Beinbrunasótt

Blæðandi beinbrunasótt/Lost af völdum beinbrunasóttar
(Dengue fever/Dengue hemorrhagic fever/Dengue shock syndrome)

Beinbrunasótt er landlægur sjúkdómur á eftirtöldum landssvæðum: Suður- og Mið-Ameríku, Afríku, Miðausturlöndum, Asíu, Ástralíu og Vestur-Kyrrrahafseyjum. Fregnir berast af og til um faraldra á þessum svæðum. Stöku tilfelli beinbrunasóttar greinast á Norðurlöndum hjá ferðamönnum sem snúa heim eftir dvöl á svæðum þar sem beinbrunasótt er landlæg.

Efnisyfirlit

Smitefni

Smitefnið er veira sem tilheyrir Flavi-veirum, vitað er um fjórar sermisgerðir veirunnar (Dengue 1, 2, 3 og 4). Allar sermisgerðirnar geta valdið blæðandi beinbrunasótt, en sermisgerð 2 orsakar flest tilfellin. Sýking með einni sermisgerð gefur ævilangt ónæmi gegn samsvarandi sermisgerð en hún ver ekki gegn hinum.

Smitleiðir og meðgöngutími

Smit berst með biti moskítóflugna af Aedes-ætt, ýmist Aedes egypti eða Aedes albopictus. Veiran berst í fluguna þegar hún sýgur blóð úr sýktum öpum eða mönnum. Beinbrunasótt smitar ekki manna á milli.
Meðgöngutími er 2–14 dagar, í flestum tilfellum 4–7dagar.

Einkenni og fylgikvillar

Helstu einkenni beinbrunahitasóttar eru höfuðverkur, bein- og liðverkir og upphleypt (maculopapular) útbrot koma eftir nokkra daga. Sjúkdómurinn gengur oftast yfir og sjúklingurinn nær sér að fullu. Stundum er vægur hiti eina einkennið og einnig getur sýkingin verið án einkenna.

Blæðandi beinbrunasótt er alvarlegri sjúkdómsmynd. Helstu einkenni eru hár hiti, blæðingar í slímhúðum og húð og oft fylgir lifrarstækkun. Í alvarlegum tilfellum getur orðið blóþrýstingsfall vegna taps á blóðvökva út í vefi. Það er hættulegt ástand sem getur leitt til dauða í 40–50% tilfella ef það ekki er meðhöndlað. Við fullnægjandi vökvagjöf fer dánartíðni niður í 1–2%.

Klínísk sjúkdómsmynd fer eftir aldri og ónæmissvörun viðkomandi ásamt sermisgerð sem veldur sýkingunni. Svo virðist sem fyrri sýking með einni sermisgerð auki líkur á slæmum einkennum við sýkingu með annarri sermisgerð. Börn og unglingar sem búa á svæðum þar sem beinbrunasótt er landlæg eru í mestri hættu á alvarlegum sýkingum.

Greining

Greining er gerð með mælingu á mótefnum í blóðsýni frá viðkomandi.

Meðferð

Ekki er til nein sértæk meðferð við beinbrunahitasótt.

Forvarnaraðgerðir

Ekki er til neitt bóluefni gegn sjúkdómnum. Hægt er að draga úr líkum á smiti með því að verja sig gegn biti moskítóflugna. Aedes-moskítóflugurnar, sem dreifa smitinu, stinga bæði að degi sem nóttu. Þó eru mestar líkur á biti að kvöldi og ber þá að smyrja húðina með áburði sem er fælandi fyrir moskótóflugur, klæðast síðerma skyrtum og buxum með síðum skálmum. Hægt er að úða flugnaeitri í svefnherbergið og mikilvægt er að sofa undir flugnaneti.

Ekki er þörf á einangrun tilfella með beinbrunaasótt. Sjúkdómurinn smitar ekki manna á milli.

Beinbrunasótt er tilkynningarskyldur sjúkdómur.

Tilkynningarskylda – skráningarskylda

Tilkynningarskyldir sjúkdómar eru þeir sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og jafnframt ógnað almannaheill. Læknum ber að tilkynna sóttvarnalækni um einstaklinga sem veikjast af beinbrunasótt með persónuauðkennum hins smitaða en einnig berast tilkynningar til sóttvarnalæknis frá rannsóknarstofum sem staðfesta sjúkdómsgreininguna. Tilgangur tilkynningar um smitsjúkdóm er að hindra útbreiðslu smits með markvissum aðgerðum t.d. með einangrun, meðferð smitaðra og rakningu smits milli einstaklinga. Til þess að fullnægja þessum skilyrðum verða upplýsingar um líklegan smitunarstað, smitunartíma og einkenni að fylgja tilkynningum. Þannig má tengja smitaða einstaklinga með faraldsfræðilegum hætti, meta áhrif smitsins og grípa til viðbragða.

Greinin er fengin af vef Landlæknis og birtist með góðfúslegu leyfi

Uppfært 27.04.2017

Höfundur greinar