blóðgjöf.
  • Greint hefur verið frá tilvikum þar sem veiran er talin hafa smitast með kynmökum. Veiran hefur greinst í sæði í allt að 4 vikur eftir veikindi.

Smitleiðir veirunnar hafa enn ekki verið að fullu kortlagðar en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) er með það sem forgangsmál að rannsaka þær til fullnustu.

Greining

Grunur getur vaknað um sýkingu af völdum Zikaveiru út frá einkennum ef viðkomandi hefur dvalið á svæðum þar sem veiran er útbreidd. Staðfesting á Zikaveirusmiti er aðeins hægt að gera með frekari rannsóknum á blóði eða öðrum líkamsvessum svo sem þvagi, munnvatni, sæði eða legvatni.

Meðferð

Ef einkenni koma fram við Zikaveirusmit eru þau yfirleitt væg og krefjast ekki sérstakrar meðferðar. Hefðbundnar ráðleggingar við pestum/flensum eiga við í þessum tilfellum, t.d. tryggja næga hvíld, drekka vel af vökva og meðhöndla hita og verki með viðeigandi lyfjum. Ef einkenni versna og/eða ganga ekki yfir með þessum ráðum ætti viðkomandi að leita sér aðstoðar læknis. Enn sem komið er eru ekki til lyf eða bóluefni gegn Zikaveiru.

Smitvarnir og fyrirbyggjandi leiðir

Fyrirbyggjandi aðgerðir gegn moskítóbitum eru mikilvægastar í forvörnum gegn Zikaveirusmiti.

Við dvöl á svæðum þar sem Zika veiran er útbreidd er ráðlagt að nota moskítófælandi áburð (athugið að efni sem innihalda DEET má ekki nota fyrir börn yngri en 3ja mánaða). Einnig er ráðlagt að hylja húðina eins og hægt er með því að klæðast síðerma fatnaði og síðbuxum. Nota skal moskítónet með eða án flugnafælandi efni þegar sofið er.

Vegna skorts á þekkingu á smiti Zikaveiru með kynmökum er karlmönnum ráðlagt að gæta ýtrustu varúðar þar til rannsóknir hafa betur kortlagt hættuna á smiti. Karlmenn sem stunda kynlíf og hafa ferðast á svæðum þar sem Zikaveira er útbreidd er ráðlagt að nota smokka í allt að 8 vikur eftir heimkomu, jafnvel þó einkenni smits séu ekki til staðar. Karlmenn sem hafa fengið einkenni Zikaveirusmits ættu að nota smokka í 6 mánuði eftir smit. Fyrir þá sem eru að huga að barneignum gildir það sama, ráðlagt er að bíða með öll slík plön í a.m.k. 8 vikur eftir dvöl á svæðum þar sem veiran er útbreidd og 6 mánuði ef annað hvort karlmaðurinn eða konan hefur fengið einkenni um smit.

Ferðamenn sem dvalið hafa á svæðum þar sem veiran er landlæg ættu ekki að gefa blóð fyrstu fjórar vikurnar eftir heimkomu.

Sérstakar leiðbeiningar fyrir barnshafandi konur

  • Barnshafandi konur sem hafa hug á að ferðast til landa þar sem Zikaveiran er landlæg eru hvattar til að fresta för þar til eftir fæðinguna ef þess er nokkur kostur.
  • Barnshafandi konum sem hafa verið á svæðum þar sem Zikaveiran er landlæg, er ráðlagt að leita læknis eftir heimkomu óháð því hvort þær hafi veikst eða ekki.
  • Barnshafandi konum sem eru á svæðum þar sem Zikaveira er landlæg er ráðlagt að vera með góðar varnir gegn biti moskítóflugna.

 

Greinin er unnin upp úr leiðbeiningum vegna ferða barnshafandi kvenna til svæða í Mið- og Suður-Ameríku þar sem Zikaveira er landlæg sem voru gefnar út af Embætti Landlæknis í febrúar 2016 og  upplýsingum af vef Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).

Höfundur greinar